Stærstur Kristrún Sigurðardóttir með stærsta lax sumarsins úr Laxá í Aðaldal, hæng 106 cm að lengd.
Stærstur Kristrún Sigurðardóttir með stærsta lax sumarsins úr Laxá í Aðaldal, hæng 106 cm að lengd. — Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Hörkuveiði hefur verið í helstu laxveiðiám víða um land það sem af er ári og eru viðmælendur Morgunblaðsins sammála um að mun meira af laxi hafi gengið í árnar nú, samanborið við sama tíma í fyrra.

Þetta endurspeglast í veiðitölum víðast hvar og veiðin er mun betri en á sama tíma í fyrra. Óhætt er að segja að bjartsýni ríki um framhaldið.

Norðurá í Borgarfirði komin yfir þúsund laxa

„Norðuráin er komin yfir þúsund laxa og áin er í gullvatni í 20 rúmmetrum og öllum líður hér vel, bæði veiðimönnum og löxum,“ segir Brynjar Þór Hreggviðsson, annar tveggja umsjónarmanna Norðurár í Borgarfirði í samtali við Morgunblaðið, staddur úti í á með veiðimanni sem hann var að leiðbeina.

Brynjar Þór segir lax ganga í ána á hverju flóði og veiðina vera með ágætum. Síðasta holl landaði sjötíu löxum og hollið þar á undan hundrað. Hann segir fisk vera kominn upp um alla á.

Tekur smáflugur í yfirborðinu

„Við vorum að taka tvo í beit áðan,“ segir hann, en þeir félagar voru við veiðar í Bælisfljóti sem er gjöfull hylur framarlega í Norðurárdal.

„Laxinn er að taka smáflugur hjá okkur, númer 14 og 16 og tekur fluguna í yfirborðinu,“ segir Brynjar Þór.

Veiðin það sem af er sumri er mun betri en á sama tíma í fyrra, en þá voru komnir um sex hundruð og fimmtíu laxar á land í ánni, en eru nú ríflega þúsund eins og fyrr sagði og nálgast áin óðum heildartölu síðasta árs, en þá veiddust eitt þúsund áttatíu og sjö laxar í Norðurá.

Spáir yfir þúsund laxa veiði í Laxá á Ásum

„Það gengur þokkalega hjá okkur, við erum komnir yfir fimm hundruð laxa sem er töluvert meira en í fyrra, en um sama leyti á síðasta ári stóðum við í um þrjú hundruð löxum,“ segir Sturla Birgisson, leigutaki Laxár á Ásum, kampakátur með stöðu mála sem vonlegt er, enda veiðin um 60% meiri en í fyrra.

Sturla segir að fín laxagengd hafi verið í Ásana það sem af er sumri, þótt síðustu tvo dagana sé aðeins farið að draga úr göngum. Næsta stórstreymi verði þegar u.þ.b. vika verði liðin af ágúst og kvaðst hann vonast til þess að þá myndi lifna yfir göngum á ný.

„Ég spái því að sumarveiðin hjá okkur fari yfir þúsund laxa í sumar,“ segir hann og ef það gengur eftir verður laxveiðin mun betri en í fyrra, en þá gaf áin sex hundruð og sextíu laxa alls.

„Laxinn sem er að koma upp er spikfeitur og flottur, kemur vel haldinn úr sjó. Hrygnurnar voru seinar fyrir í sumar en þær eru nú óðum að sýna sig,“ segir hann og nefnir að hængar hafi verið uppistaðan í göngunum framan af sumri.

Sturla segir ekki marga stórlaxa hafa veiðst, þeir hafi sýnt sig í upphafi veiðitímans en nú sé smálaxinn allsráðandi. Mikið vatn í ánni hafi flækt stöðuna framan af sumri, en nú séu aðstæður allar hinar ákjósanlegustu í Laxá á Ásum.

Gjöfulasta flugan á Ásunum segir Sturla að sé fluga sem hönnuð var á bökkum árinnar fyrir tveimur áratugum og kallast hún Evening Dress og er hið skæðasta vopn, að uppistöðu gul og svört að lit, með fönum af páfugli að auki.

Kampakátir í Laxá í Aðaldal

„Við erum kátir hér í Aðaldalnum, það gengur mjög vel hér,“ segir Árni Pétur Hilmarsson, staðarhaldari í Laxá í Aðaldal, spurður um stöðu mála í Laxá.

„Það er mjög mikið af fiski í ánni. Eftir þrjú erfið ár í röð þegar áin skilaði um fjögur hundruð löxum, þá batnaði veiðin í ánni verulega í fyrra og endaði í sex hundruð og áttatíu löxum. Nú er veiðin u.þ.b. 25% betri en á sama tíma í fyrra,“ segir hann, en veiðin stendur nú í um þrjú hundruð og þrjátíu löxum.

Tveir stórlaxar hafa veiðst

Laxagöngur eru líflegar þessa dagana í Laxá.

„Svo er áin mjög tær þannig að laxinn gengur mjög hratt upp og stoppar lítið í fossunum. Það er allt svæðið inni í veiðinni,“ segir Árni Pétur.

Spurður um stórlaxa sem Aðaldalurinn hefur verið frægur fyrir í gegnum tíðina, segir hann að stærsti laxinn sem veiðst hefur í sumar hafi verið 106 cm og sá næststærsti var 100 cm. Sá stærri veiddist í Sjávarholu sem er neðst í Kistukvísl sem er veiðistaður neðan Æðarfossa en hinn minni var veiddur í Heiðarendaflúð.

„Við vitum af nokkrum alvöru tönkum hingað og þangað í ánni og einnig hafa nokkrir stórir sloppið það sem af er sumri,“ segir hann og nefnir að öll áin sé inni og mikið af laxi á mörgum veiðistöðunum.

„Það hefur sjaldan verið svona jöfn skipting af laxi á milli svæða í Laxá,“ segir Árni Pétur og er fullur bjartsýni um framhaldið, enda besti veiðitíminn í ánni að fara í hönd.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson