Helgi Björnsson söngvari ætlar að koma sér fyrir uppi í bústaðnum sínum við Þingvallavatn með stórum hluta fjölskyldunnar í rólegheitum um helgina.
Á laugardeginum skellir hann sér þó í fjölmennustu stemningu landsins en hann mun spila á Þjóðhátíð í Eyjum á laugardagskvöld.
Helgi er heldur vanafastur um verslunarmannahelgina og eftir að hann hætti að gigga hverja verslunarmannahelgi fer hann iðulega upp í bústað með fjölskyldunni, líkt og í ár.
Spurður hvort hann kjósi að vera á Íslandi fremur en í útlöndum yfir verslunarmannahelgina svarar Helgi játandi. Hann segist kjósa það að vera á Íslandi yfir hásumarið.
Eftirminnilegasta verslunarmannahelgin
„Þegar ég var í hestaferð og ég þurfti að hoppa úr ferðinni til að syngja á Þjóðhátíð, fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag og fór svo til baka frá Vestmannaeyjum inn í hestaferðina aftur,“ segir Helgi og bætir við að það hafi verið mikill pakki en mjög mikið ævintýri.
„Maður stóð á sviðinu og það rigndi beint inn á svið, maður fór í regngalla en blotnaði í gegn eftir eitt lag. Rafmagnið sló síðan út og heyrðist bara í trommunum. Svo stóð ég og söng, lét alla syngja með mér, hafði engan míkrófón. Það kallast á erlendu máli „the show must go on“,“ segir Helgi.