Fréttaskýring
Hólmfríður María Ragnhildard.
hmr@mbl.is
Matsferill, nýtt samræmt námsmat sem leysa á samræmdu prófin af hólmi, verður ekki innleiddur að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Verða þá að minnsta kosti sex ár liðin frá því að hæfni grunnskólanema í lestri og stærðfræði var síðast könnuð innanlands með samræmdri mælingu á landsvísu.
Ólíkt samræmdu prófunum verður nýja námsmatið valkvætt. Verður það lagt í hendur skólastjórnenda, sveitarfélaga eða jafnvel ráðherra að ákveða hvort og þá hvaða próf nemendur verða skyldaðir til að taka.
Óheimilt verður að birta opinberlega niðurstöður einstakra skóla eða sveitarfélaga úr matsferlinum svo ekki verður hægt að gera samanburð þar á milli. Munu skólar aðeins fá upplýsingar um hvernig þeir standi gagnvart landsmeðaltalinu.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, fullyrðir að mikil samstaða ríki um innleiðingu námsferilsins, sem fela muni í sér umfangsmikla breytingu á menntakerfinu.
Heildstætt safn matstækja
Í fjölmörgum tilkynningum Stjórnarráðsins um matsferilinn hefur honum verið lýst sem nýju skipulagi námsmats sem sé ætlað að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara. Sagt er að nýja námsmatinu sé ætlað að „auka við verkfærakistu skóla landsins með heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja til að styðja leiðsagnarmat í skólum“ og að með matsferlinum eigi að kanna kunnáttu, leikni og hæfni út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hverju sinni.
Hið nýja námsmat á rætur að rekja til þess þegar Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði starfshóp í apríl árið 2018 um framtíðarstefnu, markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa.
Tæpum tveimur árum síðar, eða í febrúar árið 2020, skilaði hópurinn niðurstöðum. Voru þar lagðar til verulegar breytingar, þar á meðal að þróað yrði heildstætt safn matstækja sem hefði sama markmið og samræmd könnunarpróf og kæmi í stað þeirra.
Í júlí árið 2021 var tilkynnt að hefðbundin samræmd próf yrðu ekki lögð fyrir um haustið en að nemendur í 4., 7. og 9. bekk gætu tekið ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor. „Fyrirlögn þessi verður fyrsta skrefið í átt að nýju fyrirkomulagi samræmds námsmats fyrir nemendur í grunnskólum,“ sagði í tilkynningunni.
Í febrúar 2022 kom önnur tilkynning um að samræmd könnunarpróf yrðu ekki lögð fyrir á skólaárinu og að matsferill, hið nýja námsmat, yrði þróaður áfram. Var þá einnig greint frá því að fyrsta verkfæri námsmatsins væri komið í gagnið, svokölluð lesfimi, eða hraðapróf í lestri.
Í september 2022 sagði í tilkynningu að með lagabreytingu hefði skyldu um lagningu samræmdra prófað verið frestað út árið 2024 eða á meðan unnið væri áfram að þróun matsferilsins. „Gert er ráð fyrir að útfærsla verkefnisstjórnar á fyrirkomulaginu til framtíðar liggi fyrir vorið 2023,“ kom þar fram.
Í mars árið 2023 var stefna um nýtt námsmat grunnskóla, matsferilinn, kynnt í samráðsgátt. Þar sagði að unnið yrði að gerð fyrstu verkfæra matsferilsins árin 2023-2024 og að þau yrðu tilbúin til notkunar í janúar árið 2025.
Lesfimi eina verkfærið
Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu um hvar matsferillinn væri staddur í ferlinu. Miðstöðin svonefnda var sett á stofn 1. apríl á þessu ári og tók við af Menntamálastofnun, sem um leið var lögð niður.
Að sögn Þórdísar Jónu er matsferill, sem snýst um að kanna hæfni nemenda í læsi annars vegar og stærðfræði hins vegar, enn í þróun. Verða prófin lögð fyrir í upphafi og við lok hvers skólaárs.
Lesferill er sá hluti matsferilsins sem snýr að læsi og er ætlað að meta stöðu og framvindu í lesfimi, lesskilningi, ritun, orðaforða og málskilningi. Lesferill inniheldur auk þess skimunarpróf sem ætlað er að finna nemendur sem eiga í hættu að lenda í erfiðleikum með læsi síðar á skólagöngunni.
Lesfimin, fyrsta verkfæri matsferilsins, er enn sem komið er eina prófið sem hefur verið tekið í gagnið. Um er að ræða valkvætt próf sem lagt er fyrir nemendur þrisvar á skólaárinu og segir Þórdís Jóna þátttöku góða.
