Kjartan Magnússon
Ellefu manns hafa látist í átta banaslysum í umferðinni það sem af er ári. Hafa slík banaslys ekki verið fleiri frá árinu 2018 en þá létust fimmtán manns í umferðinni hérlendis. Að auki hafa fjölmargir slasast alvarlega í umferðarslysum á árinu.
Á árunum 2014-2023 létust 103 einstaklingar og 1.646 slösuðust alvarlega í umferðarslysum hérlendis. Þrátt fyrir að yfirstandandi ár sé aðeins rétt rúmlega hálfnað eru banaslys í umferðinni orðin fleiri en þau hafa verið að jafnaði á hverju ári, undanfarinn áratug.
Þessi fjölgun alvarlegra umferðarslysa er uggvænleg og grípa verður til aðgerða til að stemma stigu við henni. Mikilvægt er að stórauka fræðslu til almennings um hætturnar í umferðinni og hvernig eigi að forðast þær.
Bylgjan, Vísir og Stöð 2 standa nú fyrir átaki um aukna ábyrgð í umferðinni í samstarfi við Samgöngustofu. Slíkt átak er þakkarvert og til fyrirmyndar.
Fækkum slysum
Margt er sem betur fer hægt að gera til að fækka umferðarslysum. Best er að ráðast að rótum vandans með því að gera úrbætur á þeim stöðum þar sem flest slys verða. Mikilvægt er að við úthlutun vegafjár verði umferðaröryggi haft í fyrirrúmi en ekki kjördæmapot. Slysafækkandi aðgerðir eiga að njóta skýlauss forgangs.
Árangursríkasta leiðin til að fækka alvarlegum umferðarslysum er að breikka umferðarþunga þjóðvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og aðskilja þannig akreinar. Ýmislegt hefur áunnist í þessu efni en betur má ef duga skal. Til dæmis er brýnt að ljúka sem fyrst breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes, þ.e. frá Grundarhverfi að Hvalfjarðargöngum.
Þá er ljóst að mislæg lausn á fjölförnustu gatnamótum Reykjavíkur myndu einnig fækka umferðarslysum til mikilla muna.
Helstu orsakir umferðarslysa
Ágúst er að jafnaði slysamesti mánuðurinn í umferðinni. Fyrir mestu umferðarhelgi ársins er rétt að rifja upp helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa. Slík slys má langoftast rekja til mannlegra mistaka eða áhættuhegðunar ökumanna:
· Hraðakstur
· Bílbelti ekki notuð
· Ölvunarakstur
· Sími notaður við akstur
· Svefn og þreyta
· Reynsluleysi ökumanns
· Forgangur ekki virtur
· Hætta á vegi og/eða í umhverfi
Bílbeltin bjarga mannslífum
Ljóst er að margir ökumenn og farþegar hefðu lifað af slys, hefðu þeir verið í bílbeltum. Þau dæmi eru sorglega mörg þar sem bíllinn sjálfur stendur af sér harðan árekstur eða veltu en fólk kastast út úr honum og bíður bana eða stórslasast vegna áverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Það er því afar mikilvægt að allir noti bílbeltin.
Varhugaverðir malarvegir
Sýna þarf sérstaka varúð þegar ekið er eftir malarvegi, einkum þegar komið er inn á slíkan veg af malbiki eða bundnu slitlagi. Þá er mikilvægt að hægja á bifreiðum þegar þær mætast á malarvegi vegna grjótkasts og rykmengunar. Af sömu ástæðu er mjög mikilvægt að ökumenn hægi verulega á bílum sínum þegar ekið er fram hjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum.
Um leið og öllum landsmönnum er óskað velfarnaðar í umferðinni minni ég á ellefu hundruð ára gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“
Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.