Koma Kristjáns 9. til Reykjavíkur.
Koma Kristjáns 9. til Reykjavíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægt er að minnast fyrstu stjórnarskrárinnar sem tók gildi á 1000 ára afmælisárinu þegar þjóðin hélt sína fyrstu þjóðhátíð 1874, nú þegar 150 ár eru liðin frá henni.

Eiríkur G. Guðmundsson

Í ár gefst Íslendingum færi á að minnast ýmissa tímamóta í lífi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á 80 ára afmæli lýðveldisins, en stofnun þess markaði lok sjálfstæðisbaráttunnar. En það er ekki síður mikilvægt að minnast fyrstu stjórnarskrárinnar sem tók gildi á 1000 ára afmælisárinu þegar þjóðin hélt sína fyrstu þjóðhátíð 1874 sem verður hér gerð að umtalsefni nú þegar 150 ár eru liðin frá henni og koma ýmsir atburðir við sögu.

1000 ára föst búseta

Þjóðhátíðin 1874 var haldin til þess að minnast 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Söguritið Landnámabók telur að árið 874 eftir Kristsburð hafi Ingólfur Arnarson farið frá Noregi til þess að setjast að á Íslandi. Hann var „frægastur allra landnámsmanna“ vegna þess að hann „byggði fyrstur landið“, þ.e. settist hér að. Það er hefð að miða upphaf íslensku þjóðarinnar við þennan viðburð og þetta ártal. Þúsaldarafmælið varð hreyfiafl til góðs. Þá fékk landið sína fyrstu stjórnarskrá og þá sótti Danakonungur þegna sína á Íslandi fyrst heim. Báðir atburðir mörkuðu tímamót. 1000 ára afmælið var óvenjulegur viðburður og vakti mikla athygli beggja vegna Atlantsála (BT, 133-138).

Undirbúningur þjóðhátíðar

Á alþingi 1867 var skipuð nefnd sem lagði til að þúsund ára afmælið árið 1874 yrði haldið hátíðlegt um land allt. Lítið gerðist næstu ár. Kirkjan tók næsta skrefið. Að undirlagi Péturs Péturssonar biskups gaf konungur út auglýsingu 10. september 1873 um að haldnar yrðu hátíðarguðsþjónustur á Íslandi í tilefni afmælisins, í lok júlí eða í byrjun ágústmánaðar 1874, eftir nánari ákvörðun biskups. Biskup ákvað að miða skyldi við sunnudaginn 2. ágúst 1874 (BT 21). Mikil hátíð var í Reykjavík þann dag að viðstöddum Kristjáni 9. Í flestum sveitum voru einnig almennar skemmtanir haldnar í tengslum við messuhaldið. Nefnd á vegum Þjóðvinafélagsins tók að sér að skipuleggja þjóðhátíðarhald fyrir alla landsmenn og skyldi hún haldin á Þingvöllum 5.-7. ágúst 1874, hápunkturinn 7. ágúst þegar ávarp yrði flutt konungi og honum haldin veisla.

Samskipti við umheiminn

Á þessum árum voru reglulegar almennar siglingar milli Íslands og Danmerkur á vegum danska ríkisins. Gufuskipið Díana fór sjö ferðir fram og til baka á ári með póst, vörur og fólk með viðkomu í Færeyjum og Skotlandi. Fyrsta sigling frá Kaupmannahöfn ár hvert var 1. mars og sú síðasta 7. nóvember. Um það bil þremur vikum síðar var siglt til baka frá Íslandi. Ekki var siglt yfir vetrarmánuðina. Þá var allra veðra von. Sá sem ætlaði að sækja þjóðhátíðina á Íslandi frá Danmörku eða senda þaðan gjöf eða heillaóskir þurfti í síðasta lagi að nota ferð Díönu frá Kaupmannahöfn 7. júlí 1874. Farþegar með því skipi tóku land í Reykjavík 17. júlí.

Engir vegir – engin hótel

Íslendingar voru um 70.000 og Reykjavík var lítill bær með rúmlega 2.000 íbúa. Utan Reykjavíkur og annarra kaupstaða voru engir eiginlegir vegir sem hægt var að aka hestvagni eftir. Ferðalög innanlands fóru fyrst og fremst eftir gömlum reiðleiðum. Auk þess að fara á Þingvelli til hátíðarhaldanna vildi konungur sjá Geysi. Til þess að gera það ferðalag mögulegt þurfti marga hesta handa honum og fylgdarliði hans. Auglýst var eftir hestum til láns hjá bændum í næstu sveitum við Reykjavík og þannig fengust lánaðir 162 hestar (BT 41). Engin hótel voru í Reykjavík og því erfitt að taka á móti stórum hópum gesta. Gistingu var fyrst og fremst að fá á heimilum fólks.

