Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Náttúruhamfarir á Íslandi koma oftast óvænt og afleiðingar af þeim eru ófyrirséðar. Vatnssöfnun í sigkötlum Mýrdalsjökuls yfir sumartímann er alþekkt og þegar kemur fram í júlímánuð má jafnan búast við flóðum úr þeim elfum sem frá jöklinum renna. Þetta hefur oft gerst; hlaup í Skaftá, Eldvatni, Kúðafljóti eru óteljandi. Yfirleitt eru þetta skaðlitlar hamfarir; vatn flæðir yfir bakka, girðingar skemmast og leiðir lokast um skemmri tíma. Þetta hvekkir til dæmis ferðamenn sem verða strandaglópar og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Yfirleitt leysast málin þó farsællega.
Gosórói og bæir rýmdir
Flóð lík því sem varð um sl. helgi, þegar hringvegurinn við Skálm fór í sundur í vatnsflóði, eiga sér hliðstæðu. Í júlí 2011 tók af brúna á Múlakvísl sem er vestast á Mýrdalssandi. Föstudagskvöldið 8. júlí kl. 19.20 kom sterkur órói við Mýrdalsjökul fram á mælum Veðurstofu Íslands sem ágerðist eftir því sem á kvöldið leið. Á miðnætti, eða því sem næst, hófst svo hlaup í Múlakvísl með miklum vexti í fljótinu. Klukkan 4.06 um nóttina skall svo alda eða flóðbylgja á brúnni yfir Múlakvísl svo hana tók af í heilu lagi. Mannvirkið, 130 metra langt og hundruð tonna á þyngd, flaut í burt eins og viðarfjöl.
Klukkan 7 um morguninn var hlaupið í hámarki og á mælum sást gosórói í Kötlujökli, sem er suðaustanvert í Mýrdalsjökli. Hættuástandi var lýst yfir og í morgunsárið voru íbúar á bæjum í Álftaveri og Meðallandi beðnir að yfirgefa heimili sín. Hvað gerst hafði sást vel þennan morgun þegar flogið var yfir jökul; þá blöstu við sigkatlar og sprungur. Vísindamönnum var þó sömuleiðis ljóst að hamfarirnar voru yfirstaðnar og hættustigi var aflýst svo fólk á þeim svæðum sem rýma hafði þurft heimili sín mátti snúa aftur.
Mikið var í húfi
Stóri höfuðverkurinn þegar hér var komið sögu var sá að hringvegurinn var í sundur og æðakerfi landsins rofið. Strax á laugardeginum var greint frá áhyggjum fólks í ferðaþjónustunni af stöðu mála, enda væri mikið í húfi. Ferðamönnum sem komu til landsins var mjög að fjölga; segja má að í þeim efnum hafi orðið sprenging með eldgosinu í Eyjafjallajökli árið áður, 2010. Ísland hafði þá á heimsvísu fengið athygli sem tekist hafði að nýta á jákvæðan máta. Því þurfti að bregðast skjótt við, rétt eins og var gert. Og úr þessu öllu varð heilmikið ævintýri.
Strax að morgni sunnudagsins 11. júlí hófust framkvæmdir við byggingu bráðabirgðabrúar yfir Múlakvísl. Mannskapur víða frá var ræstur til og efni sótt. Í birgðageymslum Vegagerðarinnar hér og þar um landið voru til stykki og stórir bútar sem nota mátti í brú og var því efni rekið á staðinn, þangað sem komið hafði verið með krana og stórvirkar vinnuvélar. Staurar og stólpar voru reknir niður og hamarshögg glumdu. Reiknað var þá með að brúarsmíðin tæki 2-3 vikur.
„Við vonumst auðvitað til að geta verið fljótari, menn hafa meiri reynslu nú og önnur tæki, en þetta tekur sinn tíma, alveg sama hvort ferðaþjónustan eða aðrir eru óhressir. Það er tæknilega ómögulegt að gera þetta hraðar,“ sagði Hreinn Haraldsson þá vegamálastjóri í samtali við Morgunblaðið. Gat þess þá sérstaklega að mannvirkið þyrfti að ráða við þunga jökulfljóts og hvikular aðstæður í slíku umhverfi.
Fljúgandi ferð
Sá sem þetta skrifar fór fyrir Morgunblaðið austur að Múlakvísl til þess að fylgjast með framkvæmdum, þar sem allt var á fljúgandi ferð. Þá var beggja vegna fljótsins fjöldi fólksbíla sem ferjaðir voru yfir á stórum trukkum. Einnig voru rútur í ferðum; þar sem ekið var yfir ána á vaði, stundum tæpu, og upp komu tilvik þar sem litlu mátti muna. Vel á annað þúsund manns voru á sólarhring með þessu móti flutt og hundruð bíla. Og þarna var satt að segja einhver stemning í loftinu; til dæmis þegar björgunarsveitarmaður gekk á milli bíla með stóra könnu og pappamál og skenkti fólki kaffi. Var hressingunni vel tekið, því biðin eftir flutningi yfir beljandi fljótið gat tekið marga klukkutíma.
„Voru ferðamenn uppnumdir yfir þessari svaðilför,“ sagði í frétt Morgunblaðsins föstudaginn 15. júlí en þá var farið að sjá til lands við brúarsmíðina sem gengið hafði vel og á ævintýralegum hraða. Svo fór líka að ný bráðabirgðabrú var opnuð laugardaginn 16. júlí; viku eftir að hina fyrri tók af.
Lögðu nótt við dag
„Þetta áhlaupsverk sýnir hvers þjóðin er megnug þegar allir leggjast á árar,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra við Morgunblaðið. „Þarna voru sannir og góðir Íslendingar að verki. Brúarvinnuflokkar, verkfræðingar, hönnuðir og aðrir unnu fumlaust frá fyrstu mínútu og vegamálastjóri sagði mér eftir að hlaupið tók brúna, að við mættum treysta að Vegagerðin legði nótt við dag. Það stóðst og gott betur.“
Fljótlega eftir þetta hófst svo hönnun nýrrar og varanlegrar brúar yfir Múlakvísl. Sú var opnuð formlega sumarið 2014; 162 metra löng og er brúargólfið tveimur metrum hærra en á eldri brú með það fyrir augum að vatnsflóð nái ekki að skola neinu burt. Slík hönnun var raunar hluti af þeirri mikilvægu reynslu og þekkingu sem þarna hafði orðið til, því síðan þetta var hefur í snatri þurft að reisa fleiri brýr. Má þar nefna að haustið 2017 skekktist brúin yfir Steinavötn í Suðursveit í miklum vatnavöxtum, svo reisa þurfti nýja og varanlega brú í hennar stað.