Sigrún Ólafsdóttir fæddist 30. janúar 1945 á Hverfisgötu 6a í Hafnarfirði. Hún lést 26. júlí 2024 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Sigrún var yngsta barn þeirra Ólafs Þorsteinssonar, f. 1910, d. 1984, og Ingigerðar Guðmundsdóttur, f. 1917, d. 1951, en þau áttu fyrir tvo drengi, Óskar, f. 1938, d. 2012, og Baldur, f. 1942.

Þegar Sigrún var sex ára missti hún móður sína og var hún þá tekin í fóstur af ömmubróður sínum Þorbirni Sigurðssyni og konu hans Bjarnþrúði Magnúsdóttur, en þau áttu fyrir þrjú börn, Magnús, Vigdísi og Sólveigu Margréti. Þau hjónin reyndust Sigrúnu sannir foreldrar og var afar kært með þeim.

Sigrún giftist Stefáni Grími Olgeirssyni árið 1964, og átti með honum tvö börn, Ingigerði, f. 1963, og Karl Víking, f. 1964. Sigrún og Stefán slitu samvistir. Ingigerður er gift Gunnsteini Sigurðssyni, f. 1964, og eiga þau tvíburadæturnar Unni Birnu og Dagnýju Rós, f. 2005. Karl Víkingur er kvæntur Unni Örnu Sigurðardóttur og þau eiga Kristínu Ísabellu, f. 1993, Karl Michael, f. 1994, og tvíburasysturnar Sigrúnu Emelíu og Katrínu Daníelu, f. 1998. Kristín Ísabella er í sambúð með Þorsteini Pétri Manfreðssyni Lemke og þau eiga Dagfinn Leó, f. 2022, og Línu Sóleyju, f. 2024.

Árið 1973 kynntist Sigrún Guðmundi Karlssyni, f. 1947, þau giftust árið 1975 og eignuðust tvo syni, Skúla, f. 1975, og Þorbjörn, f. 1983. Skúli kvæntist Hrafnhildi Ylfu Pétursdóttur, f. 1975, og þau eiga saman Lísu Gabríelu, f. 1999, og Ísar Adíel, f. 2002. Þau slitu samvistir, en Skúli býr nú í Stokkhólmi. Sambýliskona hans er Tannia Marinado, f. 1978. Þorbjörn kvæntist Sesselíu Margréti Árnadóttur, f. 1983, og eiga þau saman Rannveigu Örnu, f. 2006, og Gyðu Björk, f. 2009. Þau slitu samvistir. Þorbjörn kvæntist aftur og er kona hans Karin Maria Pettersson, f. 1985.

Árið 1976 tóku þau sig upp, Sigrún og Guðmundur, með þrjú börn og fluttust til Svíþjóðar og þar fæddist Þorbjörn. Þau bjuggu í Stokkhólmi í tíu ár og vann Sigrún hjá félagsþjónustu Stokkhólmsborgar. Fjölskyldan flutti aftur til Íslands árið 1986, og vann Sigrún fyrst hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur, en síðar á launadeild Reykjavíkurborgar allt til starfsloka árið 2014.

Þau hjónin tóku ástfóstri við golfið upp úr síðustu aldamótum og fóru saman í margar golfferðir til Spánar, Portúgals og jafnvel Tyrklands.

Útför Sigrúnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 1. ágúst 2024, klukkan 11.

Við áttum 60 ár, 9 mánuði, 12 daga, 8 klukkustundir og 40 mínútur saman. Böndin á milli okkar voru sterk, elsku mamma, og minningarnar um þig lifa að eilífu.

Þú spurðir mig einu sinni hvort ég hefði átt góða æsku og ég svaraði, já, æskan mín var mjög góð. Þú áttir mig þegar þú varst 18 ára, Kalla 19 ára og varst fráskilin um tvítugt. Við bjuggum í kjallaranum hjá ömmu og afa á Fálkagötunni, sem var fjölskylduhúsið okkar. Maggi á efstu hæðinni með Dóru sinni, afi og amma á miðhæðinni og svo við í kjallaranum.

