— AFP/Juan Calero
Evrópusambandið, Spánn og Kólumbía bættust í gær í hóp þeirra sem krafist hafa þess að stjórnvöld í Venesúela geri opinber kjörgögnin úr forsetakosningunum sem haldnar voru um helgina, en kjörstjórn í landinu lýsti því yfir að sitjandi forseti,…

Evrópusambandið, Spánn og Kólumbía bættust í gær í hóp þeirra sem krafist hafa þess að stjórnvöld í Venesúela geri opinber kjörgögnin úr forsetakosningunum sem haldnar voru um helgina, en kjörstjórn í landinu lýsti því yfir að sitjandi forseti, Nicolás Maduro, hefði borið þar sigur úr býtum með 51,2% atkvæða, þrátt fyrir að útgönguspár bentu til þess að hann hefði einungis fengið um 30% atkvæða.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að ekki væri hægt að viðurkenna þá niðurstöðu sem hefði verið tilkynnt nema gögnin að baki henni yrðu gerð opinber.

Fjölmenn mótmæli hafa verið í landinu síðan kjörstjórnin tilkynnti niðurstöðu sína, en öryggissveitir beittu táragasi og gúmmíkúlum til þess að kveða mótmælin niður á mánudaginn. Að minnsta kosti 12 manns hafa dáið í mótmælunum, ellefu mótmælendur og einn hermaður.

Þá hefur lögreglan verið iðin við að handtaka mótmælendur, og sagði Maduro í gær að stjórnarandstaðan yrði gerð ábyrg fyrir „glæpsamlegu ofbeldi“. Borrell skoraði á stjórnvöld í Venesúela að láta af handtökum, kúgun og ofbeldisfullum hótunum gegn stjórnarandstöðunni í landinu.