Tómas Brynjólfsson hefur verið skipaður í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Tómas er með meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics og lauk meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Þá lauk hann BA-gráðu í alþjóðastjórnmálafræði, sögu og hagfræði við University of Georgia árið 2002.
Tómas kemur til Seðlabankans frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem hann gegndi embætti skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála frá árinu 2018. Þá var hann settur ráðuneytisstjóri frá janúar til apríl 2024. Á árunum 2015-2018 var hann framkvæmdastjóri á skrifstofu þjónustuviðskipta hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hann skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaða í fjármála- og efnahagsráðuneytinu 2013-2015 en starfaði áður sem sérfræðingur í efnahagsmálum í forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Á árunum 2006-2008 starfaði hann í greiningardeild Landsbankans.