Andri Snær Magnason rithöfundur var á leið heim úr fjögurra daga göngu þegar blaðamaður tók púlsinn á honum. Hann segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvað hann hyggist gera um verslunarmannahelgina en góðar líkur eru á því að hann skelli sér á Melrakkasléttu.
Fyrir Andra er verslunarmannahelgin eins og hver önnur helgi þar sem hann eyðir iðulega flestum helgum júlímánaðar í að ferðast hvort sem er.
Yfirleitt fer hann þó á Melrakkasléttu yfir verslunarmannahelgina þar sem hann hittir fjölskylduna. Þegar fréttist að einhverjir úr fjölskyldunni ætli að fara, fara ávallt fleiri og geta verið hátt í 50 fjölskyldumeðlimir samankomnir á Melrakkasléttunni í einu húsi. Andri tekur það þó fram að þetta sé ekki ættarmót, en þar sem þau séu svo mörg þurfi að sofa í öllum skúffum og skápum og er allt pláss nýtt.
Andri segist aldrei hafa farið á útihátíð yfir verslunarmannahelgina en segist þó vera til í að prófa að fara á Þjóðhátíð allavega einu sinni á ævinni. „Það var einu sinni Þórsmörk þegar það var meira djamm, en síðustu áratugi elti ég annaðhvort veðrið eða fer á Melrakkasléttuna,“ segir Andri.