Châterauroux Hákon Þór Sverrisson keppir í 280 kílómetra fjarlægð frá París og fyrri hlutinn hjá honum hefst snemma í fyrramálið.
Châterauroux Hákon Þór Sverrisson keppir í 280 kílómetra fjarlægð frá París og fyrri hlutinn hjá honum hefst snemma í fyrramálið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Mér líður ljómandi vel. Það er mjög skemmtilegt að vera hérna,“ sagði Hákon Þór Svavarsson skotfimimaður sem er mættur til Parísar á sína fyrstu Ólympíuleika. Hann keppir í haglabyssugreininni leirdúfuskotfimi á morgun og laugardaginn

Í París

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Mér líður ljómandi vel. Það er mjög skemmtilegt að vera hérna,“ sagði Hákon Þór Svavarsson skotfimimaður sem er mættur til Parísar á sína fyrstu Ólympíuleika. Hann keppir í haglabyssugreininni leirdúfuskotfimi á morgun og laugardaginn.

Grein Hákonar fer fram í Châteauroux, 280 kílómetra suður af París. Hann hefur verið að flakka á milli Châteauroux og Parísar undanfarna daga og gerði sér ferð til Parísar til að vera fánaberi Íslands á setningarathöfninni.

„Þetta er mjög áhugavert. Þetta er stórt og mikið og það er gaman að vera með öllu þessu íþróttafólki í þorpinu. Það er skemmtilegt að vera í þorpinu í París. Í mínu þorpi eru þetta svo bara skotmenn og maður er kominn heim þegar maður er þar,“ sagði Hákon þegar Morgunblaðið hitti hann við ólympíuþorpið í París.

Mikill heiður að bera fánann

Hákon naut þess að vera fánaberi, þótt hann fengi ekki að taka veiðistöngina með í bátinn sem sigldi með íslensku keppendurna niður Signu.

„Þetta var mjög skemmtilegt og það var gaman að sjá lætin í íþróttafólkinu og lætin í áhorfendunum meðfram ánni. Þetta var mjög áhugavert og skemmtilegt. Þetta var mikill heiður. Því miður mátti ég ekki vera með veiðistöng á bátnum,“ sagði Hákon kíminn.

Hann er hrifinn af Châteauroux og umgjörðinni þar í borg, þótt hann eigi eftir að skoða borgina almennilega.

„Það er mjög fínt að vera þar. Þetta er glæsilegur skotvöllur og flott umgjörð um þetta allt saman. Þetta er rólegra umhverfi en hér í París. Ég á eftir að skoða bæinn en ég næ því áður en ég keppi,“ sagði hann.

Aðeins sex skotmenn af 30 fara í úrslit í grein Hákonar. Tveir undankeppnismorgnar skera úr um hverjir sex keppa um ólympíumeistaratitilinn.

Snemma í fyrramálið

Hákon keppir því að minnsta kosti tvisvar, fyrst á morgun, föstudaginn 2. ágúst, klukkan 7.30 að íslenskum tíma og aftur á laugardagsmorguninn klukkan 7. Úrslitin hefjast síðan klukkan 13.30 á laugardaginn.

„Það er allt hægt og mér líst vel á þetta. Ef allt gengur upp á ég að vera nógu góður til að fara í úrslit. Svo er spurning hvernig maður hittir á þetta,“ sagði hann.

Allir nema hundarnir

Fjölskylda og vinir Hákonar fylgja honum alla leið til Frakklands. Þau verða þó að skilja hundana eftir heima og verða þeir að styðja eigandann heima í stofu.

„Þau koma og fylgjast með. Þau koma öll fyrir utan hundana,“ sagði Hákon hlæjandi og hélt áfram: „Við erum fjögur í fjölskyldunni og svo koma tveir vinir mínir líka. Ég verð með stuðningsmenn þarna sem verður skemmtilegt,“ sagði hann.

Skot og dúfur kosta sitt

Það kostar sitt að stunda íþróttina en meðfram því að skjóta leirdúfur með haglabyssu er Hákon sjálfstætt starfandi smiður. Það er því nóg að gera.

„Ég er búinn að skjóta 12.000 skotum frá því í maí og það kostar sitt. Skotið er á 40-50 krónur stykkið og svo kosta dúfurnar sitt líka. Maður lætur þetta bara ganga, það er ekkert annað í boði,“ sagði Hákon.

Hann kemur nokkurn veginn út á sléttu frá Ólympíuleikunum í París, þar sem hann hefur verið studdur vel af bakhjörlum.

„Ég er sem betur fer búinn að fá styrki. Gjögur hefur styrkt mig í nokkur ár og eftir að ég komst inn á Ólympíuleikana hafa komið frekari styrkir. Skotsambandið stendur svo þétt við bakið á mér. Þetta leysist allt saman,“ sagði Hákon.

Fer beint í vinnuna

Hann hefur ekki ákveðið hvort hann haldi áfram og stefni á leikana í Los Angeles 2028. Mikil orka fór í að tryggja sætið í París og það tekur á fyrir íslenskan sveitastrák og trésmið.

„Ég fer beint í vinnuna þegar ég kem heim. Við sjáum svo hvað tekur við þegar þetta er búið,“ sagði Hákon glaður í bragði.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson