Mokka Það getur reynst viss áskorun að teygja sig yfir kaffihúsagesti til þess að rýna í verk Hildigunnar.
Mokka Það getur reynst viss áskorun að teygja sig yfir kaffihúsagesti til þess að rýna í verk Hildigunnar. — Ljósmyndir/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mokka kaffi Innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn ★★★★· Hildigunnur Birgisdóttir. Sýningin stendur til 14. ágúst 2024. Opið alla daga milli kl. 09 og 18.

Myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

Klisjur um kynjahlutverk eru í brennidepli á sýningu Hildigunnar Birgisdóttur sem ber heitið Innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn og stendur nú yfir í kaffihúsinu Mokka við Skólavörðustíg.

Sýningin lætur lítið yfir sér. Um er að ræða 15 vatnslitaverk og úr fjarlægð virkar hvert verk sem einn afar smár kassi á annars auðum, hvítum myndfleti. Stóru, hvítu fletirnir á annars dökkbrúnum veggjum Mokka fanga augað og smæð sjálfra myndanna fær mann til að koma nær. Þá kemur í ljós að kassinn er í raun afar smágerð og fínleg vatnslitamynd af, að því er virðist, tilviljanakenndum hlutum á borð við rauðvínsflösku, bækur, tölvur, belti, bindi, fótboltamynd og pálmatré.

Ósmekklegt afmæliskort Jysk

Kveikjan að sýningunni er afmæliskort sem eitt sinn var til sölu í verslunum Jysk sem áður hét Rúmfatalagerinn. Afmæliskortið er hannað með staðalímynd karlmennskunnar að leiðarljósi og hefur Hildigunnur tekið hvern ramma úr afmæliskortinu og málað eftir í raunstærð. Á afmæliskortinu eru margar litlar myndir sem eiga væntanlega að gefa til kynna hvað það er sem hinn venjulegi karlmaður á að hafa gaman af í lífinu eins og til dæmis kvenmannsbrjóst, viskí, rauðir sportbílar og peningar. Hildigunnur veltir hér fyrir sér hvort afmæliskortið hafi einhvern tímann átt vel við. Í sýningarskránni skrifar Hildigunnur um kortið: „Hefur það einhvern tímann verið gefið nánum vini? Ef það gæti talað myndi það kannski segja: Þú ert í fjölskyldu/fjölskylduvinur þess sem gefur, þau þekkja þig ekki vel en vita að þú ert karlkyns. En líklega hefur þetta kort oftar verið valið af handahófi án mikillar hugsunar og ekki mikið lesið úr því hjá viðtakanda.“

Í sýningarskránni, sem er sett upp eins og afmæliskort, má einnig veita því eftirtekt að búið er að strika yfir gamla nafn verslunarinnar Rúmfatalagerinn með áberandi og næstum táknrænum hætti. Ef til vill er þar verið að hnýta í þá ákvörðun verslunarkeðjunnar að hverfa frá íslenskunni og velja alþjóðlegra nafn sem á sér lítinn sem engan hljómgrunn í íslensku samfélagi. Er nafnabreytingin til marks um það hvernig við fjarlægjumst sífellt meir uppruna okkar og rætur í hinu hnattræna hagkerfi? Allt eru þetta viðfangsefni sem eiga erindi til okkar í dag.

Samhljómur með tvíæringnum

Hildigunnur hefur verið mikið í sviðsljósinu að undanförnu en hún er með framlag Íslands í ár til Feneyjatvíæringsins sem nú stendur yfir. Sýning Hildigunnar í Feneyjum, Þetta er mjög stór tala, er töluvert frábrugðin þeirri sýningu sem er í Mokka. Á Feneyjatvíæringnum eru skúlptúrar og hversdagslegir munir í aðalhlutverki, stækkuð litrík plastleikföng og hlutir úr prentara sem flæða um hvítt rýmið. Hér fáum við hins vegar að sjá „hefðbundnari“ málverk sem eru í raun mjög frábrugðin því sem við eigum að venjast frá Hildigunni.

Þrátt fyrir að vera á yfirborðinu mjög ólíkar sýningar þá er samt margt sem þær eiga sameiginlegt eins og til dæmis það að báðar eru þær að fást við álitamál sem fylgja neyslumenningu samtímans sem segja má að sé ákveðinn kjarni í list Hildigunnar. Þá er Hildigunnur einnig að leika með hlutföll rétt eins og á sýningunni í Feneyjum. Myndirnar, litlu kassarnir, eru í raunstærð eins og þeir koma fyrir á afmæliskorti Jysk. Þá samsvarar staðsetning myndarinnar á myndfletinum staðsetningu hennar á sjálfu afmæliskortinu. Á sýningunni í Feneyjum voru til dæmis leikföng stækkuð upp í vissum hlutföllum og sjö prósent af auglýsingaskjá blásin upp svo að úr varð eins konar abstraktverk. Þá er einnig samhljómur með titlum verkanna á báðum sýningunum. Titlarnir eru í raun bara innihaldslýsing beint úr verksmiðju. Leikfangapitsan í Feneyjum hét til að mynda „6:1 (orange)“ og vísaði í hlutföll og lit. Hér heita allar myndirnar „Afmæliskort (hluti/raunstærð)“.

Óþægileg nánd á kaffihúsi

Viðfangsefni sýningarinnar er mjög afmarkað og hentar vel fyrir lítinn sýningarstað á borð við Mokka. Eins ánægjulegt og það er að fá eins þekktan listamann og Hildigunni til þess að halda sýningu á kaffihúsi þá er sýningarrýmið þó líka afar krefjandi fyrir þessar örsmáu myndir. Við fullkomnar aðstæður þyrfti maður helst að hafa stækkunargler til þess að geta virt fyrir sér smáatriðin. En í þessu kaffihúsasamhengi þyrfti maður helst kíki. Þegar gestir eru margir er erfitt að komast nær verkunum án þess að ónáða fólk sem saklaust situr að snæðingi. En einmitt þar liggur kannski fegurðin. Fegurð þessarar óþægilegu nándar sem skapast við hinn ókunnuga kaffihúsagest.

Sjáum aðra hlið

Hildigunnur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur því verið starfandi listamaður í rúma tvo áratugi. Hún er þekkt fyrir að kafa djúpt þegar kemur að verkum sínum og setur í raun ekkert fram nema að baki liggi mikil hugmyndavinna. Hún horfir með gagnrýnum augum á allt sem verður á vegi okkar og hvetur okkur til þess að velta fyrir okkur jafnhverslagslegum hlutum og afmæliskorti. Óhætt er að segja að Hildigunnur sé með áhugaverðari listamönnum á Íslandi í dag og því er ánægjulegt að sjá hér aðra hlið á henni.