Sæþór Már Hinriksson
saethor@mbl.is
Úr Stangarhyl berast kunnuglegir tónar sem hafa lifað með landsmönnum margir hverjir í rúma hálfa öld. Stuðmenn, hljómsveit allra landsmanna, er þar við æfingar þegar blaðamann Morgunblaðsins ber að garði. Stuðmenn eru að spila sig saman fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
„Það er ákaflega björt stemning yfir öllu og allir hlakka til,“ segir Jakob Frímann Magnússon. En hvernig velur ein afkastamesta og ástsælasta hljómsveit Íslands lögin sín fyrir svona viðburð? Ragnhildur Gísladóttir útskýrir aðferðafræðina: „Það er bara pottur og dregið.“ Guðmundur Pétursson gítarleikari bætir við að þeir velji lögin sem mestar líkur eru á að einhver myndi kvarta yfir ef þau yrðu ekki spiluð.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á sérstakan sess í sögu Stuðmanna og Stuðmenn ekki síður í sögu Þjóðhátíðar. Í 150 ára sögu hátíðarinnar hefur henni einu sinni verið frestað og koma þar Stuðmenn við sögu. Við gerð myndarinnar Með allt á hreinu árið 1982 var lokaatriðið fyrirhugað í Vestmannaeyjum en auðvitað þurfti líka að taka upp í Atlavík og sköruðust því þessar útihátíðir. Stuðmenn fengu því Þjóðhátíð frestað um viku. „Þetta voru sérstakar aðstæður en sem betur fer var nú þjóðhátíðarnefndin ansi samvinnuþýð þá,“ segir Jakob. „Mikill er máttur Stuðmanna,“ bætir Magni Ásgeirsson söngvari hljómsveitarinnar við.
Breskur kolkrabbi á sviðinu
Framkoma Stuðmanna á Þjóðhátíð er jafnframt þekkt fyrir stórfenglegar uppákomur, eins og þegar þeir komu fram með risastóran uppblásinn kolkrabba sem náði yfir rúmlega allt sviðið árið 1986. Höfðu þeir leigt kolkrabbann í Bretlandi á heimleið sinni frá tónleikaferðalagi í Kína. „Þarna vorum við að undirstrika mikilvægi sjávarútvegsins í Vestmannaeyjum og auðvitað líka lúta í gras fyrir kolkrabbanum sem þá réð öllu á Íslandi, fjölskyldurnar 14,“ segir Jakob og bætir við að kolkrabbinn hafi einmitt haft 14 anga og að verðmæti sjávarútvegs hafi hækkað samkvæmt vísitölu í kjölfarið. Að lokinni hátíð var loftið tekið úr kolkrabbanum og honum svo skilað. „Hann var fluttur til Bretlands sem setti á okkur hryðjuverkalögin einmitt,“ segir Jakob og dátt er hlegið í Stangarhyl. Léttleikinn og gamanið sem hefur einkennt Stuðmenn í öll þessi ár er svo sannarlega enn við lýði.
Svansvottuð hljómsveit
Stuðmenn eru ávallt í takt við tímann og hafa nú endurunnið lagið Fegurðardrottning sem er nýkomið út í samvinnu við tónlistarmanninn PATR!K. „Við nýtum allt sem gott er og endurvinnum lög sem kannski nutu ekki sannmælis á sínum tíma,“ segir Jakob og bætir við að Fegurðardrottningin hafi aldrei komið almennilega út. „Nú er búið að gera henni góð skil,“ segir hann. „Það er eiginlega lífsins „remix“, við erum að „remixa“ lífið og söguna,“ útskýrir Ragnhildur.