Að sögn forstjórans verður næsta skólaár nýtt til að forprófa lesskilningsprófin og munu 20 skólar taka þátt. Prófin verða síðan lögð fyrir fjóra grunnskólaárganga skólaárið 2025-2026.
Þróun stærðfræðimatstækjanna er styttra á veg komin. Að sögn Þórdísar verða þau forprófuð skólaárið 2025-2026 og í kjölfarið tekin í gagnið ári síðar, þ.e. skólaárið 2026-2027, í nokkrum árgöngum. „Svo heldur þróunarvinnan áfram af fullum krafti og fleiri matsferlar líta dagsins ljós eins og í náttúrufræði,“ segir Þórdís Jóna.
Samkeppni ekki góðs viti
Eins og fram kom er ráðgert að óheimilt verði að birta niðurstöður einstakra skóla eða sveitarfélaga úr matsferlinum.
Yrði ekki gott að geta gert samanburð til þess að skólar viti hvar þeir standa og hvar þeir þurfa að bæta sig?
„Hver og einn skóli mun alltaf vita hvar hann stendur gagnvart landsmeðaltalinu. En það er ekki góðs viti að fara að búa til einhvers konar samkeppni milli skóla. Það gefur vissulega einhverjar upplýsingar að vita hvar viðkomandi skóli stendur út frá meðaltali en það þarf að taka tillit til ýmissa hluta eins og til dæmis samsetningar nemendahópsins og hún er gríðarlega mismunandi eins og við þekkjum,“ segir Þórdís Jóna og heldur áfram:
„Auðvitað er mikilvægt fyrir skólann að sjá hvar hann stendur gagnvart landsmeðaltali sem dæmi, en þegar allt kemur til alls er það eina sem skiptir í raun máli að við vitum stöðu og framvindu hvers barns til þess að geta mætt því á þess forsendum og hámarkað möguleika þess til að ná árangri í námi. Þessum prófum munu því fylgja ítarleg úrræði til að bregðast við niðurstöðu prófa hvers og eins barns. Hver og einn skóli mun sannarlega vita hvernig hann stendur sig, og sveitarfélagið mun sannarlega vita það líka. Við munum ekki birta lista yfir þetta og slíkt er þekkt erlendis líka, einmitt af þeim ástæðum sem ég var að nefna.“
Aldrei hafi verið jafn umfangsmikið samráð
Nú var starfshópurinn skipaður 2018, það hefur tekið nokkur ár að vinna úr þessum tillögum og matsferillinn er enn ekki kominn hundrað prósent í gagnið. Er verið að gera nóg?
„Þetta er vissulega langur tími, en ég held að hægt sé að fullyrða að aldrei hafi verið jafn umfangsmikið samráð í neinu máli eins og þessu. Það vekur vonir um að samstaða sé um niðurstöðu og aðgerðir til framtíðar. Það skiptir mestu máli. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og það er það sem við stefnum að alla daga þegar við mætum í vinnuna.“
Samræmd könnunarpróf
Úrelt námsmat?
Samræmd könnunarpróf voru fyrst lögð fyrir nemendur í grunnskóla árið 1929 en hafa tekið margvíslegum breytingum síðan þá. Frá árinu 1946 hafa samræmd próf, eða svokölluð landspróf, verið notuð sem inntökupróf í menntaskóla.
Með lagasetningu sumarið 2008 varð sú breyting að prófin sem nemendur í 10. bekk tóku töldust ekki lengur vera lokapróf í grunnskóla. Lágu prófin sömuleiðis ekki lengur til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla líkt og árin á undan.
Frá árinu 2016 til skólaársins 2020-2021 voru samræmd könnunarpróf lögð rafrænt fyrir nemendur í 4., 7., og 9. bekk. Var það jafnframt í síðasta sinn sem þau voru lögð fyrir. Sumarið 2021 var tilkynnt að nemendur gætu tekið „ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor“ – en svo varð ekki.
Með lagabreytingu sumarið 2022 var skyldu um lagningu prófanna svo frestað til og með 31. desember 2024. Liggja nú fyrir í samráðsgátt áform um breytingu á lögum um grunnskóla þar sem ætlunin er að veita ráðherra heimild til að leggja fyrir kannanir eða próf til stöðumats í stað samræmdra könnunarprófa eða með ákvörðun um þátttöku í alþjóðlegum könnunum, eða m.ö.o. leggja samræmdu prófin niður fyrir fullt og allt.