Atli Steinn Guðmundsson
Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Þegar ég var hjá Flugleiðum þurfti ég að eiga við notendahandbókina fyrir hreyfilinn á Boeing 727-unum og hann var lengri í hillu en lagasafn Evrópusambandsins,“ segir Páll Valdimarsson, vélaverkfræðingur og aðjúnkt í verkfræði við Háskólann í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið.
Páll stendur á sjötugu, árið 1970 kom hann til Reykjavíkur frá Selfossi með tvær ferðatöskur, leigði herbergi hjá Ragnhildi systur sinni og manni hennar, Kára Jónassyni, fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins, og hóf nám við „Alþýðuskólann við Hitaveitustokkinn“ eins og Páll kallar Menntaskólann við Hamrahlíð.
Hann nam verkfræði í Háskóla Íslands og síðar í Karlsruhe, hjá Sigmar Wittig, lauk námi með sérhæfingu í stýrikerfum, gufu- og gastúrbínum og lauk árið 1993 fyrsta doktorsprófinu í verkfræði við Háskóla Íslands þar sem hann var prófessor í verkfræði um langt árabil.
Páll er viðræðugóður maður, hláturmildur og hefur frá mörgu að segja enda sopið marga fjöruna eins og sagt er. Hann er sérfróður um jarðvarmavirkjanir og flestum fróðari um loftslagsmál og gróðurhúsaáhrif sem hann enn fremur hefur skoðanir á. Nema hvað?
Byrjum á að fræðast um ætt og uppruna manns sem hannað hefur vinnslurás í tæplega hundrað tvívökvavirkjanir – tólf þeirra voru smíðaðar og eru í gangi í dag, flestar í Tyrklandi.
„Ég er Selfyssingur, óx úr grasi á árbakkanum. Við pjakkarnir veiddum silung og lékum okkur á eyrunum og upp með Moshólslæk sem núna er kominn undir golfvöllinn. Endimörk hins þekkta heims voru við Nautanes, þar sem fyrirhuguð brú yfir Ölfusá mun koma,“ hefur Páll frásögn sína.
Hann er ættaður úr uppsveitunum í Árnessýslu og austan úr Fljótshverfi. Faðir hans, Valdimar Pálsson, kaupfélagsgjaldkeri og barnakennari, var sonur vinnukonu og bónda í Fljótshverfinu sem átti fjölda barna með eiginkonu sinni.
Í kynni við hálfsystkinin
„Amma mín fór vestur í Árnessýslu og pabbi var fæddur á Galtalæk í Biskupstungum. Þegar hann var fjögurra ára fór amma í vinnumennsku að Spóastöðum í Biskupstungum og eftir að bóndinn þar lést þegar pabbi var níu ára gamall má segja að ekkjan, Steinunn Egilsdóttir, hafi innlimað þau mæðginin í sína fjölskyldu,“ segir Páll frá.
Valdimar faðir hans hélt svo til kennaranáms en þar kenndi föðurbróðir hans, Elías Bjarnason, höfundur annálaðra stærðfræðikennslubóka er margir sem komnir eru af því allra léttasta muna glöggt. Elías kom Valdimari í kynni við hálfsystkini hans sem tóku honum fagnandi. „Þannig á ég tvær föðurættir, Spóastaðafólkið og afkomendur systkinanna frá Seljalandi í Fljótshverfi,“ segir Páll af ætterni sínu.
Af Seljalandsfólkinu lifði Málfríður Pálsdóttir lengst af stórum hópi systkina og taldi Páll sér mikinn heiður gerðan þegar fjölskylda hennar fól honum að halda utan um útför hennar. „Mér þykir enn þá alveg óstjórnlega vænt um þetta og stundin þegar ég fór að Kálfafelli í Fljótshverfi með legsteininn og setti hann á sinn stað með þeim frændum mínum, Snorra Björnssyni á Seljalandi og Birni Helga syni hans á Kálfafelli, var ógleymanleg,“ segir aðjúnktinn og leggur ríka áherslu á mál sitt.
