Loftmynd Skíðaskálinn í Hveradölum er við jarðhitasvæði. Áformað er að hækka þjónustustigið á svæðinu.
Loftmynd Skíðaskálinn í Hveradölum er við jarðhitasvæði. Áformað er að hækka þjónustustigið á svæðinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kynnt hefur verið breyting á deiliskipulagi fyrir lóð Skíðaskálans í Hveradölum. Meginbreyting tillögunnar felst í því að stærð og lögun þriggja byggingarreita hefur verið breytt og einum bætt við. Nánar tiltekið hefur lögun reita 4-6 verið breytt og reit 7 verið bætt við

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kynnt hefur verið breyting á deiliskipulagi fyrir lóð Skíðaskálans í Hveradölum. Meginbreyting tillögunnar felst í því að stærð og lögun þriggja byggingarreita hefur verið breytt og einum bætt við. Nánar tiltekið hefur lögun reita 4-6 verið breytt og reit 7 verið bætt við.

Sagt er frá kynningunni í Skipulagsgáttinni en umsagnarfrestur er til 15. september. Félagið Heklubyggð er skráð fyrir verkefninu en tillagan er unnin af Alternance. Með breytingunni kemur ný hótelbygging á reit 6 og þjónustubyggingar færast yfir á reit 4. Þá eru bílastæði flutt frá miðsvæði að Suðurlandsvegi til að draga úr áhrifum þeirra á svæðið og nýta betur miðsvæðið, að því er segir í kynningunni.

Aðalhönnuður þessarar tillögu Alternance er Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt FAÍ.

Stækka á Skíðaskálann

Á teikningunni hér hægra megin fyrir ofan má sjá hvernig svæðið gæti litið út fullbyggt en tillagan er í mótun. Skíðaskálinn í Hveradölum er vinstra megin fyrir miðri teikningunni, á reit 5, en áformað er að stækka skálann um 500 fermetra. Til samanburðar eru núverandi byggingar innan þess reits sagðar um 842 fermetrar.

Skáhallt á móti hótelinu, á reit 4, er áformað að reisa gróðurhús, verslun og þjónustu, samtals um 2.150 fermetra, en stærðir miðast við byggingarmagn ofanjarðar og heimilt er að vera með kjallara undir húsunum.

Á reit 7, á milli reita 4 og 6 og gegnt Skíðaskálanum, verða aðkomuvegur, torg og sýningarhús.

Stærsta byggingin sem fyrirhugað er að reisa í Hveradölum er um 5.500 fermetra hótelbygging á þremur hæðum á reit 6. Ætlunin er að hótelbyggingin verði byggð úr mörgum álmum sem verða staðsettar innan byggingarreits. Álmurnar mega vera misháar en hámark þrjár hæðir að viðbættu risi. Þessu til viðbótar er heimilt að reisa skíðalyftur. Fyrirhugað er að leggja tilbúið yfirborðsefni, þ.e. gervisnjó, í skíðabrekku og einnig að gera gönguskíðabrautir úr sama efni sem liggja um svæðið.

Nokkur hundruð stæði

Skilgreind eru tvö aðkomusvæði og svæði fyrir bílastæði. Annars vegar fyrir baðhús og baðlón í Stóradal þar sem gert er ráð fyrir að allar götur og bílastæði verði upphituð með jarðhitavatni frá lóninu og hins vegar bílastæði fyrir lóð Skíðaskálans. Fjöldi bílastæða skal vera um 300 og rútustæði skulu vera um það bil 10 fyrir baðhúsið og baðlón í Stóradal.

Falli vel að umhverfinu

Þá segir í kynningunni að á lóð Skíðaskálans séu bílastæði fyrir um það bil 200 bíla og fimm rútur. Bílastæði verða afmörkuð með hleðsluveggjum eða með samskonar gróðurþekju og náttúran í kring, svo að stæðin falli sem best að umhverfinu.

Samkvæmt Creditinfo er Grettir Rúnarsson skráður fyrir öllu hlutafé í Heklubyggð. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og hefur verið sagt frá hugmyndum um að byggja hótel í Hveradölum og að nýta affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun í baðlón.