Skoðun Á verkstæðinu hjá Tékklandi var mikið að gera í gær.
Skoðun Á verkstæðinu hjá Tékklandi var mikið að gera í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Síðasti skoðunardagur á svokölluðum sumarökutækjum var í gær, en undir þann flokk falla öll bifhjól, fornbílar, húsbílar, hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi. Það var því afar erilsamt í gær á bifreiðaverkstæðinu Tékklandi, þegar blaðamaður Morgunblaðsins tók þar stöðuna

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Síðasti skoðunardagur á svokölluðum sumarökutækjum var í gær, en undir þann flokk falla öll bifhjól, fornbílar, húsbílar, hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi.

Það var því afar erilsamt í gær á bifreiðaverkstæðinu Tékklandi, þegar blaðamaður Morgunblaðsins tók þar stöðuna.

Ný reglugerð um skoðun slíkra ökutækja tók gildi á síðasta ári, en þá var skoðunarmánuði þeirra flýtt frá október fram í maí, en rökin þar að baki voru þau að ökutækin skyldu vera í standi áður en aðalnotkunartími þeirra hæfist.

Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri Tékklands bifreiðaverkstæðis, segir í samtali við Morgunblaðið að talsverð traffík hafi verið í allt sumar og þá sérstaklega á tjaldvögnum, sem sé jákvætt þar sem ekki hafi allir gert sér grein fyrir því að skoðunartími ökurtækjanna sé nú styttri en áður.

Fá áminningu áður

Samgöngustofa hefur einnig tekið upp á því, nú í fyrsta sinn, að senda eigendum sumarökutækja áminningu í gegnum stafrænu upplýsingamiðstöðina island.is þegar síðasti skoðunardagur nálgast, en 20.000 króna vanrækslugjald bíður þeirra sem láta hjá líða að láta skoða ökutæki sín á réttum tíma.

„Það er afar jákvætt að fólk fái nú áminningu þegar síðasti skoðunardagur nálgast en fólk er nú líklegra til þess að mæta í skoðun á réttum tíma. Það átta sig ekki allir á því að tímabilið til þess að láta skoða sumarökutæki er nú styttra, og hefur áminningin því hjálpað mikið til,“ segir Birgir að lokum.