Dekurdýr og leikfang
„Pabbi kvæntist Þórunni Bjarnadóttur frá Öndverðarnesi í Grímsnesi og þau áttu saman fimm börn. Þórunn dó ung og pabbi kynntist eftir það mömmu minni, Ragnheiði Pálsdóttur frá Hlíð í Gnúpverjahreppi,“ segir Páll frá og dregur ekki fjöður yfir að líkast til hafi það vakið athygli þegar móðir hans hóf búskap með sér töluvert eldri ekkli með fimm börn.
„Hálfsystkini mín tóku henni afskaplega vel og úr varð samhent fjölskylda,“ rifjar Páll upp en hálfsystkinin eru honum töluvert eldri, „mig grunar að ég hafi verið hálfgert dekurdýr og leikfang hjá þeim“, segir hann sposkur.
„Eina amman sem ég hef þekkt var móðuramma systkina minna, Kristín Halldórsdóttir frá Öndverðarnesi í Grímsnesi. Hún gerði mömmu það ljóst þegar hún sá mig fyrst nokkurra daga gamlan að þessi drengur væri líka hennar barnabarn hvað svo sem kirkjubækur kynnu að segja. Öndverðarnesættin hefur fullkomlega innlimað mig, ég hef ekkert minni samgang við hana en mitt eigið móðurfólk,“ segir Páll sem þannig á sér tvær föðurættir og tvær móðurættir. Geri aðrir betur.
Valdimar faðir hans var gjaldkeri Kaupfélags Árnesinga áratugum saman og tók soninn gjarnan með á kvöldin þegar hann tók við sölunni úr verslunum kaupfélagsins og stemmdi allt af. „Ég fékk þar að leika mér með reiknivél og lærði mikilvægi þess að kassinn stemmdi, rétt væri reiknað og tékkað af á óháðan hátt,“ lýsir Páll af festu.
Eiginkona hans er Björk Pálsdóttir, fædd í Reykjanesi við Djúp þar sem hún óx úr grasi en flutti ellefu ára gömul í Mosfellssveitina. „Við þurftum að staldra við fyrir þetta viðtal til að finna út að við erum búin að vera að stinga saman nefjum í 48 ár, í gegnum þykkt og þunnt, gleði og sorgir,“ segir verkfræðingurinn af alvöruþunga sem þó ber með sér aðkenningu að kímni.
Dreginn í lúðrasveit
Björk lærði iðjuþjálfun og vann síðan nánast allan sinn starfsferil hjá Tryggingastofnun og síðar Sjúkratryggingum Íslands.
„Ásgeir Sigurðsson var rakari á Selfossi. Hann hafði ætlað að verða tónlistarmaður, lék á klarínett en lífið tók einhverja beygju og hann varð rakari á Selfossi. Hann var allt í öllu hjá Lúðrasveit Selfoss og einhvern tímann fær hann þá hugmynd að stofna litla lúðrasveit við gagnfræðaskólann,“ segir Páll svo leiftrandi frásagnargleðin skín í gegn, því sagnamaður góður er Páll Valdimarsson.
Hann rifjar upp lúðrasveitina sem spratt af þessu frumkvæði rakarans tónelska en þeir voru sex piltar sem hana skipuðu í öndverðu og af þeim segir Páll þrjá hafa orðið atvinnutónlistarmenn – hálfa sveitina.
Þetta voru þeir Kjartan Óskarsson, sem var klarínettuleikari í Sinfóníuhljómsveitinni og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, Stefán Sigurjónsson, skósmiður og alltumlykjandi afl í tónlistarmálum í Vestmannaeyjum, og Guðmundur Eiríksson, djasstrompetisti, píanisti og kórstjóri.
„Ég spilaði með Lúðrasveit Selfoss og síðan Svaninum í Reykjavík á menntaskólaárunum. Ég hætti svo þegar verkfræðinámið tók hug minn allan. En 1987 dregur verkfræðinemi í HÍ mig til að fara að spila með Lúðrasveit Hafnarfjarðar, þar sem ég spila enn þá, reyndar ekki alveg óslitið,“ segir Páll sem kallar sveitina þá merkilega.
