Innsetning forseta Íslands er að mestu í föstum skorðum. Þar hefur lítið breyst frá öndverðu, nema helst klæðaburður viðstaddra fyrirmenna. Áður voru þar allir í kjól og hvítu, en nú eru það aðeins handhafar forsetavalds og fyrri forsetar sem koma svo búnir. Þetta er meðal þess sem Örnólfur Thorsson, fv. forsetaritari, segir í Dagmálum í dag.
Hins vegar er umgjörðin eilítið frábrugðin með skjám úti fyrir Alþingishúsinu, en að athöfninni lokinni er móttaka í Smiðjunni, nýju skrifstofuhúsnæði þingsins. Örnólfur rekur að áður fyrr hafi opinberar veislur á vegum forsetaembættisins verið algengari en nú tíðkast, þeim hafi tekið að fækka upp úr aldamótum, en eftir hrun hafi þær nánast orðið undantekningar. Aftur á móti tíðkist enn ýmsar móttökur.
Megnið af störfum forseta segir hann mun hversdagslegra og forsetinn hafi nóg að gera í vinnunni, bæði stórt og smátt. Forsetaskrifstofan sé ekki stór eða fjölmennur vinnustaður.
Spurður hvort einhvers misskilnings kunni að gæta um hlutverk og starf forseta telur Örnólfur að almenningur geri sér engar grillur um það. Á hinn bóginn hafi mátt ráða af umræðum frambjóðenda í kosningabaráttunni, að þeir hafi ekki allir verið að bjóða sig fram í sama embætti. Að breyttu breytanda telur hann að forsetaembættið hafi enn ótvírætt gildi. andres@mbl.is