40 ára Handritshöfundurinn og leikstjórinn Ása Helga Hjörleifsdóttir fæddist í Reykjavík. Hún bjó um tíma sem barn í Chicago í Bandaríkjunum og í Coventry á Englandi og dvaldi síðan eitt ár í Winnipeg þegar hún var 19 ára. Hún lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá HÍ og síðan MFA-prófi í kvikmyndagerð frá Columbia-háskóla í New York með ágætiseinkunn árið 2012. Ása Helga hefur skrifað og leikstýrt fjölda stuttmynda, þ. á m. verðlaunamyndinni Ástarsögu (2012) sem hefur verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða og var í lokaúrtaki útskriftarmynda úr háskólum fyrir Óskarsverðlaunin 2013. Fyrsta mynd Ásu Helgu í fullri lengd var Svanurinn (2017), byggð á samnefndri sögu Guðbergs Bergssonar. Svanurinn vann til fjölda verðlauna og var sýnd út um allan heim. Næsta mynd hennar í fullri lengd, Svar við bréfi Helgu (2022), byggist á samnefndri skáldsögu Bergsveins Birgissonar og hefur einnig verið sýnd víða á kvikmyndahátíðum erlendis.
Ása Helga hefur einnig unnið með listamanninum Ragnari Kjartanssyni og leikstýrði verkinu Santa Barbara, vídeó- og performansverki hans sem var sýnt í Moskvu 2021-2022.
Ása Helga var ráðin dósent við Kvikmyndadeild Listaháskóla Íslands í byrjun árs 2023.
Fjölskylda Eiginmaður Ásu Helgu er Gunnar Þorri Pétursson, þýðandi rússneskra bókmennta, sjálfstætt starfandi fræðimaður og fyrirlesari, f. 1978. Þau eiga synina Pétur Véstein, f. 2015, og Völund Mána, f. 2021 og búa í vesturbæ Reykjavíkur.