Mitt tékkneska barítónhorn
„Lúðrasveit Hafnarfjarðar er merkileg stofnun. Þar er kannski einn þriðji ungt fólk í tónlistarnámi sem getur spilað allt. Annar þriðjungur eru Hafnfirðingar sem kannski stefndu á tónlist en lífið tók einhverja beygju og nú spila þeir í sinni lúðrasveit í sínum heimabæ. Og þeir geta líka spilað allt. Síðasti þriðjungurinn erum við gamlingjarnir sem fáum að „teika“ hjá þessu hæfileikaríka fólki, þau sýna mér mikla þolinmæði og ég launa þeim með því að þegja eða þykjast spila þegar það er of erfitt fyrir mig, til að skemma ekki með feilnótum,“ hljómar hárfín greining Páls á þeirri merkilegu stofnun sem Lúðrasveit Hafnarfjarðar er.
Hann segir fátt hafa gefið sér á við þetta lúðraverk. „Og ég er alveg rosalega þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þessu hafnfirska lúðrasamfélagi. Þarna mæti ég með mitt tékkneska barítónhorn og geri mitt besta á mánudagskvöldum allan veturinn.“
Í upphafi sagði af því að Páll hefði hafið nám í MH og mætt til Ragnhildar systur sinnar og Kára fréttastjóra með tvær ferðatöskur. „Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig þetta hefur verið hjá hjónum sem eru að byrja að búa, að vera með ungling inni á heimilinu í sjö ár, ég fór ekki frá þeim fyrr en við Björk erum að byrja að búa,“ segir Páll hugsi. „Þórunn dóttir þeirra er tveggja ára þegar ég flyt inn og Daði fæðist meðan ég er þar. Kannski eru þau á sinn hátt litlu systkini mín.“
Rétt eins og Lúðrasveit Hafnarfjarðar segir Páll „Alþýðuskólann við Hitaveitustokkinn“ hafa verið merkilega stofnun á hans tíma. „Við erum í síðasta bekknum, áfangakerfið er að halda innreið sína og breytingar að eiga sér stað alls staðar. Þarna var ungur kennari að nafni Vigdís Finnbogadóttir að leggja á um við okkur að læra sem mest af tungumálum. Mér fannst lítið til þess koma en sá síðar hvað ég hafði fullkomlega rangt fyrir mér. Ég lét mig þó hafa það að vera einn vetur í latínu hjá Teiti Benediktssyni sem hefur bara gagnast mér heilmikið síðar meir,“ játar Páll af vettvangi tungumála.
Hann hafði sumarvinnu á verkstæðunum hjá Kaupfélagi Árnesinga og öðlaðist þar mikinn áhuga á vélum og vélbúnaði. „Tage Olesen og Eiríkur Björnsson mótuðu það og um tíma var ég á leiðinni í að læra rennismíði hjá Eiríki, það var komið svo langt að ég var með samninginn í höndunum. En ég var talaður inn á að halda áfram í Hamrahlíðinni,“ rifjar Páll upp og þaðan lá leiðin vestur á Mela í Háskóla Íslands.
„Ég fór í vélaverkfræði,“ segir hann. „Þetta var lítil námslína, við vorum bara fjórir saman í gegnum allt námið. Sambandið við kennarana var alveg ótrúlega gott og við vorum nánast heimagangar hjá þeim. Þar var Valdimar K. Jónsson prófessor, sem átti síðar eftir að verða minn velgjörðarmaður, koma mér í gegnum doktorsnám við HÍ og vera samverkamaður og félagi meðan hann lifði,“ heldur Páll áfram.
Þorbjörn Karlsson prófessor hafi hins vegar verið honum fyrirmynd og lýsir Páll Þorbirni sem góðum kennara, leiftrandi af áhuga fyrir efninu og hafi honum reynst auðvelt að ná til nemenda sinna – allra karlkyns á þessum löngu horfna tíma.
„Og ég féll kylliflatur fyrir þessum túrbínufræðum sem hann var að kenna okkur, með sínum blaðaprófílum og ástreymishornum og afstreymishornum og hvað það nú allt heitir.“
Grillaður á öllum hliðum
Einar B. Pálsson var prófessor í byggingarverkfræði á tíma Páls, menntaður í Þýskalandi. „Hann sá að nemendurnir leituðu mest til Danmerkur í framhaldsnám, síðan til Bandaríkjanna, Svíþjóðar og Noregs, en Þýskaland dróst aftur úr vegna þess að námsfyrirkomulagið féll ekki saman. Hann notaði sambönd sín í Þýskalandi til að koma upp framhaldsnámsprógrammi fyrir íslenska verkfræðinga – og ég varð tilraunadýrið til þess að sjá hvað Íslendingarnir gætu og gætu ekki.
