Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Ótrúlegt rugl hefur verið viðvarandi við stjórn Reykjavíkurborgar um langa hríð. Þá gildir einu hvort horft er til fjárhagslegra þátta, skipulags eða almennrar þjónustu við íbúa og umhirðu borgarsvæða

Ótrúlegt rugl hefur verið viðvarandi við stjórn Reykjavíkurborgar um langa hríð. Þá gildir einu hvort horft er til fjárhagslegra þátta, skipulags eða almennrar þjónustu við íbúa og umhirðu borgarsvæða.

Nýlega vakti athygli þegar verðlaunabyggingin Brákarborg, sem er leikskóli sem fékk fyrst bygginga verðlaunin Grænu skófluna – fyrir framúrskarandi ýmislegt í umhverfislegum skilningi – var rýmdur og leikskólabörnin flutt annað.

Því fylgja auðvitað smá vandræði þegar það gleymist að líta til með burðarvirkinu, sem einu sinni þótti skipta máli, áður en vistferilsgreiningar og útreikningur á kolefnisspori yfirtóku slíkt gamaldags bras í mikilvægisröðinni við verklegar framkvæmdir.

En nóg um braggann, ég meina kynlífstækjabúðina, nei ég meina leikskólann; torfþakið reið húsinu að fullu, sem er kannski passandi í ljósi fyrri nota.

Núna þegar verðlaunaleikskólinn er úr leik, ásamt mörgum öðrum byggingum borgarinnar vegna viðhaldsleysis og trassaskapar, sérstaklega skólabyggingar og ekki má gleyma húsnæði Orkuveitunnar með þeim milljörðum sem þar þarf að verja til að endurbyggja hluta hússins. Þá er rétt að hafa í huga orðtakið sem segir: að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.

Fortíðin í þessu samhengi er nefnilega svört, meðferð útsvarspeninga borgarbúa hefur verið með þeim hætti að með öllu er óforsvaranlegt og útsvarið hefur auðvitað ekki verið látið duga. Linnulaus skuldasöfnun fyllir á tómar fjárhirslur, sem tekið er úr fyrir hvert gæluverkefnið á fætur öðru. Framtíðin borgar með síhækkandi vöxtum.

Bragginn og dönsku stráin, gjafagjörningar í bensínstöðvamálinu, þrengingar gatna og linnulausar atlögur að grænum svæðum eru ofarlega á afrekaskránni, sorphirðan og vetrarþjónustan, biðlistarnir á leikskólana, lóðaskorturinn, útþensla miðlægrar stjórnsýslu, hatrið á fjölskyldubílnum, meðferðin á Sundabrautinni, 100 milljarða froðan í reikningum Félagsbústaða, meðferðin á flæðisbætandi aðgerðum á stofnbrautum, árásirnar á Reykjavíkurflugvöll, samskiptin við borgarbúa þar sem „sýndarsamráð“ virðist hafa verið tekið á enn hærra stig en hjá ríkisstjórninni.

Allt þetta er hollt að hafa í huga þegar mat er lagt á hvers sé að vænta verði Reykjavíkurmódelið yfirfært á landsstjórnina.

Sporin hræða nefnilega og af verkunum skulum við þekkja þá.

Vonandi ríður hinn margendurreisti meirihluti fjárhag borgarinnar ekki að fullu. En það má með sanni segja að menn hafi aldrei hætt að þora að láta á það reyna hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason