Sigrún Jónsdóttir fæddist á Búðum í Fáskrúðsfirði þann 7. júlí 1923. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi þann 9. júlí 2024.

Hún var dóttir hjónanna Jóns Austmann Bjarnasonar, f. 19.1. 1880, d. 17.9. 1962, og Katrínar Pálsdóttur, f. 3.3. 1887, d. 30.9. 1967. Alsystkin hennar voru Dagný Jónsdóttir, f. 12.6. 1912, d. 20.3. 2002, Helgi Leifur Austmann Jónsson, f. 3.2. 1915, d. 8.1. 1987, Alda Bjarnheiður Jónsdóttir, f. 1.7. 1931, d. 22.12. 2004.

Hinn 3. maí 1951 giftist Sigrún Ólafi Júlíussyni frá Ólafsvík, f. 16.10. 1917, d. 3.8. 2009, hann var sonur hjónanna Júlíusar Sigurðssonar, f. 1.7. 1889, d. 7.1. 1920, og Sólveigar Bergmann Sigurðardóttur, f. 26.3. 1893, d. 13.4. 1968. Börn: 1) Júlíus Ólafsson, f. 31.10. 1951, kvæntur Lillian Óskarsdóttur, þau eiga þrjú börn, Sigrúnu Ástu, Ómar og Barða Pál. 2) Guðrún Ólafsdóttir, f. 25.6. 1953. 3) Sólveig Katrín Ólafsdóttir, f. 6.11. 1956, d. 31.12. 2018, hún var gift Oddbirni Friðvinssyni, þau eiga þrjú börn, Ólaf, Friðvin Loga og Dagnýju Björk. Langömmubörn hennar eru orðin fimm.

Sigrún var verkakona og húsmóðir.

Útför Sigrúnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 1. ágúst 2024, klukkan 13.

Elsku amma.

Þegar við hugsum til þín þá koma upp í hugann svo margar góðar minningar.

Þú varst spilamanneskja af lífi og sál og alltaf tilbúin að grípa í spil þegar við barnabörnin komum í heimsókn. Þegar vel gekk í spilamennskunni mátti varla stoppa til að sækja mat, heldur panta heimsendingu til að geta haldið áfram að spila. Oftast var spilaður kani ef það voru nógu margir en annars tveggja manna vist, rússi eða annað sem okkur datt í hug.

Þú elskaðir einnig stangveiði og minnumst við margra góðra stunda við stangveiði í Hvammsvík og öðrum vötnum. Í veiðinni líkt og spilamennskunni var ekki slegið slöku við og ekki hætt fyrr en fiskar náðust á land. Við munum sérstaklega eftir því þegar þú fékkst öngul á bólakaf í fingurinn, en í stað þess að pakka saman var hann dreginn úr, plástrað yfir og haldið áfram að veiða.

Við barnabörnin vorum alltaf velkomin í heimsókn til afa og ömmu og það var ávallt til ís í frystinum og kex eða mögulega sælgæti í skápnum. Sá tími dags þegar Leiðarljós var í sjónvarpinu var nánast heilagur hjá ömmu, ekki mátti trufla hana þá. Amma var alltaf stórtæk í öllu sem hún gerði og gaf barnabörnunum alltaf pening til að kaupa sælgæti eða blöðrur á 17. júní og flugelda um áramót.Við minnumst margra góðra stunda á Háveginum, við veiðar, í útilegum eða sumarbústaðaferðum.

Þín verður sárt saknað.

Þín barnabörn

Ólafur, Friðvin Logi og Dagný Björk.

Nú kveðjum við elsku ömmu og minnumst þess góða tíma sem við áttum með henni, minningarnar eru svo margar og erfitt að koma þeim öllum að.

Amma var yndisleg kona með góða nærveru, alltaf svo brosmild, opin og einlæg. Henni fannst gaman að vera fín til fara og fannst skemmtilegt að skarta hinum ýmsu skartgripum. Hún hafði gaman af söng og nýtti hvert tækifæri til að söngla með lögum í útvarpinu og söng oft fyrir okkur barnabörnin. Lagið um Fáskrúðsfjörðinn sinn fannst henni mjög gaman að syngja fyrir okkur.

Það var ávallt gott að koma á Háveginn til ömmu og afa. Þau tóku svo vel á móti okkur og voru alltaf til í að gera hina ýmsu hluti með okkur. Minningarnar þaðan eru því margar. Amma var mikil garðyrkjukona og á Háveginum hugsaði hún mjög vel um blómabeðin í garðinum sem voru svo falleg og vel skipulögð og garðurinn var eflaust með þeim fallegustu í bænum. Þar ræktuðu þau afi líka kartöflur, gulrætur, rófur, rabarbara, jarðarber og mart fleira. Við barnabörnin fengum að hjálpa til í garðinum þegar við vorum í heimsókn og að sjálfsögðu fengum við líka að njóta uppskerunnar. Það var einhvern veginn allt betra sem óx í garðinum hjá ömmu og afa og það besta var að fá jarðarber með rjóma, ný sótt út í garð.

Amma hafði ætíð gaman af því að spila, sérstaklega Kana, og það var oftar en ekki gripið í spil þegar við komum í heimsókn. Það var smá keppnisskap í henni og fannst henni því að sjálfsögðu skemmtilegast að vinna. Hún spilaði bæði með okkur fjölskyldunni en líka félagsvist með eldri borgurum og alveg fram á síðustu daga bað hún okkur að spila smá þegar við heimsóttum hana í Sunnuhlíðina.

Amma var mikil prjónakona alla sína ævi og sá alltaf til þess að það væri til nóg af vettlingum og ullarsokkum handa okkur barnabörnunum og síðar langömmubörnunum. Einnig eiga langömmubörnin rúmteppi sem hún prjónaði handa þeim til að stytta sér stundir á daginn síðustu árin sín í Sunnuhlíð.

Veiðiferðirnar í Hvammsvík verða alltaf minnisstæðar, amma gat verið tímunum saman við veiðar og sá alltaf til þess að með í för væri smurt nesti og annað gotteri. Sama má segja um ferðirnar í berjamó, henni fannst þær nú ekki leiðinlegar og afi átti oft í basli með að ná henni heim úr þeim. Aðalbláberin fannst henni langbest og lagði á sig langa göngutúra ef þau voru að finna á svæðinu.

Amma var mikil félagsvera og var í alls konar hópastarfi á sínum bestu árum. Hún og afi voru t.d. félagar í gönguhópnum Hana-nú og þegar við gistum hjá þeim um helgi þá fórum við með hópnum í göngutúr.

Amma var líka iðin að taka þátt í starfi eldri borgara í Kópavogi og tók þátt í ýmis konar námskeiðum, til dæmis málaði hún lengi á postulínshluti. Við barnabörnin eigum öll gott safn af máluðum hlutum sem við munum nýta vel og lengi.

Elsku amma, við kveðjum þig með söknuði en við vitum að nú ertu komin á betri stað og afi tekur vel á móti þér. Takk fyrir allar góðu minningarnar, við munum alltaf varðveita þær hjá okkur.

Þín barnabörn,

Sigrún Ásta, Ómar og Barði Páll.