Irja Gröndal
irja@mbl.is
Bjarki hefur sérlega gaman af því að töfra fram gómsæta rétti af grillinu, en í byrjun sumarsins deildi hann uppskrift að sannkallaðri lúxusgrillmáltíð, lambakórónu með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu, með lesendum matarvefs mbl.is. Hér gefur hann lesendum Morgunblaðsins fjögur skotheld grilltrix sem ættu að nýtast vel um helgina!
1. Lykilatriði að kjötið nái stofuhita
„Mikilvægt er að kjöt nái stofuhita áður en það fer á heitt grillið. Þetta tryggir jafnari eldun og að kjötið ofeldist ekki að utan og haldist hrátt í miðjunni.“
2. Kjarnhitamælirinn besti vinurinn
„Besti vinur þinn á grillinu er kjarnhitamælirinn sem gefur þér hraða útkomu. Ég segi oft við mitt fólk að það er betra að splæsa í einn slíkan frekar en að skemma steik fyrir andvirði mælis.“
3. Ekki víkja frá grillinu
„EKKI fara frá grillinu ef þú ert með kjöt í beinum hita. Það getur verið freistandi en þá er betra að klæða sig í flíspeysuna og taka besta grillfélagann, rauðvínsglasið, með sér því maður getur misst fallega steik í bál á núll einni. Það er þó í lagi að bregða sér frá þegar maður er kominn með kjötið á efri grind og búið að lækka í grillinu.“
4. Hugaðu að botninum á grillinu
„Passaðu að leyfa ekki fitu að byggjast upp í botninum á grillinu þínu. Undirritaður hefur lent í því að kveikja í grilli vegna fitusöfnunar og það er ekki skemmtileg upplifun að lenda í get ég sagt þér.“
„Samsetningin er engu lík“
Fyrr í sumar töfraði Bjarki fram ómótstæðilega lambakórónu með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu sem tilvalið er að gæða sér á um helgina, en lambakórónan er eitt af uppáhaldshráefnum Bjarka.
„Bæði er lambakórónan falleg en einnig er þessi samsetning fitu og kjöts eins fullkomin og hugsast getur, stökk fitan og dúnmjúkt kjötið tekur svo á móti manni. Hér er á ferðinni fersk og skemmtileg jurta- og sítrónumarinering sem er í smá miðjarðarhafsfíling og er myntu-jógúrtsósan í sama þema. Samsetningin er engu lík!“ segir Bjarki um réttinn.
Lúxuslambakóróna með sumarlegu kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu
Lambakórónumarinering
Fersk mynta
Ferskt timían
Ferskt rósmarín
Sítrónusafi
Ólífuolía
Salt og pipar
Athugið að hér eru engin sérstök hlutföll – Bjarki mælir með því að skera nóg af jurtum og bleyta þær upp með góðri ólífuolíu og smá sítrónusafa.
Penslið lambið með marineringunni og leyfið því að standa í að minnsta kosti klukkutíma til sólarhring í kæli.
Sumarkartöflusalat
1 kg kartöflur
1 rautt epli
1 pikklaður rauðlaukur
2/3 bolli majónes
2-3 msk. dijon-sinnep
1-2 msk. whole grain-sinnep
Ferskt dill eftir smekk
Sjóðið kartöflurnar í 15-20 mín.
Blandið majónesi, dijon-sinnepi og whole grain-sinnepi saman í stóra skál og hrærið vel.
Skerið eplið og bætið út í skálina ásamt pikklaða rauðlauknum.
Skrælið og skerið kartöflurnar í sirka fjóra bita og blandið saman við restina í skálinni. Athugið að það má að sjálfsögðu hafa hýðið á.
Skerið dill gróft og blandið saman við.
Myntu-jógúrtsósa
½ bolli grískt jógúrt
½ lítil jógúrtdolla, hrein
1/3 bolli smátt skorin mynta
2 stk. rifnir hvítlauksgeirar
½ tsk. cumin
¼ tsk. cayenne-pipar
Safi úr einum sítrónubát
Salt eftir smekk
Pipar eftir smekk
Skerið myntuna smátt.
Blandið öllum hráefnum í skál og hrærið vel.