Alþjóðlega tónlistarhátíðin WindWorks í norðri verður haldin í þriðja sinn á Norðurlandi eystra dagana 1.-5. ágúst þar sem boðið verður upp á alls níu tónleika. „Eitt af meginmarkmiðum WindWorks er að hvetja til nýsköpunar í tónsmíðum fyrir blásturshljóðfæri, sér í lagi fyrir smærri samsetningar hljóðfæra,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum. Staðartónskáld ársins er Bára Grímsdóttir, en einnig verða frumflutt verk eftir Kolbein Bjarnason, Jesper Pedersen og Helgu Björgu Arnardóttur. Auk þess verða flutt verk eftir fimm erlend tónskáld sem sérsamin eru fyrir hátíðina. Listrænn stjórnandi er Pamela De Sensi. Allar nánari upplýsingar eru á vefnum windworksfest.com.