Tumi Magnússon (f. 1957) Bráðið plast & bráðið smjör, 1994 Olíumálverk, 200 x 180,5 cm
Tumi Magnússon (f. 1957) Bráðið plast & bráðið smjör, 1994 Olíumálverk, 200 x 180,5 cm
Tumi Magnússon er í hópi þeirra myndlistarmanna sem í upphafi níunda áratugarins aðhylltust óþvingaða tjáningu „nýja málverksins“, sem svo var kallað á þeim tíma. Í elstu verkum hans birtist draumveruleiki þar sem hvunndagshlutir eru…

Tumi Magnússon er í hópi þeirra myndlistarmanna sem í upphafi níunda áratugarins aðhylltust óþvingaða tjáningu „nýja málverksins“, sem svo var kallað á þeim tíma. Í elstu verkum hans birtist draumveruleiki þar sem hvunndagshlutir eru settir í nýtt samhengi svo að merking þeirra og notagildi fær nýtt inntak. Á níunda og tíunda áratugnum virtust verk Tuma, eins og þetta, síðan vera óhlutbundin og snúast um samspil lita, samspil sem oft kemur á óvart og við fyrstu sýn virðist sem litirnir hafi lent saman fyrir tilviljun, en að athuguðu máli sést að svo er ekki. Það er ekki um að villast að heiti verkanna og litir sem hann birtir vísa til hversdagslegra fyrirbæra sem oftar en ekki eru í fljótandi formi. Reyndar hefur Tumi bent á að vökvi sé formlaus hlutur og því í raun dálítið abstrakt. Í þessum verkum sjáum við hvorki form né lögun fyrirmyndarinnar, aðeins litinn, en titillinn gefur vísbendingu um að þau eigi sér raunverulega fyrirmynd. Í þessu tilviki eru það bráðið plast og bráðið smjör.

Verkið sem hér um ræðir má sjá í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þess má jafnframt geta að splunkunýtt vídeóverk Tuma Magnússonar, Hringrás, var frumsýnt í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 8. júní síðastliðinn og er sýningin á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Þetta viðamikla verk sem sýnt er í heilum sal má sjá í safninu fram í septembermánuð.