Jón Tryggvi Þorbjörnsson fæddist á Kornsá í Vatnsdal 21. maí 1941. Hann lést á hjartadeild Landspítalans eftir stutt veikindi 23. júlí 2024.

Foreldrar Jóns voru Þorbjörn Kristján Jónsson, f. 1905, d. 1976, og Elín Rannveig Sigurtryggvadóttir, f. 1920, d. 2014. Þau voru bændur. Systkini Jóns eru Guðmundur Karl, f. 1943, Sigurður Ingi, f. 1945, Aðalheiður, f. 1950, d. 1950, Jósefína Stella, f. 1952, d. 1999, faðir hennar var Jón Hannesson, f. 1927, d. 2002, Kristján, f. 1954, Ingibjörg, f. 1955, d. 1956, Ingibjörg, f. 1957. Samfeðra systkini voru Auður, f. 1923, d. 1998, Ragna, f. 1925, d. 2003, Guðmundur Ólafsson f. 1935, d. 1942.

Hinn 17. júní 1964 kvæntist Jón Guðlaugu Heiðdal Ólafsdóttur, f. 1944. Börn þeirra eru: 1) Rannveig Anna, f. 29.10. 1964, gift Þorvaldi H. Gunnarssyni, f. 1971. Dætur þeirra eru: a) Halldóra Guðlaug, f. 1996, unnusti Birkir Víðisson, f. 1995, dóttir þeirra er Vaka Lind, f. 2024. b) Hallgerður Freyja, f. 1999, unnusti hennar er Haukur Páll Hallgrímsson, f. 2001. 2) Sigríður Rut, f. 17.1. 1966, unnusti Gestur Freyr Stefánsson, f. 1967. Börn Sigríðar og Inga Torfa Sigurðssonar, f. 1964, eru: a) Íris Ósk Ingadóttir, f. 1988, gift Agli Victorssyni, f. 1988. Börn Írisar eru Emilía Rut, f. 2007, faðir hennar er Ómar Ástþór Ómarsson, f. 1988, Victor Ingi, f. 2012, og Kasper Ólafur, f. 2017. b) Reynir Viðar Ingason, f. 1990, unnusta hans er Sunna Ösp Þórisdóttir, f. 1990. Synir þeirra eru Tryggvi Freyr, f. 2021, og Kári Fannar, f. 2022. c) Árný Stella, f. 2001, faðir hennar er Sveinbjörn Högnason, f. 1960. 3) Þorbjörg Inga, f. 30.1. 1967. Börn Þorbjargar og Ólafs Kristinssonar, f. 1965, eru: a) Kristín Arndís, f. 1998, unnusti Alexander Jón Másson, f. 1998. b) Jón Kristinn, f. 2002, unnusta Sandra Magnúsdóttir Kiliñska, f. 2003. 4) Elín, f. 2.7. 1970. Börn Elínar eru: a) Óliver Jón Elí, f. 2005, faðir hans er Bjarki Þór Alexandersson, f. 1976. b) Júlíanna Guðlaug, f. 2016. 5) Ólafur, f. 10.11. 1974, eiginkona hans er Katrín Kjartansdóttir Arndal, f. 1977.

Jón ólst upp á Kornsá. Hann var línumaður hjá RARIK 1962-64. Jón bjó í Reykjavík 1963-64 og vann þá um tíma hjá Blikksmiðjunni Vogi í Kópavogi. Jón lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri. Árið 1965 gerðust hann og Guðlaug bændur að Snæringsstöðum í Vatnsdal. Bjuggu þar til 1987. Þá var hann um árabil bílstjóri í hlutastarfi hjá Kaupfélagi Húnvetninga en var þar í fullu starfi 1986-89 er hann hóf störf hjá Særúnu. Jón Tryggvi var skólanefndarmaður Húnavallaskóla og um skeið formaður Búnaðarfélags Vatnsdælinga. Þá sat hann í hreppsnefnd Áshrepps. Meðfram bústörfunum keyrði Jón mjólkurbíl, vann í héraðslögreglunni og í sláturhúsum. Jón og Guðlaug bjuggu á Blönduósi eftir að þau hættu búskap en fluttu að lokum til Reykjavíkur í nálægð við afkomendur sína. Árið 1995 fór Jón að starfa við fangavörslu hjá lögreglunni á Hverfisgötu og lauk námi við fangavarðaskólann meðfram vinnu. Seinustu starfsárin starfaði Jón í nokkur ár sem bílstjóri hjá Snælandi.

Útför Jóns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 1. ágúst 2024, klukkan 14.

Að skrifa minningargrein um föður sinn er óraunverulegt og afskaplega sárt. Því pabbi skilur eftir sig stórt skarð. Hann var sannkallaður klettur, sá sem hægt var að sækja styrk til. Ekkert endilega með mörgum orðum, nærvera hans dugði.

