Leiðari Viðskiptablaðsins fjallar um kaldar kveðjur Guðmundar Inga Guðbrandssonar, ráðherra og formanns Vinstri grænna, til verslunarmanna í aðdraganda frídags þeirra. Hann kenni versluninni um þráláta verðbólgu, hún leggi ekki sitt af mörkum – ólíkt verkalýðshreyfingu og aðhaldssamri ríkisstjórn!
Það þykir blaðinu ekki benda til að „ráðherrann sé sligaður af þekkingu og innsæi þegar kemur að efnahagsmálum […] Síðustu kjarasamningar voru alls ekkert hóflegir, þó svo að verkalýðshreyfingin haldi öðru fram,“ líkt og sjá megi á raungengi krónunnar og skertri samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega.
Hvað þá að benda megi á ríkisfjármálin, sem hafi einkennst af stjórnlausri útgjaldaaukningu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það sé ekki til marks um aðhald að hægja á útgjaldaaukningu í fjárlögum og ríkisfjármálin stuðli áfram að þenslu og verðbólgu. Svo muni skuldasöfnun ríkisins skerða lánakjör fólks og fyrirtækja um langt skeið, jafnvel þó svo vextir lækki.
Ekki sé skárra að hann líkt og sumir ráðherrar aðrir hafi uppi áróður um að verðbólgan stafi af óeðlilegri arðsemi fyrirtækja í verslun og þjónustu. „Engin innistæða er fyrir þessari goðsögn og ekki þarf annað en að skoða gögn um framlegð smásölufyrirtækja til að sjá þá staðreynd. Það er því undarlegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar haldi áfram að halda slíkum þvættingi á lofti þvert á allar staðreyndir.“