Þú þrammaðir með okkur í leikskólann, í öllum veðrum og vindum, og svo tókstu strætisvagninn í vinnuna hjá J. Þorláksson og Norðmann. Þú saumaðir og prjónaðir á okkur flíkurnar og lagðir þig alla fram við að gefa okkur góða og áhyggjulausa æsku. Þú stóðst þig vel, mamma mín.

Árið 1973 kom Guðmundur inn í líf okkar og síðan bræður mínir Skúli og Tobbi. Við fluttum til Svíþjóðar 1976 og með Svíþjóðardvölinni bjuggum við til okkar eigin hefðir. Við elduðum sænska jólaskinku á íslenska vegu og við hlustuðum á jólamessu frá Dómkirkjunni á kassettu sem Magga frænka sendi til okkar. Hún var spiluð á slaginu kl. 18.00 öll jólin. Við systkinin eldum ennþá á jólunum sænska jólaskinku á íslenska vegu og viljum hlusta á jólamessuna í útvarpinu.

Þú varst natin, hugulsöm og vildir alltaf allt fyrir okkur gera. Þú kenndir mér að prjóna og rekja upp. Þú ert aldrei ánægð, Inga, sagðir þú við mig þegar ég dæsti yfir prjónaskapnum. Þú saumaðir jólakjólana, brúðkaupskjól, jakkaföt, peysur, vettlinga og sokka. Það lék allt í höndunum á þér, mamma mín. Matreiðslan var ekki síðri og þú og Guðmundur voru saman í því að elda góðan mat og að baka. Þegar barnabörnin komu bættir þú í prjónaskapinn og náðir að prjóna vöggusett á yngsta langömmubarnið þitt, hana Línu Sóleyju, núna í júní. Þú hugsaðir vel um okkur, elsku mamma mín.

Við töluðum saman í síma á hverjum degi eftir fréttir kl. 19.30 um allt og ekki neitt. Þú hringdir oftast, ef ekki þá hringdi ég.

Í byrjun júlí hættir þú að hringja og veikindi fóru að setja mark sitt á þig. Ég kveð þig í dag með sorg í hjartanu og tár í augunum og vildi bara láta þig vita að við systkinin áttum góða æsku og fengum gott uppeldi, elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Ingigerður (Inga).

Hæ, ert þetta þú?

Við þekktumst frá því að við vorum börn og stofnuðum Saumó þegar við vorum í gagnfræðaskóla. Við þekkjumst svo vel að það er alltaf eins og við höfum hist í gær þó komið hafi fyrir að nokkur ár hafi skilið sumar okkar að. Nú kveðjum við hana Sigrúnu okkar.

Sigrún var alltaf eins og klettur í hópnum. Maður vissi alltaf hvar maður hafði Sigrúnu og hún vissi hver hún var og fyrir hvað hún stóð. Hún var sterk, hreinskiptin og hlý. Svo var hún algerlega laus við það sem kallast væmni. Vinátta okkar í þessum saumaklúbbi var ofin úr sama reynsluheimi; við vorum jafn gamlar og allar ólumst við upp í Vesturbænum. Þegar við urðum sjötugar prjónaði Sigrún á okkur allar forkunnarfallega vettlinga með þjóðlegu munstri. Það var óvæntur glaðningur og svona sýndi hún okkur væntumþykju sína. Það var svolítið eins og Sigrún: „Why not?“

Þegar Saumó hittist var jafnan talað mikið og allar í einu. Þetta varð eins og vinátturitúal; skipti engu um hvað var talað, bara samveran, nálægðin og vinátta okkar skipti öllu.

Elsku Sigrún, hvíl þú í friði og við þökkum þér allar ánægjustundirnar.

Þín verður sárt saknað.

Stelpurnar í Saumó,

Anna, Emma, Hjördís, Ingibjörg, Norma og Þuríður.