Frá því að ég man eftir mér hefur pabbi stutt mig í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hann elskaði að vera umkringdur afkomendum sínum, ég tala nú ekki um að hitta okkur öll í veislum en pabbi elskaði veislur. Þannig var hann. Hann horfði oft stoltur yfir hópinn sinn og fylgdist með öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Oft í viku hringdi hann í mig, yfirleitt til að segja mér að hann væri búinn að hjóla á þrekhjólinu eða til að fara yfir gang mála í spilamennskunni með Korpúlfum. Við þurftum ekkert löng símtöl, bara að heyra aðeins í hvort öðru og fá nýjustu fréttir. Pabbi var afar hlýr maður og tilfinningaríkur. Hann átti auðvelt með að tárast. Hann var einn af þeim mönnum sem gefa konu sinni blóm reglulega og sýna henni hlýju og virðingu. Í þessum efnum komust tengdasynirnir stundum ekki þangað með tærnar þar sem hann var með hælana.

Þegar við börnin hans fimm vorum að alast upp í sveitinni tókum við okkur ýmislegt fyrir hendur og vorum oft ansi uppátækjasöm. Ég man að einu sinni, þegar ég var u.þ.b. sex ára, gerði ég eitthvað af mér sem endranær og pabba fannst að hann yrði barasta að rassskella mig. Nokkuð sem hann gerði auðvitað aldrei. En atvikið hafði svo mikil áhrif á mig að ég hugsaði að þetta hlyti að vera ansi erfitt fyrir pabba og ég vorkenndi honum fyrir bragðið. Fann að hann gat örugglega ekki hugsað sér að fara að beita dóttur sína einhverri hörku. Hins vegar hef ég örugglega gætt að mér næst í prakkaraskapnum.

Pabbi keyrði mjólkurbílinn í töluverðan tíma. Stundum, þá á sunnudegi, tók hann okkur stelpurnar með sér. Raðaði okkur eftir aldursröð í framsætið og keyrði af stað. Það var gífurleg upplifun að fara um sveitirnar og sjá staði sem við sáum annars aldrei. Þvílík upphefð var að fá að vera með pabba í þessum snúningum. Pabbi var lengi í héraðslögreglunni í Húnavatnssýslunni og núna er dóttir mín orðin lögreglumaður, nokkuð sem hann var mjög stoltur af og spurði oft hvernig henni gengi. Yngsti afkomandinn fæddist í apríl síðastliðnum og var það okkur öllum mikils virði að þau Vaka Lind náðu að hittast. Hún á án efa eftir að heyra oft um langafa sinn.

Þá var pabbi mikill spilamaður og spilaði m.a. lomber við félaga sína í sveitinni. Hann tók virkan þátt í félagsstarfi Korpúlfa í Grafarvogi seinustu árin. Ásamt því stundaði pabbi sundlaugina í Laugardal og átti þar góða félaga. Hann las alltaf mikið þegar stund gafst til en umfram allt var pabbi mikill fjölskyldumaður og naut þess umfram allt að eiga góðar stundir með afkomendum sínum. Í hans anda munum við passa upp á hvert annað og upp á mömmu eins og hann gerði. Takk fyrir allt, elsku pabbi. Hvíl í friði.

Anna.

Í sumar sagði einn félagi minn vera einn af þeim lánsömu sem væri enn með mömmu og pabba í símanum sínum og þrátt fyrir að vera ekkert ungur lengur. Þegar faðir minn féll frá var gott að reyna að styðja sig við þá hugsun og muna að það að eiga góða foreldra, afa og ömmu fram eftir aldri eru forréttindi, þó að hjálpi enn lítið í sorginni.

Pabbi var 83 ára þegar hann lést eftir skammvinn veikindi. Hann var alla tíð stór og sterkur, hraustur maður sem kvartaði lítið heldur var helst hugleikið það sem gott var í lífinu. Pabbi var fæddur og uppalinn í Vatnsdalnum sem var honum alltaf hugleikinn og bjó þar fyrst á Kornsá og ætlaði síðan að taka þar við búinu með mömmu. Einn daginn kom hann heim, sagði mömmu að hann væri búinn að kaupa Snæringsstaði og þangað fluttu ungu hjónin, í íbúðarhús úr torfi og grjóti og hófu búskap og uppbyggingu á jörðinni.

Minningarnar frá Snæringsstöðum eru margar og yndislegar þar sem foreldrar okkar voru duglegir þrátt fyrir langan vinnudag að leika við okkur systurnar og finna fjölbreytt verkefni fyrir okkur til að við hefðum eitthvað fyrir stafni, eða kannski bara til að hafa vinnufrið. Þegar litli bróðir minn fæddist 1974 var flutt í nýtt íbúðarhús og var það ítrekað tilefni fyrir okkur systur til að minna á að torfbærinn hefði verið nógu góður fyrir okkur en ekki fyrir eina strákinn í hópnum.

Pabbi var mest af öllu maður sem unni sínu starfi hvert sem það var hverju sinni og kenndi okkur afkomendum sínum að vinna vel og bera virðingu fyrir því sem maður er að gera. Margar minningar koma upp í hugann um pabba, þegar hann kom heim af ballvakt með höfuðsár án þess að hafa neitt slæmt um árásarmanninn að segja, eða þegar kleinurnar hennar mömmu hurfu vegna þess að stundum þyrfti að gefa mönnum í fangaklefanum kleinur. Ekki síst þegar við keyrðum heim af sjúkrahúsinu nóttina 16. júní inn í Aðaldal, pabbi alsæll með að vera ekki lagður inn þó að hann þyrfti þess og sagði sögur af flutningum með rækjur. Fyrst og fremst var pabbi bóndi með einstakan áhuga á búskap og landinu okkar Íslandi. Hann kunni flest bæjarnöfn á landinu, vissi hvaða búskapur var á hverjum stað og oftast einhver deili á viðkomandi bændum.