Páll hélt því til Þýskalands, til náms við hinn fornfræga Technische Universität í Karlsruhe, og var þar „grillaður á öllum hliðum“, eins og hann orðar það. „Á fyrsta misserinu fór ég í þrettán „Anerkennungsgespräch“ þar sem prófessorar grilluðu mig í sínu efni til að staðfesta að ég kynni nóg til að þurfa ekki að taka kúrsana þeirra,“ segir Páll frá. „Og prófessorum líkar ekki að láta nemendur sleppa við kúrsana sína,“ bætir hann við svo það síist nú örugglega inn.
Umskipti þessi voru þó ekki áfallalaus, nýtt nám í nýju ókunnugu landi. „Á einhverjum tíma var ég að gefast upp og pantaði viðtal við Hans Draheim rektor sem var kunningi Einars og guðfaðir þessa námssamkomulags,“ segir Páll frá. „Fyrir viðtalið sat ég á stalli styttunnar sem er fyrir utan aðalbyggingu háskólans og var að reyna að safna kjarki, fullur af sviðsskrekk og kvíða. Mér tókst á endanum að manna mig upp í viðtalið,“ rifjar hann upp.
Draheim stappaði stálinu í uppburðarlítinn Íslending og talaði kjark í Pál. Viti menn, skömmu síðar tók að greiðast úr flókanum segir Páll. „Svo var samkomulag gert um hvað við Íslendingar þurftum að taka af skyldukúrsum, byggt á minni frammistöðu. Lítið samviskubit laumaðist með veggjum yfir prófi sem ég klúðraði og varð til þess að allir sem eftir komu þurftu að taka kúrsinn,“ segir verkfræðingurinn með stuttri hláturroku.
Samkomulagið fræga var byggt á frammistöðu Páls og hafði hann þar með áhrif á nám þeirra Íslendinga sem á eftir komu. En þeir voru heldur engir aukvisar sem áður sátu skólabekki Technische Universität. „Það var svolítið sérstakt að sitja á skólabekk í gömlu vélaverkfræðibyggingunni, þar sem má segja að nútíma vísindaleg vélaverkfræði hafi orðið til og þeir Emil von Skoda og Carl Benz voru nemendur á undan mér,“ segir Páll og raddblærinn verður dreyminn.
Íslendingaprófessorinn Lipp
Fleiri Íslendingar streymdu svo til skólans og samkomulagið um námsáfanga þeirra, byggt á Páli sjálfum, fjaraði út einhvern tímann á árunum eftir 2010 eftir að hundruð íslenskra verkfræðinga höfðu sótt skólann.
„Ég fékk svo það hlutverk að halda utan um þetta framhaldsnám fyrir Háskóla Íslands og tók við umsóknum í námið og sendi þær út, allt til þess er Evrópusamstarfið hafði gert samninginn óþarfan með samræmingu á skólaprógrömmunum milli landa og þessum frjálsu flutningum fólks sem sumum þykir fínt að tuða yfir. Íslenskir stúdentar eru lausir við „Ausländerpolizei“ og hafa aðgang að skólum og réttindi á pari við heimamenn. Þetta er ómetanlegt,“ segir þessi margreyndi háskólamaður með áhersluþunga.
„Hans-Martin Lipp var prófessor í rafmagnsverkfræði og var gerður að „Íslendingaprófessor“,“ segir Páll frá. „Við vorum reglulega gestir hjá honum og Barböru konu hans. Hann lést 2007 en ég er alltaf í sambandi við Barböru og býð henni út að borða þegar ég er í Karlsruhe. Rúmlega fjörutíu árum eftir að ég lauk námi kem ég líka við hjá Sigmar Wittig og gef honum skýrslu um hvernig lífið gengur og hvað ég er að gera. Við drekkum saman kaffi og nöslum í „Elsässer Flammekuche“,“ segir Páll af þessum gamla velgjörðarmanni sínum í Karlsruhe.
