Þjálfarinn Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í króatíska landsliðinu.
Þjálfarinn Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í króatíska landsliðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dagur Sigurðsson og hans menn frá Króatíu lögðu Alfreð Gíslason og lærisveina hans í liði Þýskalands að velli, 31:26, í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í París í gær. Slóvenar sigruðu Svía, 29:24, og þar með er baráttan í A-riðlinum orðin…

Dagur Sigurðsson og hans menn frá Króatíu lögðu Alfreð Gíslason og lærisveina hans í liði Þýskalands að velli, 31:26, í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í París í gær.

Slóvenar sigruðu Svía, 29:24, og þar með er baráttan í A-riðlinum orðin gríðarlega tvísýn þar sem öll liðin hafa tapað og Svíar tvisvar.

Króatía, Spánn, Slóvenía og Þýskaland eru með fjögur stig en Svíar tvö. Stigalausir Japanar blanda sér ekki í baráttuna en eitt hinna fimm liðanna þarf að sitja eftir þegar átta liða úrslitin hefjast.

Á morgun eru tveir algjörir lykilleikir í næstsíðustu umferðinni þegar Króatar mæta Svíum og Þjóðverjar mæta Spánverjum. Slóvenar geta komið sér í nánast öruggt sæti með því að vinna Japana.

Báðir þurfa einn sigur

Í lokaumferðinni leika Þjóðverjar við Slóvena og Króatar mæta Spánverjum, og það er ljóst að bæði Dagur og Alfreð þurfa að innbyrða einn sigur í viðbót til að vera með í baráttunni um verðlaunasæti á Ólympíuleikunum.

Í B-riðlinum hefur slæm byrjun Frakka komið mest á óvart og þeir þurfa að hafa mikið fyrir því að komast áfram á meðan Norðmenn og Danir eru í góðum málum.