Sverrir Örn Sigurjónsson fæddist á bænum Kolsholtshelli í Flóanum 12. júní 1949. Hann lést á Diakonhjemmet sykehus í Ósló 26. júní 2024.

Foreldrar hans eru hjónin Sigurjón Guðmundsson, f. 12.10. 1924, d. 8.5. 2019, og Svanfríður Vigdís Jónasdóttir, f. 29.11. 1928. Systkini Sverris eru Guðmundur Kristinn, f. 14.9. 1951, Hafsteinn, f. 24.3. 1958, og Marta Kristín, f. 12.8. 1970.


Sverrir gekk í hjónaband með Þórdísi Guðmundsdóttur, f. 2.11. 1945, þann 8. apríl 1978, en þau slitu samvistum árið 1992. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 10.4. 1972, eiginmaður hennar er Þorvaldur Sæmundsen, f. 22.2. 1972, og þeirra börn eru Elma Rún, f. 25.8. 2018, og Einar Árni, f. 12.12. 2021, en Þorvaldur á dóttur, Elsu Karen, f. 22.3. 2000. 2) Kjartan, f. 5.1. 1978, eiginkona hans er Berglind Jónfríður Richardsdóttir, f. 9.10. 1979, og þeirra börn eru Tinna María, f. 2.9. 2005, Halldór Kári, f. 5.12. 2007, og Kristófer Óli, f. 2.4. 2009. 3) Kári, f. 5.2. 1979. 4) Arndís, f. 26.8. 1983, eiginmaður hennar er Arnar Tumi Þorsteinsson, f. 8.7. 1983, en synir þeirra eru Birkir Ari, f. 21.8. 2011, og Árni Guðmundur, f. 4.9. 2013.

Sverrir kynntist Sigríði E. Gunnarsdóttur, f. 10.11. 1945, árið 2017 í Þrándheimi í Noregi, en þau voru góðir vinir allt fram á síðasta dag.

Kveðjuathöfn fer fram í Hlésey í Hvalfirði í dag, 1. ágúst 2024, kl. 13.

Elsku Sverrir, mikið er sárt að missa þig. Þú varst alltaf svo glaður og jákvæður og það var gott að fá þig inn í líf mitt.

Við hittumst í september 2017. Þá komst þú til mín með lestinni frá Osló til þess að fara með mér á tónleika svo ég þyrfti ekki að fara ein. Eftir það kvöld varst þú góður vinur minn.

Við áttum saman tæp sjö ár. Við uppgötvuðum að við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Hæst ber þó sameiginlegan áhuga á tónlist, bæði óperutónlist og annarri tónlist. Það var yndislegt að uppgötva það.

Þú varst fróður og hafðir þekkingu á flestu, hvort sem það voru bókmenntir, lögfræði, stjórnmál, sagnfræði eða viðskiptasaga. Það var ekki til sá hlutur sem þú kunnir ekki skil á. Þitt mottó var að það væru ekki til vandamál, bara lausnir.

Þú varst listrænn og starfaðir með mörgum listamönnum um árabil, meðal annars listamanninum Hauki Halldórssyni. Þú varst hugmyndaríkur og skapandi. Hugmyndir þínar og skapandi hæfileikar komu meðal annars fram í fyrirtækinu Víkingahringnum sem þú stofnaðir. Þú varst þátttakandi í að skapa Heimskautagerðið með Hauki Halldórssyni.

Ég er þér þakkát fyrir allt sem þú endurnýjaðir og gerðir við sem miður hafði farið í húsinu hjá mér. Þú gerðir það óbeðinn og varst mjög umhyggjusamur og hjálplegur. Það sama gildir um íbúðina mína á Akranesi. Þar endurnýjaðir þú allt sem þurfti að endurnýja. Þú varst einstaklega handlaginn.

Það sem stendur upp úr fyrir mér er ferðin okkar til Puerto de Mogan og Palma. Þú hafðir farið og kynnt þér fyrirfram hvar væri skemmtilegast og best fyrir okkur að vera. Það er skemmtilegasta ferð sem ég hef upplifað.

Það kom svo í ljós að þú áttir fleiri skyldmenni fyrir norðan á Ströndum og í Árneshreppi en ég. Það var skemmtilegt, enda leyndi vestfirska skapgerðin sér ekki, hvorki hjá þér né mér.

Ég er þér mjög þakklát fyrir að hjálpa mér og okkur systrunum að finna góðan lögfræðing til að annast Drangavíkurmálið fyrir okkur. Þú varst sjálfur mjög lögfróður maður. Ég hefði óskað þess að þú hefðir lifað það að heyra dóminn sem nýlega féll í því máli með fullnaðarsigri okkar systra. Þú áttir stóran þátt í þessum sigri.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst fjölskyldu þinni, mömmu þinni Svanfríði og börnunum þínum og þeirra fjölskyldum. Þú sagðir mér frá börnunum þínum, hvað þau væru einstaklega hæfileikarík og góðum gáfum gædd. Þú varst mjög stoltur af þeim.

Siglingar voru þér mikið áhugamál og ástríða, þú hefðir helst viljað vera alltaf á siglingu. Þú og Kári sonur þinn voruð nánir og samhentir og einstaklega handlagnir. Þið keyptuð saman stóra seglskútu og gerðuð við hana svo hún varð háklassaseglskúta. Þar komu hæfileikar ykkar að góðum notum. Enginn hefði getað leyst þetta verkefni nema þið feðgarnir. Kári var þér sérlega náinn og hefur misst mikið við að missa þig.

Þú hafðir vonast til að geta haldið upp á 75 ára afmælisdaginn þinn þann 12. júní í ár með veislu með fjölskyldu þinni. Því miður gekk það ekki eftir.

Þú varst einstaklega hæfileikaríkur og ég naut góðs af umhyggju þinni og hæfileikum. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér.

Ég sendi fjölskyldu þinni samúðarkveðjur.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur
(Úr Hávamálum)



Þakka þér innilega fyrir samfylgdina, Sverrir vinur minn.

Ég sakna þín.


Tåre, du tarv ikkje falla

Men mykje for meg:
Eit smil da det gjaldt
Og eit handtrykk var alt.
Tåre
Du tarv ikkje falle
Eg veit du er salt
(Höf. Olav H. Hauge)





Tár, þú þarft ekki að falla

En mikið fyrir mig:
Eitt bros þegar þurfti
Og eitt handtak var allt
Tár
Þú þarft ekki að falla
Ég veit þú ert salt
(Þýð. Sigríður Gunnarsdóttir)

Sigríður Gunnarsdóttir.