Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Árið 2023 höfðu 43,5% landsmanna á aldrinum 25-34 ára háskólamenntun, þar af 31% karla og 57,5% kvenna. Þetta kemur fram í gögnum sem Hagstofa Íslands birti í vikunni vegna síðasta árs og byggjast á vinnumarkaðsrannsókn stofnunarinnar.
Mikill munur er á menntunarstigi ungs fólks eftir kyni og búsetu. Þannig hafði aðeins fimmti hver karlmaður í aldurshópnum sem búsettur er á landsbyggðinni háskólamenntun, samanborið við hátt í tvær af hverjum þremur konum á sama aldri á höfuðborgarsvæðinu.
Úrtak rannsóknarinnar er of lítið til að greina þróun eftir uppruna, en það kann að hafa áhrif að töluvert er um ómenntaða karlmenn sem koma til landsins og vinna störf úti á landi til skamms tíma. Það getur þó ekki skýrt muninn nema að hluta.
Konur leiðandi á landsvísu
Um helmingur einstaklinga í aldurshópnum sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu hafði háskólamenntun, samanborið við þriðjung á landsbyggðinni.
Munurinn er mikill milli kynja í aldurshópnum, þar sem konur skara fram úr körlum hvort heldur sem er innan eða utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig höfðu um 63% kvenna á höfuðborgarsvæðinu háskólamenntun og 48% kvenna á landsbyggðinni, samanborið við 36% karla á höfuðborgarsvæðinu og 21% karla á landsbyggðinni.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur hlutfall háskólamenntaðra í aldurshópnum aukist úr 42% í 49% á síðastliðnum tíu árum. Aukning þessi er einkum drifin áfram af konum, en hlutfall háskólamenntaðra karla á höfuðborgarsvæðinu var nánast það sama árin 2023 og 2013, um 36,5% á meðan hlutfall kvenna hefur aukist um ríflega 14 prósentustig, úr 48% í 63%.
Á landsbyggðinni hefur hlutfall háskólamenntaðra í aldurshópnum farið úr 27% í 33%. Þar hefur hlutfall háskólamenntaðra karla aukist um sex prósentustig frá árinu 2013, úr 15% í 21% og hlutfall háskólamenntaðra kvenna um átta prósentustig, úr 40% í 48%.
Markmið snúa að samkeppnishæfni og lífsgæðum
Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að hlutfall háskólamenntaðra innan ESB verði 45% árið 2030. Ísland er ekki langt frá því með 43,5%. Í samtali við Morgunblaðið segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, íslensk stjórnvöld ekki hafa sett eiginlegt markmið af því tagi, heldur sé einkum horft til þess hvernig við stöndum í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Lykilatriði sé að menntun fólks stuðli að alþjóðlegri samkeppnishæfni Íslands, verðmætasköpun og þar með auknum lífsgæðum.
„Í samanburði okkar við hin norrænu löndin má sjá að munurinn felst eingöngu í færri háskólamenntuðum körlum. Við erum á svipuðum slóðum og nágrannalöndin hvað varðar háskólamenntaðar konur. Markmið okkar er að halda í við önnur lönd hvað varðar samkeppnishæfni, auka hér verðmætasköpun og lífsgæði. Í þeim efnum verðum við að tryggja nægan fjölda menntaðra sérfræðinga og þar þurfum við að gera betur sér í lagi hvað varðar karla,” segir Áslaug Arna.
Hún segir mikilvægt að menntakerfið stuðli að því að manna störf í vaxandi greinum. „Það vantar til dæmis háskólamenntaða sérfræðinga í vaxandi geira á borð við hugvit og nýsköpun, sér í lagi úr svokölluðum STEM-greinum, það eru raunvísinda- og tæknigreinar. Þar komum við ekki vel út í samanburði við önnur lönd og þetta heldur aftur af samkeppnishæfni okkar.“
Hvatar auki framboð á landsbyggðinni
Áhersla hafi verið lögð á að hvetja drengi til þess að sækja um háskólanám og iðnnám. „Undanfarin tvö ár hefur skráningum karla í háskólanám fjölgað auk þess sem við höfum séð fjölgun karla í iðnnámi, án þess þó að það skýri þann kynjamun í háskólanámi sem tölurnar gefa til kynna.“
Þá hafa verið innleiddir hvatar til þess að auka framboð háskólanáms á landsbyggðinni.
„Á undanförnum árum hef ég orðið vör við mikla eftirspurn eftir auknu framboði af fjarnámi sem og fjölbreyttara staðnámi á landsbyggðinni. Í fyrsta skipti hefur fjármögnunarlíkani háskólanna verið breytt þannig að það byggist bæði á ákveðnum hvötum og gæðamælikvörðum. Þannig hafa fjárhagslegir hvatar verið innleiddir til aukins samstarfs háskólanna, aukins fjarnáms og til að halda uppi staðnámi á landsbyggðinni.
Sem dæmi um þetta nefnir Áslaug Arna samstarf Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. „Háskólinn í Reykjavík kennir tækni- og tölvunarfræði í samstarfi við Háskólann á Akureyri bæði fyrir norðan og austan. Þetta kemur meðal annars til af þessum fjárhagslegu hvötum sem við höfum innleitt.“
Spurð hvort hún telji stöðu mála á háskólastigi tengjast stöðu grunnskólanna, sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu, segir hún mikilvægt að ræða menntakerfið heildstætt.
„Það gleður mig að sjá mikla umræðu um menntamál á síðustu misserum, en mér hefur lengi þótt þau mál ekki fá næga athygli miðað við mikilvægi þeirra og hversu miklir almannahagsmunir eru fyrir því að menntakerfið okkar sé gott. Við verðum að þora að horfast í augu við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og greina hvar við getum gert betur – og gögn Hagstofunnar undirstrika það.“