Volodimír Selenskí
Volodimír Selenskí
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðgjafahópur sem settur var á laggirnar í vor á vegum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, undir forystu Svía, fundaði nú í síðustu viku með æðstu embættismönnum og öðrum ráðamönnum innan Úkraínu um væntanlega framtíðaraðild landsins að Evrópusambandinu

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Ráðgjafahópur sem settur var á laggirnar í vor á vegum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, undir forystu Svía, fundaði nú í síðustu viku með æðstu embættismönnum og öðrum ráðamönnum innan Úkraínu um væntanlega framtíðaraðild landsins að Evrópusambandinu.

Tveir fulltrúar frá Íslandi

Úkraína sótti formlega um aðild að Evrópusambandinu skömmu eftir innrás Rússlands árið 2022, en samþykkt var að hefja samningaviðræður milli sambandsins og Úkraínu nú í sumar. Því var ákveðið að norræn sendinefnd yrði sett á laggirnar til þess að vera Úkraínumönnum innan handar í aðildarferlinu.

Tveir fulltrúar á vegum íslenskra stjórnvalda eiga sæti í ráðgjafahópnum, en það eru þeir Stefán Haukur Jóhannesson og Högni S. Kristjánsson. Þeir hafa báðir starfað innan utanríkisþjónustunnar um langt skeið, ásamt því að búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sviði alþjóðasamskipta og málefna Evrópusambandsins.

Komu víða við

Í samtali við Morgunblaðið segir Stefán að fundarhöldin hafi gengið vel, en að vinna hópsins sé nú aðeins rétt hafin.

„Vinnan er rétt nú að fara af stað, en þetta var aðeins fyrsta ferð starfshópsins til Kænugarðs. Við dvöldum þar í tvo daga og hittum þar alla helstu samningamenn Úkraínu, þar á meðal Denís Shmíhal forsætisráðherra og Júlíu Svírídenkó aðstoðarforsætisráðherra auk fleiri embættismanna,“ segir Stefán. Hann segir fundarhöldin nú fyrst og fremst hafa snúist um að bjóða fram sérfræðiþekkingu starfshópsins og miðla reynslu af samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Úkraínu bíði ærið verkefni.

„Þó að margir innan stjórnkerfisins, þar á meðal forsætisráðherrann, hafi viðrað háleit markmið um að ljúka viðræðum við Evrópusambandið á innan við tveimur árum er flestum ljóst að það er frekar óraunhæft,“ segir Stefán.

„Þeir líta svo á að innganga Úkraínu verði þar með hluti af friðarferlinu og þáttur í fullnaðarsigri yfir Rússum. Margar áskoranir blasa þó við, en það er ekkert launungarmál að t.a.m. er þörf á samhæfðu átaki gegn spillingu innan úkraínsks stjórnkerfis eigi áform þeirra að ganga eftir,“ segir Stefán.

Þó að Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu segir Stefán að reynsla Íslendinga af samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES komi til með að gagnast Úkraínumönnum í aðildarferli sínu, þar sem þörf sé á að segja upp fríverslunarsamningum og semja um tollamálefni að nýju, gangi Úkraína í sambandið.

Íslensk reynsla gagnleg

„Fá ríki eiga í jafn nánu samstarfi við Evrópusambandið og Ísland, og því er okkar reynsla af slíkum samningarviðræðum afar gagnleg.

Þannig mun okkar reynsla af innleiðingu á Evróputilskipunum í gegnum EES-samstarfið koma að góðum notum, en ef af aðild verður þarf einnig að semja við stofnanir á borð við WTO, og kallar það á ýmsar lausnir sem við getum aðstoðað við,“ segir Stefán.