Leiklistar- og listahátíðin Act alone verður haldin 20. árið í röð dagana 7. til 10. ágúst á Suðureyri. „Í tilefni af 20 ára afmæli Act alone hefur hátíðin verið lengd um einn dag og stendur því hið einstaka stuð yfir í fjóra daga. Í tilefni tímamótanna munu fjölmargir vestfirskir listamenn koma fram. Sómi Vestfjarða, Mugison, gefur tóninn með sérstökum afmælistónleikum Actsins sem verða haldnir í Staðarkirkju.
Af öðrum vestfirskum listamönnum má nefna Drífu Kristjónu Garðarsdóttur, Skúla mennska, Salóme Katrínu, Ólínu Þorvarðardóttur og Rúnar Helga Vignisson. Einnig mun vestfirski leikarinn Gunnar Jóhannesson flytja einleik sinn Félagsskapur með sjálfum mér. Meðal annarra einleikja má nefna Ef ég gleymi, er fjallar um alzheimers-sjúkdóminn, og pólska einleikinn Dramaternity eftir og með Magdalenu Bochan-Jachimek auk þess sem belgísk/franska leikkonan Fransoise Simon flytur trúðaeinleik sinn Heading North og heldur sérstakt trúðanámskeið fyrir börn. Það er næsta víst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Þar kemur fram að frá því hátíðin hóf göngu sína hafi verið boðið upp á 337 ókeypis viðburði og í ár bætast 23 ókeypis viðburðir í pottinn. Þess má geta að í ár verður einnig boðið upp á ókeypis akstur með langferðabifreið sem ekur milli Ísafjarðar og einleikjaþorpsins á Suðureyri alla hátíðardagana. Dagskrá Act alone í heild sinni má finna á vef hátíðarinnar á slóðinni actalone.net.