Annað tveggja aðalfaga Páls í náminu voru gufu- og gastúrbínur hjá Wittig þessum. „Þær tóku huga minn allan. Wittig hélt sína fyrirlestra en gaf ekki neina kennslubók upp. Við fengum lista yfir heimslitteratúrinn í faginu og urðum að lesa okkur til í þeim tugum þúsunda blaðsíðna sem hann vísaði í þar þannig að það félli að fyrirlestrunum,“ rifjar Páll upp.
Margra ára samviskubit
„Prófin í aðalfögunum voru klukkutíma löng munnleg próf þar sem prófessorinn spurði og ræddi efnið, með doktorsnema sem „Protokollant“. Allt snerist um að sýna þekkingu og getu til að fjalla um efnið í töluðu máli. Ég klúðraði prófinu hjá Wittig, náði því, en ekki mikið meira en það. Ég var eyðilagður, þarna ætlaði ég að brillera en bara tafsaði og kom varla frá mér heilli hugsun. Við tók margra ára samviskubit,“ segir Páll, en þætti Wittig í lífi hans var langt í frá lokið.
„Þegar ég var kominn á fulla ferð í jarðhitaútrásina kom boð frá Wittig um að koma og halda fyrirlestur um jarðhitanýtingu fyrir starfsfólk og nemendur hans – og að sjálfsögðu með túrbínur jarðorkuveranna sem þungamiðju. Það var skrýtin tilfinning að vera kominn inn í sömu stofuna og ég hafði klúðrað prófinu í mörgum árum áður. En núna brilleraði ég,“ segir Páll glaðhlakkalega.
Árið 1980 lýkur Páll náminu í Þýskalandi með þeirri sérhæfingu sem nefnd var í upphafi viðtals, í stýrikerfum, gufu- og gastúrbínum. „Björk var með mér þar í lokin og svo fluttum við til Kaupmannahafnar þar sem hún safnaði starfsreynslu sem iðjuþjálfi. Ég hafði fengið boð um doktorsnám í Karlsruhe, en hafði líka fengið boð um sambærilegt nám við það sem þá hét DtH, Danmarks tekniske Højskole,“ segir Páll frá.
Þetta var ástæðan fyrir búferlaflutningum til kóngsins borgar en vonbrigðin knúðu dyra fyrr en varði. „Þegar við vorum komin til Kaupmannahafnar stóð ekki steinn yfir steini með doktorsnámið svo ég var í atvinnuleysi, eymd og reiðileysi þar til ég fékk vinnu hjá verkfræðifyrirtæki sem hét International Power Engineering.“
Um var að ræða ráðgjafarfyrirtæki sett saman af verkfræðingum frá díselvélaverksmiðjunni Burmeister & Wain en þeir herramenn fóru að sögn Páls út í fússi þegar verksmiðjan skipti um eigendur. „Þarna kynntist ég díselvélum, þessum risastóru hæggengu vélum sem eru í stórum fraktskipum,“ rifjar Páll upp.
Stóra verkefni vélaverkfræðingsins íslenska hjá díselvélaframleiðandanum var að hanna langskolunarkerfi fyrir Sulzer í Sviss sem einmitt var samkeppnisaðili Burmeister.
„Þessar langskoluðu vélar heita í dag Wärtsilä RTA og það gleður mig alltaf þegar ég sé eitthvað fjallað um þær. Ég er alveg viss um að þetta sem ég var að hanna er allt farið og endurhannað, en reynsla frá þessum tíma var dýrmæt. Ein lítil kópía af glussabúnaðinum mínum var smíðuð löngu seinna og sett upp í vetnisvélinni í Gufunesi, Caterpillar-vél sem Bragi Árnason prófessor og fleiri snillingar voru að nota til að prófa vetnisbrennslu í gömlu Áburðarverksmiðjunni, verkefni um vetni fyrir fiskiskipaflotann,“ segir Páll.
Eitthvert „fake“ og bull
Ekki verður hjá því komist að ræða við Pál um loftslagsmál en í upphafi viðtals var því slegið fram að um þau væri hann flestum mönnum fróðari. Hér þarf að rekja garnir.
