Lokasprettur Tíu kílómetra hlaupið var erfitt fyrir Guðlaugu Eddu eftir að hún meiddist á hjólasprettinum en hún fór alla leið og endaði í 51. sæti af 56 sem hófu þríþrautina.
Lokasprettur Tíu kílómetra hlaupið var erfitt fyrir Guðlaugu Eddu eftir að hún meiddist á hjólasprettinum en hún fór alla leið og endaði í 51. sæti af 56 sem hófu þríþrautina. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðlaug Edda Hannesdóttir hafnaði í 51. sæti af 56 keppendum í þríþraut á Ólympíuleikunum í miðborg Parísar í gær en Edda þreytti þar frumraun sína á Ólympíuleikum. Í þríþraut eru syntir 1.500 metrar og hjólaðir 40 kílómetrar áður en keppni lýkur með 10 kílómetra hlaupi

Í París

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Guðlaug Edda Hannesdóttir hafnaði í 51. sæti af 56 keppendum í þríþraut á Ólympíuleikunum í miðborg Parísar í gær en Edda þreytti þar frumraun sína á Ólympíuleikum.

Í þríþraut eru syntir 1.500 metrar og hjólaðir 40 kílómetrar áður en keppni lýkur með 10 kílómetra hlaupi. Keppnin fór ekki eins og Eddu hafði dreymt um, því hún kom síðust í mark af 51 keppanda sem lauk keppni eftir að hún féll af hjóli sínu um miðbik hjólakeppninnar.

Erfiður tímapunktur

„Ég er oftast mjög góð tæknilega en ég var óheppin með hvernig ég var í hópnum. Ég var að taka beygju og það voru hvítar gangbrautarstrípur á veginum og ég lenti akkúrat á strípunni í beygjunni. Við það missti ég gripið og datt.

Það var erfiður tímapunktur því þetta var akkúrat í miðju hjólinu sem þýddi að ég þurfti að hjóla restina ein, sem er mjög erfitt þegar maður er að hjóla á móti stelpum sem eru að hjóla saman,“ sagði hún um augnablikið örlagaríka í samtali við Morgunblaðið eftir keppni.

Edda lenti illa á vinstri hlið líkamans og kom haltrandi í mark í hlaupinu nokkru síðar. Margir hefðu hætt keppni, með bólgur og mar um líkamann, en ekki Guðlaug Edda. Hún reif sig upp og sýndi gríðarlegan styrk með því að halda áfram og koma í mark.

„Hjólið var magnað og það var geggjaður stuðningur. Það var bara ótrúlega leiðinlegt að hafa dottið. Ég gafst ekki upp og ég er ánægð með það. Það voru fleiri sem duttu og þær kláruðu ekki allar. Ég stóð upp og hélt áfram,“ sagði hún.

Synt í Signu eftir allt saman

Edda var í 47. sæti eftir sundið sem fór fram í ánni Signu, þrátt fyrir að karlakeppninni hefði verið frestað sólarhring áður þar sem áin var of menguð til að það þætti öruggt að synda í henni. Mótshaldarar töldu ána hins vegar vera nógu hreina í gærmorgun og fór kvennakeppnin því fram samkvæmt áætlun, en Edda fékk að vita það klukkan 4 í fyrrinótt að keppnin færi fram á réttum tíma.

Eftir sundið tók hjólið við. Fallið gerði út um alla möguleika Eddu á að ná markmiðum sínum. Hún kláraði hjólið á 1:03,25 klukkutíma og tíu kílómetra hlaup í kjölfarið á 40:55 mínútum.

Mikið hefur gengið á hjá Eddu undanfarið ár og á hún mikið hrós skilið fyrir að leggja ekki árar í bát í miklum mótvindi og keppnin í gær sýndi úr hverju hún er gerð. Edda stendur alltaf upp og klárar sín verkefni.

Slakar á í nokkra daga

Hún hefur lengi glímt við erfið meiðsli í mjöðm og var ferillinn um tíma í mikilli hættu. Það er því glæsilegt afrek að keppa í framhaldi af því á Ólympíuleikunum. Nú er það skref að baki og er stefnan sett á leikana í Los Angeles árið 2028, þar sem hún ætlar sér mun stærri hluti. „Ég er búin að vera svo mikið meidd og ég þarf tíma til að ná fyrri styrk. Ég flýtti því rosalega að koma til baka og meira en ég hefði viljað því ég vildi ná þessu lágmarki. Eftir að ég kláraði lágmarkstímabilið var ég þreytt bæði líkamlega og andlega.

Núna ætla ég að gefa mér tíma til að slaka aðeins á og síðan byggja upp meira þol. Ég þarf meiri grunn því ég hef ekki getað æft. Maður slakar á í nokkra daga og svo byrjar maður að vinna á ný,“ sagði ólympíufarinn Guðlaug Edda.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson