Eitt æviár Verk Onda nefnist „2012“ og samanstendur af kassettum, en hann tók upp daglega í heilt ár. Í Nýlistasafninu hefur áhorfandinn ekki aðgang að hljóðupptökunum og þarf því að ímynda sér heiminn sem fyrir augu ber.
Eitt æviár Verk Onda nefnist „2012“ og samanstendur af kassettum, en hann tók upp daglega í heilt ár. Í Nýlistasafninu hefur áhorfandinn ekki aðgang að hljóðupptökunum og þarf því að ímynda sér heiminn sem fyrir augu ber. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlistasafnið Rás ★★★½· Sýnendur: Aki Onda, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir og Logi Leó Gunnarsson. Sýningarstjórar: Sunna Ástþórsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð. Sýningin stendur til 4. ágúst og er opin frá miðvikudegi til sunnudags milli kl. 12 og 18.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Í Nýlistasafninu stendur nú yfir sýningin Rás þar sem fjórir listamenn koma saman og kanna tengsl myndlistar við heim hugmynda og hljóðs, fremur en við myndrænar forsendur. Listamenn sýningarinnar vinna verk sem eru ekki skilgreinanleg sem myndlist, heldur vinna á mörkum margra listgreina. Verkin á sýningunni eru með sterkar tengingar við Flúxus-hreyfinguna sem var virk í Evrópu og Ameríku á sjöunda áratug síðustu aldar. Sýningin á því vel heima í Nýlistasafninu, en hugmyndir Flúxus höfðu sterk áhrif á þá listamenn sem í upphafi stóðu að því að stofna safnið.

Þungamiðja sýningarinnar hverfist um japanska listamanninn Aki Onda. Hann hefur vakið athygli víða um heim fyrir gjörningaverk sín, sem byggjast á hljóðupptökum úr lífi hans. Kerfisbundin verk hans eru í góðu samræmi við hugmyndafræði Flúxus. Kóreski listamaðurinn Nam June Paik hefur verið honum sterkur innblástur, en Nam June Paik er einmitt sá listamaður sem fyrstur kynnti Íslendingum forsendur Flúxus með gjörningi sem hann flutti á Listahátíð árið 1965. Verk Onda ber titilinn „2012“ og samanstendur af kassettum í mismunandi litum, en hver litur spannar tveggja mánaða tímabil. Onda tók upp eina kassettu á dag allt árið og verkið birtir því á skipulegan hátt eitt ár í ævi hans. Í Nýlistasafninu er verkið til sýnis á vegg, raðað upp í stíl naumhyggju. Áhorfandinn hefur ekki aðgang að hljóðupptökunum og þarf því að ímynda sér heiminn sem fyrir augu ber. Verkið teygir rætur sínar til upptakna Onda allt frá árinu 1988, upptökur sem hann hefur unnið skipulega þar sem hann hefur ferðast og dvalið. Hann kallar kassetturnar hljóðminningar og hefur flutt gjörninga víða um heim þar sem hann spilar efnið og blandar saman fyrir áheyrendur, eins konar „snældusnúður“ eigin lífs.

Ásta Fanney hefur byggt upp feril sem bæði skáld og gjörningalistamaður. Nú sýnir hún ljóðrænt textaverk, stuttar klausur sem vekja hugmynd um hljóðheim. Verkið er alls 333 miðar sem raðað er skipulega á vegginn og kallast þannig á við verk Onda. Það má finna samsvörun við þessi verk í fyrirmælaverkum Flúxus-listamanna eins og Yoko Ono, þar sem verkið var gjarnan miði þar sem fyrirmæli voru gefin um einfalda athöfn sem áhorfandinn átti að framkvæma. Verk Ástu kallar ekki á framkvæmd heldur hvetur áhorfandann til að minnast þeirra hljóða sem heyrast „þegar þú hleypur í snjógalla“ eða „þegar þú tyggur vínber“, svo dæmi séu tekin.

Verk Hildar Elísu gætu talist vera á sviði tónlistar þar sem hún vinnur kerfisbundið með samræmi hljóms og rýmis. Þau byggjast á því að fylgja órökréttum kerfum á skipulegan hátt. Verk hennar á sýningunni, „Brú“, samanstendur af hátölurum sem eru á milli glugga í meginrýminu. Verkið er einhverskonar hljóðmynd þar sem þagnir eru reglulega brotnar upp af skyndilegum hljóðum og einskonar ópum sem ferðast um salinn í víðóma hljóðrás. Verkið skapar áhugavert uppbrot í rýminu en það hefði verið gagnlegt að fá nánari skýringar á forsendum. Tónverk eftir Hildi var flutt í dagskrá sýningarinnar, titlað „Ultradolente“. Það byggist á texta Sonatorreks Egils Skallagrímssonar, unnið kerfisbundið þannig að hver bókstafur kvæðisins fær hljóðgildi. Um er að ræða endurtúlkun ljóðsins í kerfi sem ekki túlkar tungumálið sem slíkt heldur útfærir það í táknrænum hljóðheimi. Samning tónlistarinnar er rökræn, en verður í reynd handahófskennd út frá forsendum tónsköpunar, nokkuð sem tónar vel við Flúxus-áherslur sýningarinnar.

Logi Leó gerir gjarnan gjörningatengd verk þar sem einhverskonar hljóðgjafar eru í aðalhlutverki. Stundum er listamaður miðpunkturinn í fáránlegri tilraun til að fanga vélræn hljóð. Verk hans á þessari sýningu eru hins vegar hófstillt; Vídeóverk þar sem einhverskonar filma þeytist inn í myndflötinn og gefur frá sér hvisshljóð, endurtekið; Nótnablað án nótna; Hljóðnemi sem rúllar eftir trépalli er skemmtilegasta verkið, afkáralegur hlutur og felur í sér tilboð um að taka hann upp og nýta til söngflutnings.

Sýningin er ljóðræn og falleg í einfaldleika sínum. Hún fellur vel að hugmyndafræði sinni og tengir á áhugaverðan hátt við forsendur sínar. Sögulega eru vísanir í hugmyndalist sjöunda áratugarins áhugaverðar. Því miður eru upplýsingar sem fylgja sýningunni af skornum skammti; ekki er reynt að fjalla um forsendur verkanna eða bakgrunn. Því má segja að einfaldleiki og naumar forsendur framsetningarinnar geri það að verkum að verkin verði erfið fyrir almennan áhorfanda að meðtaka.