Pabbi var líka afi og langafi af guðs náð, það var fátt sem gladdi hann eins og börnin, hann var alltaf tilbúinn fyrir þau, hvort sem var til að mæta á handboltaleiki, fótboltaleiki eða fimleikasýningar. Þá tók hann að sér að passa son minn nýfæddan og grínaðist gjarnan með það að þarna hefði hann fyrst farið í fæðingarorlof. Einnig var dóttur minni oftar en einu sinni skutlað niður á lögreglustöð til afa sem tók alltaf vel á móti henni. Ekki síst þá fannst mér húmorinn einkennandi fyrir pabba þar sem hann var alltaf tilbúinn með stríðni og brandara, stundum vel endurnýtta brandara, við vorum eins með það.

Að lokum, pabbi og afi, þökkum við Kittý, Jón, Alli og Sandra þér fyrir allt og allt, þangað til við sjáumst næst í sumarlandinu.

Þín dóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Við áttum ekki von á þegar við lögðum af stað í ferðalag norður í land um miðjan júní til að halda uppá sextíu ára brúðkaupsafmæli þitt og mömmu að það yrði þín hinsta ferð norður.

Veikindum sem þú glímdir við síðustu vikurnar tókst þú með þinni alkunnu innri ró og æðruleysi og þakkaðir öllu því starfsfólki sem aðstoðaði þig ávallt fyrir hjálpina.

Ég ætla því að taka þig til fyrirmyndar og þakka fyrir mig, þakka fyrir allan þann tíma sem ég fékk með þér. Þakka þér fyrir að vera alla tíð kærleiksríkur og umhyggjusamur pabbi. Þakka þér fyrir að leyfa mér að finnast ég fullkomlega örugg og að ekkert slæmt gæti nokkru sinni hent mig ef ég héldi í þína stóru hendi þegar ég hljóp við fót til að halda í við þín stóru skref þegar ég var lítil stelpa í Vatnsdalnum. Takk fyrir að vippa þér yfir girðinguna á Gilsstöðum og gera þitt allra besta til að sjarmera sætu kaupakonuna hans Magga. Þannig eignaðist ég og systkini mín einstaka mömmu og börnin mín yndislega ömmu sem við munum gæta fyrir þig. Betri eiginkonu gast þú ekki átt og betri mömmu og ömmu getum við ekki hugsað okkur.

Takk fyrir að sýna börnunum mínum tveim alla þá ástúð og alúð sem þú gerðir. Nafnbótina fyrsta flokks afi fékkstu frá nafna þínum Óliver Jóni þegar hann var nokkurra ára og afastelpunni þinni, henni Júlíönnu Guðlaugu, var og er tíðrætt um að þú sért allra besti afi í heimi.

Afastelpan Júlíanna Guðlaug er mjög lánsöm að hafa fengið að eyða svo miklum tíma með þér en hún fæddist stuttu áður en þú hættir að vinna. Þannig lærði hún af þér fjölmarga góða siði, svo sem að þakka fyrir sig. Hún þakkaði reglulega öllu því starfsfólki sem hún hitti á spítalanum og annaðist um þig fyrir að hjálpa honum afa sínum. Einni ungri konu varð á orði við Júlíönnu Guðlaugu að það væri nú sjálfsagt því að hann afi hennar væri svo æðislegur. Það fást varla betri karaktermeðmæli en það. Að takast á við erfið veikindi sem ekki finnst lausn við en vera samt svo alúðlegur við starfsfólkið og þakklátur að það heillast af manni. Að gefa af þér til annarra var þér í blóð borið.

Mig grunar að það sem gladdi þig mest hafi verið að gleðja aðra. Ég dáðist alltaf að því hversu auðvelt þú áttir með að lifa í núinu og vera ekki alltaf að líta til baka, fortíðarþrá virtist eitthvað sem þú varst algerlega laus við.

Ég trúi ekki á endalok heldur vistaskipti, ég segi því við þig það sama og ég sagði við Ellu ömmu, mömmu þína, þegar ég hitti hana í síðasta skipti á dánarbeðnum, „við sjáumst hinum megin“.

Ég er þess fullviss að þú sért búinn að sætta þig við orðinn hlut, búinn að koma þér vel fyrir þar sem þú ert núna og gera þitt besta til að láta gott af þér leiða þar. Þínu lífi var vel lifað og arfleið þín lifir áfram.

Elskum þig og munum alltaf gera, söknum þín meir en orð fá lýst. Takk fyrir allt og allt, minning þín mun lifa í hjörtum fólksins þíns. Minning um einstakan mann, ríkan af ást og umhyggju.

Þín

Elín, Óliver Jón og Júlíanna Guðlaug.