„Ég er prédikari í loftslagskirkjunni,“ svarar Páll um hæl þegar blaðamaður vekur máls á þessu áleitna umræðuefni umfangsmikilla alþjóðaráðstefna þar sem sterkasti gjaldmiðillinn eru loforð og hugsjónir. Minni losun, minna kolefnisspor, græn orka. Engin furða að sitt sýnist hverjum. Skoðanir Páls Valdimarssonar á þessum vettvangi eru hárbeittar enda gerir hann lítið af því að liggja á þeim.
„Það er alveg ótrúlegt að það eru enn þá menn sem eru að berja hausnum við steininn og halda því fram að þessi loftslagsmál séu eitthvert „fake“ og bull,“ segir Páll og blaðamanni verður hugsað til sígildrar setningar latneskrar, „Si vis pacem, para bellum“. Viljirðu frið, búðu þig undir stríð. Verkfræðingnum er heitt í hamsi.
„Sveiflurnar eru að verða harkalegri hægt og sígandi. Þetta gerist hægt. Auðvitað er hægt að mótmæla þessu og segja „þetta er bull, það var kaldur dagur í fyrra“, en þetta er staðreynd. Þetta er mesta ógn sem steðjar að mannkyninu í dag,“ segir Páll án þess að blikna – slíkt má jafnvel heyra gegnum síma.
„Mér er nákvæmlega sama þótt þú segir mér að oft hafi verið heitara á jörðinni og þetta séu smámunir, vegna þess að það hafa aldrei fyrr verið sjö milljarðar manna á jörðinni. Verstu afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna munu ekki verða vegna veðurs. Þær munu verða vegna félagslegra áhrifa. Fimm sentimetra sjávarborðshækkun, hvað táknar hún? Hundrað milljónir flóttamanna sem marsera frá Bangladess yfir til Indlands. Það er stríð,“ segir Páll einfaldlega.
Ekki háð innfluttri orku
Þetta sé það sem málið snúist um, jarðarbúar verði einfaldlega að ná tökum á gróðurhúsaáhrifunum. „Loftslagsmál eru efnahagsmál. Við erum með hitaveitu hérna sem hitar húsin okkar og þetta er svo ódýrt að þú veist ekki af því. Hitaveitan sparar 1,5 til 1,8 tonn af olíu á haus. Það er eins og 20.000 kílómetra keyrsla fjölskyldubíls á hvern mann,“ heldur Páll áfram. Skýrari verði efnahagsmál varla.
„Þetta er líka heilbrigðismál. Nú er ég orðinn gamlingi og fæ frítt í sund. Ég borga eina upphæð á ári fyrir eitthvert plastkort og svo fæ ég frítt í sund. Þetta skiptir bara verulega miklu máli. Við förum í sturtu heima hjá okkur og hugsum ekkert um að spara vatnið,“ segir Páll og kveður annað upp á teningnum í Suður-Þýskalandi.
„Þar borga menn tíu evrur fyrir hvert tonn af heitu vatni, eina krónu og fimmtíu íslenskar fyrir hvert kíló af vatni. Þeir hugsa sig náttúrulega tvisvar um áður en þeir fara í sturtu,“ segir Páll og bætir því við að loftslagsmál sem heilbrigðismál séu í raun borðleggjandi. Það sem hann ætli sér hins vegar að nefna næst sé ekki eins borðleggjandi.
„Loftslagsmál eru varnarmál. Það er ekkert sem við stöndum frammi fyrir sem er eins mikilvægt í varnarmálum og að vera ekki háð innfluttri orku,“ leggur aðjúnktinn á borðið með áherslu á hvert orð og vísar til Þjóðverja í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
„Allt í einu er gasið orðið eitthvað sem þú getur ekki treyst á. Þjóðverjar eru búnir að fara óskaplega langt í að umturna öllu orkukerfinu til þess að verða óháðir Rússunum. Þetta eru engin peningamál. Þetta eru bara hrein varnarmál, til að tryggja langtímaöryggi ríkisins,“ segir Páll Valdimarsson, vélaverkfræðingur og aðjúnkt, sem leikur í lúðrasveit og hefur stálharðar skoðanir á loftslagsmálum. Viðtalið við Pál í fullri lengd verður birt á mbl.is um verslunarmannahelgina.