Í dag fara fram forsetaskipti, þegar Guðni Th. Jóhannesson, sem verið hefur forseti Íslands í átta ár, lætur af embætti, en með innsetningu á Alþingi tekur Halla Tómasdóttir við keflinu.
Forsetaembættið er ekki valdamikið. Það er fyrst og fremst táknræn virðingarstaða, þar sem ríkisvaldið – upprunnið frá þjóðinni – kemur saman í einu embætti, sem aftur lætur aðra framkvæma vald sitt og bera á því ábyrgð, líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá um mörk og mótvægi valdsins.
Jafnframt er forseti þjóðhöfðingi, kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum og gegnir margvíslegum skyldum innanlands, bæði í gleði og sorgum.
Það er þó ekki svo að embættið sé fullkomlega valdalaust, eins og stundum (til allrar hamingju sjaldan) hefur reynt á. Þar er þó réttara að ræða um íhlutun forseta en bein völd, því þegar þannig háttar hefur þjóðin, ekki hann, síðasta orðið.
Eins getur forseti átt aðkomu að stjórnarmyndun eða þingrofi ef svo ber undir, en hvorugt veltur samt á frumkvæði hans eða vilja; þar ræður þingmeirihlutinn.
Eftir sem áður á forseti reglulega fundi með forsætisráðherra og ræðir við aðra embættismenn eftir þörfum. Hann á rétt á að vera með í ráðum, getur lagt gott til eða varað við ef svo ber undir, en hann veitir engin fyrirmæli.
Forseti getur hins vegar haft talsvert áhrifavald. Með það þarf hann þó líka að fara sparlega. Það er ekki takmarkalaust og tæplega rík þolinmæði fyrir að forseti hlutist tíðum til um stórt og smátt. Á öðrum sviðum er beinlínis óviðeigandi ef ekki óþolandi að forseti beiti sér, svo sem um utanríkisstefnu eða löggjafarstarfið. Það er í annarra verkahring.
Þó það sé að öllu jöfnu ekki fyrirferðarmikið er forsetaembættið íslensku þjóðinni hugleikið. Það kom skýrt fram í forsetakjörinu í vor, líkt og í fyrri kosningum.
Hinn almenni borgari ber virðingu fyrir forsetaembættinu og lætur sér annt um það. Það hafa fyrri forsetar fundið, bæði þegar vel hefur upp tekist eða verr. Fólkið kann því ekki vel, að skrumað sé með forsetaembættið, það haft í flimtingum eða reynt að nota það í þágu annarra hagsmuna en þjóðarinnar einnar.
Þessi skýra afstaða til forsetaembættisins leggur ríkar skyldur á herðar þeim, sem því gegna, til að sinna því af alúð og hófsemi, þannig að tilfinningum þjóðarinnar til þess sé ekki misboðið.
Forsetaembættið er virðingarstaða og það skiptir fólk máli, að forsetinn komi fram af þeim virðuleik sem hæfir þjóðhöfðingja; landi og þjóð til sóma. Um leið er Íslendingum annt um, að forsetaembættið sé laust við tildur, tilgerð og sýndarmennsku.
Það meðalhóf getur verið vandfundið. Forsetum hefur bæði verið legið á hálsi fyrir að vera of háfleygir og of hlédrægir, fyrir hirðvæðingu og fyrir hversdagsleika úr hófi. Þar þarf nýr forseti að finna réttan takt eða takta, öllu heldur, sem hæfa bæði í konungshöllu og Kiwanis.
Þrátt fyrir ríkar hefðir hefur það talsvert komið í hlut hvers forseta, að móta embættið með sínum hætti. Um það hafa þeir hóflega frjálsar hendur þar sem ákvæði stjórnarskrár og laga setja embættinu ekki þröngar skorður. En það segir sína sögu að þrátt fyrir að hart hafi verið deilt í hverju forsetakjöri og forsetarnir ekki allir alltaf setið á friðarstóli hefur þjóðin kvatt þá alla í sátt.
Guðni Th. Jóhannesson gegndi embætti forseta Íslands skemur en venja hefur verið, en í tvö kjörtímabil þó. Hann ávann sér vinsældir og væntumþykju þjóðarinnar, kappkostaði að skapa meira logn um embættið en verið hafði í sviptivindum útrásar, hruns og pólitískrar upplausnar. Um leið tamdi hann sér meiri alþýðleika í embætti en vaninn var. Honum fylgja góðar óskir um velfarnað á nýjum vettvangi og gömlum með þökk fyrir þjónustu hans við þjóðina.
Halla Tómasdóttir tekur við embætti forseta Íslands í dag eftir að hafa borið sannfærandi sigur úr býtum í forsetakjöri. Hún hefur ekki reynslu úr opinberri þjónustu, en það þarf ekki að há henni, hlutverk embættisins er skýrt um það sem þarf, en opnara um það sem má. Hún er sprottin úr jarðvegi einkaframtaksins og hefur mikla reynslu á alþjóðavettvangi, sem eflaust verður henni gott veganesti. Fyrst og síðast þarf hún að tileinka sér skilning á kjörum fólksins í landinu og hinu þjóðlega, sem gerir Íslendinga að þjóð á meðal þjóða; þá mun vel farnast.
Hinum nýkjörna forseta fylgja allar góðar óskir um farsæld í embætti, landi og þjóð til heilla.