Ásdís Rán Gunnarsdóttir, athafnakona og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, eyðir verslunarmannahelginni þetta árið á öðru heimili sínu í Búlgaríu, en hún hefur verið þar frá því að kosningabaráttunni lauk.
„Það er engin verslunarmannahelgi hjá mér beint en ég er bara að njóta í sólinni og kem svo heim um miðjan ágúst í rigninguna og rokið,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
„Það hefur verið frekar leiðinlegt veður oft á þessum tíma, þannig að mig klæjar ekkert í puttana að skella mér í útilegu núna. Kýs frekar að liggja á ströndinni í 30 stiga hita,“ segir Ásdís en bætir við að í góðu veðri sé útilegustemningin á Íslandi mjög skemmtileg.
Ásdís hefur oftast verið á hátíðinni Ein með öllu á Akureyri yfir verslunarmannahelgina þegar hún er á Íslandi og finnst hún skemmtileg.
„Maður verður að ná því allavega einu sinni, áður en maður verður of gamall. Eða er maður einhvern tímann of gamall fyrir Þjóðhátíð? spyr Ásdís og hlær, spurð hvort hún stefni á að skella sér einhvern tímann í dalinn.
Ásdís segist ekki vita hvað tekur við í haust, það verði bara að koma í ljós.