Mótmæli Palestínumenn í borginni Hebron í Vesturbakkanum héldu mótmælagöngu vegna árásarinnar í gær.
Mótmæli Palestínumenn í borginni Hebron í Vesturbakkanum héldu mótmælagöngu vegna árásarinnar í gær. — AFP/Mosab Shawer
Mikil spenna ríkti í Mið-Austurlöndum í gær eftir að Ísraelsher náði að fella Ismail Haniyeh, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hamas, með loftárás á íbúðina þar sem Haniyeh dvaldi í Teheran, höfuðborg Írans, á meðan hann svaf í fyrrinótt

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Mikil spenna ríkti í Mið-Austurlöndum í gær eftir að Ísraelsher náði að fella Ismail Haniyeh, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hamas, með loftárás á íbúðina þar sem Haniyeh dvaldi í Teheran, höfuðborg Írans, á meðan hann svaf í fyrrinótt.

Haniyeh var í heimsókn í Íran til þess að vera viðstaddur embættistöku nýs forseta, en Masoud Pezeshkian tók þar við embætti á þriðjudaginn. Sást til Haniyeh í mannfjöldanum við embættistökuna þar sem hann hrópaði slagorð gegn Ísrael og Bandaríkjunum, en Haniyeh mun hafa dvalið í byggingu sem ætluð er fyrrverandi hermönnum íranska hersins.

Leiðtogar bæði Hamas-samtakanna og Írans hótuðu hefndum vegna árásarinnar, en Al-Kassam hersveitirnar, vígaarmur Hamas-samtakanna, sagði í sérstakri yfirlýsingu að „hið glæpsamlega launmorð“ á Haniyeh markaði tímamót í átökum Ísraels og Hamas-samtakanna og að það myndi hafa „gríðarlegar afleiðingar fyrir allan heimshlutann.“

Þriggja daga þjóðarsorg

Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, hótaði sömuleiðis „harðri refsingu“ fyrir drápið á Haniyeh. „Við lítum á það sem skyldu okkar að leita hefnda fyrir blóð hans, þar sem hann var gerður að píslarvotti innan íslamska lýðveldisins Íran,“ sagði í yfirlýsingu Khameneis.

Pezeshkian, hinn nýi forseti, sagði að „síonistarnir“ myndu brátt finna fyrir afleiðingum hins „heigullega hryðjuverks“, en stjórnvöld í Íran lýstu yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna drápsins á Haniyeh. Þá verður honum haldin opinber útför í Teheran í dag, áður en lík hans verður flutt til Katar, þar sem hann bjó.

Stjórnvöld í Ísrael ákváðu að tjá sig ekki um árásina í Teheran, en ísraelskir fjölmiðlar höfðu í gær eftir heimildarmönnum frá Líbanon og Íran að eldflauginni hefði verið skotið frá herþotu utan landamæra Írans, og að hún hefði flogið þaðan inn um opinn glugga á íbúðinni þar sem Haniyeh dvaldi. Einn af lífvörðum Haniyehs fórst í árásinni.

Viðræðum teflt í tvísýnu

Ríki Mið-Austurlanda fordæmdu flest árásina eða vöruðu við því að hún kynni að grafa undan stöðugleika í heimshlutanum. Utanríkisráðherra Katars, sjeikinn Mohammed bin Abdulrahman Al-Thani, sagði að árásin vekti alvarlegar spurningar um það hvernig hægt yrði að semja um vopnahlé í átökum Ísraels og Hamas-samtakanna, en Haniyeh leiddi vopnahlésviðræðurnar af hálfu Hamas-liða.

„Friður krefst alvörugefinna samstarfsaðila,“ ritaði Al Thani á samfélagsmiðla sína, en Katar hefur ásamt Egyptalandi og Bandaríkjunum haft milligöngu á milli Ísraels og Hamas í viðræðunum. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, vildi ekki tjá sig beint um árásina á Haniyeh, en sagði að það væri ennþá brýnt að ná fram vopnahléi í átökunum. Tók hann sérstaklega fram að Bandaríkin hefðu ekki haft neina vitneskju um eða aðild að árásinni sem felldi Haniyeh.

Mahmud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, fordæmdi sömuleiðis morðið á Haniyeh, en Palestínumenn hafa boðað til allsherjarverkfalls og mótmælagangna á Vesturbakkanum.

Rússar fordæmdu árásina harðlega, og sagði Mikhaíl Bogdanov aðstoðarutanríkisráðherra að árásin hefði verið „algjörlega óásættanlegt pólitískt morð“. Þá fordæmdu Kínverjar hana einnig og sögðu að árásin gæti leitt til frekari óstöðugleika.

Felldu einn leiðtoga Hisbollah

Árásin á Haniyeh í Teheran var gerð nokkrum klukkustundum eftir að Ísraelsher gerði loftárás á bækistöð hryðjuverkasamtakanna Hisbollah í Beirút, höfuðborg Líbanons, en staðfest var í gær að árásin hefði náð að fella Fuad Shukr, einn æðsta foringja vígasveita samtakanna.

Ísraelsmenn segja að Shukr hafi borið höfuðábyrgð á eldflaugaárásinni um síðustu helgi á þorpið Majdal Shams í Gólanhæðum, þar sem tólf börn létu lífið. Shukr stýrði hernaðaraðgerðum Hisbollah-samtakanna í suðurhluta Líbanons undanfarna mánuði, en samtökin hafa skotið eldflaugum nær daglega á Ísrael til stuðnings Hamas-samtökunum frá því að átökin á Gasasvæðinu hófust í október.

Bandaríkjastjórn setti fimm milljónir bandaríkjadala til höfuðs Shukr árið 2017 og sögðu hann hafa verið einn af lykilmönnunum á bak við sjálfsvígsárásina á herbúðir bandaríska landgönguliðsins í Beirút árið 1983, þar sem 241 landgönguliði féll, ásamt 58 frönskum hermönnum og sex óbreyttum borgurum.

Um eftirmiðdaginn í gær bárust svo óstaðfestar fregnir frá Sýrlandi um að Amir Ali Hajizadeh, leiðtogi flugherja íranska byltingarvarðarins, hefði verið ráðinn af dögum í úthverfi Damaskus, höfuðborgar Sýrlands. Hajizadeh er sagður hafa lagt á ráðin um eldflaugaárásina miklu sem Íranar gerðu á Ísrael í apríl.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson