Sigurður Hermannsson fæddist 4. nóvember 1940 á Álafossi í Lágafellssókn. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 22. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Hermann Guðmundsson, f. á Blesastöðum á Skeiðum 23. ágúst 1913, d. 18. október 1980, og Ingibjörg Sæunn Jóhannsdóttir, f. í Háakoti í Fljótum 1. júní 1918, d. 28. október 2007.

Sigurður bjó framan af aldri á Blesastöðum á Skeiðum með foreldrum sínum sem stofnuðu nýbýlið Blesastaði 2. Þar ólst hann upp ásamt fjórum yngri systrum, sem eru: Kristín, f. 18. janúar 1943. Eiginmaður hennar er Vilmundur Jónsson; Guðrún, f. 19. janúar 1947. Eiginmaður hennar Hjalti Árnason, d. 18. janúar 2022; Sigríður Margrét, f. 8. janúar 1950. Eiginmaður hennar er Jónas Jónsson; Hildur, f. 30. ágúst 1951. Eiginmaður hennar er Kristján Guðmundsson.

Sigurður fór ungur að fást við almenn sveitastörf. Hann fór snemma að heiman og vann fjölbreytt störf á verkstæðum, við akstur og á vinnuvélum. Hann lærði síðan trésmíði og varð trésmíðameistari. Stærstan hluta starfsævinnar vann hann sem verkstjóri hjá verktökum, hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og umsjónarmaður fasteigna hjá Reykjavíkurhöfn.

Hann hóf sambúð með Báru Oddsteinsdóttur 1962 og gengu þau í hjónaband 1. júní 1963. Fyrst bjuggu þau í Reykjavík, síðan á Laugarvatni en settust svo að á Selfossi 1968 og byggðu sér hús þar árið 1969.

Börn Báru og Sigurðar eru: 1) Kristjana Brynja, f. 24. apríl 1962, öryggisvörður, gift Sigurjóni Karlssyni trésmíðameistara. Börn hennar eru Guðjón Örn, Rakel Sara og Sigurlaug Þóra. Sigurjón á fjögur börn af fyrra hjónabandi. 2) Óskar Ingi, f. 19. september 1963, rafmagnsiðnfræðingur og framhaldsskólakennari, giftur Helgu Aðalgeirsdóttur landslagsarkitekt. Synir þeirra eru Sindri Geir, Almar Smári og Bergur Ingi. 3) Alma Jenný, f. 8. desember 1972, landfræðingur og kennari, gift Páli Guðmundssyni vélvirkja. Börn þeirra eru Guðmundur Ísak, Ingibjörg Bára, Matthildur Sif og Sigurður Emil.

Sigurður og Bára fluttu frá Selfossi í Mosfellsbæ 1980, þau slitu samvistir 1988, og þá flutti Sigurður til Reykjavíkur.

Seinni kona Sigurðar er Elín Árnadóttir, f. 28. ágúst 1942. Þau hófu búskap 1995 og gengu í hjónaband 4. september 2004 og á hún fimm uppkomin börn af fyrra hjónabandi.

Sigurður og Elín fluttu í Sigtún 30 á Selfossi árið 2004 og bjuggu þar síðan. Sigurður var sjúklingur síðustu árin og hjúkraði Elín honum af einstakri alúð.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 1. ágúst 2024, klukkan 13.

Kveðja til þín, elsku pabbi minn, þvílík forréttindi og gæfa sem mér, eiginmanni, börnum og barnabörnum var gefin, að fá að njóta ástar og kærleiks frá þér alla tíð, það verður seint þakkað.

Öll símtölin, hvernig hafi þið það, hvernig gengur ykkur í skólanum eða vinnunni, eru allir heilsuhraustir? Þetta voru regluleg símtöl með alls konar spurningum um daglegt líf okkar og líðan, síðan enduðu símtölin alltaf á: mikið hlakka ég til að sjá ykkur næst þegar þið eruð á ferð um Selfoss, og þá skipti ekki máli hvort stoppað væri í eina mínútu eða klukkustundir, alltaf sastu við eldhúsborðið skælbrosandi, þakklátur og stoltur.

Ljóðið sem Kristján Hreinsson orti tileinka ég þér í dag.

Pabbi minn og friðurinn

Hann pabbi kunni ekki neitt að óttast

og okkur hinum gat hann veitt
sitt lið,

í hjartans kyrrð var alltaf
eftirsóttast

að eignast nógu dásamlegan frið.

Já, pabba mínum fylgdi alltaf friður

og frelsið það var blóð í æðum hans

og það var ljúft að sjá hann setjast niður

því sáttin bjó í augum þessa manns.

Við kveðjustund hann ekkert upp sér kippti

en átti von um samfund – seinna meir,

þar ást úr augum skein í hinsta skipti

og skildi eftir frið sem aldrei deyr.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Kristjana Brynja og fjölskylda.

Mig langar að minnast Sigga, tengdaföður míns, sem ég var svo heppinn að kynnast fyrir bráðum 30 árum þegar ég fór að eltast við Jennýju dóttur hans. Siggi var nokkuð ánægður með ráðahaginn en foreldrar mínir og hann þekktust frá fyrri tíð sem ekki spillti fyrir. Honum þótti heldur ekki verra að ég kynni eitthvað fyrir mér í bílaviðgerðum og tilkynnti mér í fyrstu viku að rétt væri að ég tæki við öllum bílavandræðum Jennýjar. Má segja að frá fyrsta degi hafi hann tekið mér sem einum úr fjölskyldunni og alla tíð vildi hann allt fyrir okkur Jenný gera. Siggi var enda góðhjartaður og greiðvikinn maður. Þegar við keyptum okkar fyrstu íbúð var hann mættur fyrstur manna til að hjálpa til. Hann braut vegg og múraði, reddaði hurð sem vantaði og snikkaði hana aðeins til svo hún passaði, eins og honum einum var lagið. Hann miklaði ekki hlutina fyrir sér. Siggi var reyndar mikill reddari og braskari, svo ekki sé meira sagt. Hann hélt sig þá ekkert við smáhluti heldur var hann býsna iðinn við að kaupa og selja allt milli himins og jarðar, til dæmis íbúðir, bíla, traktora, kerrur og fellihýsi. Óhætt er að segja að internetið hafi komið eins og himnasending til þeirra iðju. Skemmtilegast þótti honum þó að kaupa og selja bíla og ekki alla ökufæra. Þá var hann oft búinn að ráðfæra sig við Hjalta í Galtafelli, mág sinn. Margar ferðir fórum við Siggi saman með kerru til að sækja eitthvað af þessu góssi hans. Ein slík ferð er minnisstæðari en aðrar en dag nokkurn hringdi hann í mig og þurfti þá að ná í húsbíl til Þýskalands, rétt handa landamæra Danmerkur. Eitthvað misreiknaði Siggi sig á landakortinu og enduðum við í Austurríki. Úr þessu varð heilmikil ævintýraferð á húsbílnum alla leið til Danmerkur með tilheyrandi bilunum, týndum farangri og aksturshraða upp á 70 kílómetra á klukkustund á þýskum hraðbrautum. Um svipað leyti og ég kynntist Sigga hóf hann sambúð með eftirlifandi konu sinni, Elínu Árnadóttur, fyrst í Reykjavík en seinna fluttu þau í Sigtún 30 á Selfossi. Alltaf var gott að staldra við hjá þeim í kaffi. Siggi þekkti marga og kunni margar góðar sögur frá fyrri tíð og ekki var nú verra þegar hann rifjaði upp eitthvað um félaga sína úr eldri deildinni hjá Ístaki sem ég kannaðist við. Í bílskúrnum í Sigtúninu var bjástrað við ýmislegt þó að heilsan væri ekki upp á marga fiska síðustu árin. Hugurinn og viljinn voru þeim mun frískari. Siggi var alltaf ljúfur og hlýr og nutu öll börnin okkar heldur betur góðs af því. Það verður þó að segjast eins og er að sá yngsti, Sigurður Emil, var ansi dekraður af afa sínum. Sem smábarn þurfti hann ekki annað en benda á hlutinn til að fá. Seinna, þegar hann var orðinn dálítill dellukarl eins og afinn, gaukaði hann að honum alls kyns græjum. Þannig var Siggi.

Ég kveð þig að sinni, kæri vinur.

Páll Guðmundsson.

Kveðja til elsku afa.

Afi Siggi var alltaf mjög frumlegur. Við fengum stundum frumsamin ljóð og vísur í jóla- og afmæliskortin okkar frá honum og ömmu Ellu sem er alltaf gaman að lesa. Það var gaman að spjalla við hann, hann sagði okkur margar sögur frá bæði sér og öðrum. Hann var áhugasamur um það sem við krakkarnir höfðum að segja honum, var alltaf að spyrja okkur út í skólann, vinnuna, áhugamál og félagslífið okkar. Hann var duglegur að minna okkur krakkana á það hvað við erum heppin með fjölskylduna okkar og hvatti okkur til að lifa lífinu og gera það sem okkur langar eins og mamma og pabbi gerðu. Elsku afi, takk fyrir samveruna. Við munum sakna þín.

Afabörn í Árbæ,

Guðmundur Ísak, Ingibjörg Bára, Matthildur Sif og Sigurður Emil.