Konungur gisti í Stjórnarráðshúsinu

Aðalheimili Kristjáns 9. var í Amalíuborg í Kaupmannahöfn. Viðlíka vistarverur voru ekki til á Íslandi. Með konungi var sonurinn, prins Valdimar. Þeir feðgar fengu inni í Landshöfðingjahúsinu, núverandi Stjórnarráðshúsi, meðan þeir dvöldust í Reykjavík. Þar bjó Hilmar Finsen landshöfðingi sem flutti með fjölskylduna upp á loft og eftirlét konungi og prinsinum heimili sitt til afnota. Salurinn í Latínuskólanum, nú Menntaskólanum í Reykjavík, stóð konungi einnig til afnota. Og þar tók hann daglega á móti embættismönnum og öðrum gestum meðan hann var í Reykjavík (BT 61). Á Þingvöllum gistu hinir konunglegu feðgar í kirkjunni, þeirri sömu og nú stendur.

Íslendingar fengu stjórnarskrá

Frá því að Danir fengu almenn lýðréttindi, löggjafarvald og fjárveitingavald með stjórnarskrá 5. júní 1849 höfðu Íslendingar óskað sömu réttinda. En það var ekki auðsótt. Hér er ekki pláss til að rekja þessa sögu en þráðurinn tekinn upp 1873, á síðasta þingi fyrir þjóðhátíð. Alþingi samþykkti stjórnarskrárfrumvarp með beiðni til konungs um að það yrði staðfest. Til vara lagði þingið til að konungur gæfi Íslendingum stjórnarskrá árið eftir, á þúsund ára afmæli þjóðarinnar. Þess var óskað að gengið yrði eins langt til móts við kröfur Íslendinga og hægt væri. Þetta var tilraun til að höggva á hnútinn, viðleitni til að miðla málum.

Stjórnvöld í Kaupmannahöfn tóku varatillögunni feginshendi. Og danska þingið var fljótt að semja og samþykkja stjórnarskrá handa Íslendingum. Kristján konungur 9. staðfesti hana 5. janúar 1874. Stjórnarskráin var auglýst 14. febrúar. Hún var birt í Þjóðólfi 26. mars og stuttu síðar í Víkverja. En hún tók ekki gildi fyrr en 1. ágúst 1874 (ÞM 155-156). Líklega var hugmynd danskra stjórnvalda og íslenskra embættismanna sú að gildistaka stjórnarskrárinnar félli saman við þjóðhátíðarhald Íslendinga 1874 í byrjun ágúst. Í dönskum blöðum var fyrst talað um að ríkisarfinn færi til Íslands í stað konungs (AS), en það breyttist.

Stjórnarskráin 1874 markaði upphaf nýrra tíma

Stjórnarskráin 1874 markaði tímamót í sögu þjóðarinnar. Með henni fengu Íslendingar forræði í sérmálum landsins. Alþingi fékk löggjafarvald og fjárveitingavald, en konungur hafði þó synjunarvald. Þá kvað stjórnarskráin á um grundvallarmannréttindi, friðhelgi heimilis og eignarréttar, atvinnufrelsi, prent- og félagafrelsi og trúfrelsi og hafa þessi réttindi verið í gildi síðan (GK 296-303). Nú gátu Íslendingar sett lög, með samþykki konungs, og hafið sókn til nýrra tíma. Segja má að mikilvægi stjórnarskrárinnar 1874 og þau réttindi sem hún færði þjóðinni hafi ekki notið sannmælis eða ekki verið nægilega mikils metin vegna þess að hún uppfyllti ekki ýtrustu kröfur um stjórnfrelsi á sínum tíma (ÞM 168-169). Menn hafa einblínt á stærri sigra, einkum stofnun lýðveldisins 17. júní 1944 þegar fullu sjálfstæði var náð.

Hvernig var stjórnarskránni tekið?

Stjórnarskráin fékk misjafnar viðtökur. Líklega hafa Kristján 9. og danskir stjórnmálamenn beðið með eftirvæntingu eftir viðbrögðum Íslendinga. Í lok mars var stjórnarskráin birt í Þjóðólfi eins og áður sagði. Hinn 8. apríl, á afmælisdegi konungs, sömdu framámenn í íslensku samfélagi ávarp til konungs, þeirra á meðal Pétur Pétursson biskup, Árni Thorsteinsson land- og bæjarfógeti, Bergur Thorberg amtmaður og Grímur Thomsen skáld (ÞÍ). Þar er konungi þakkað fyrir að verða við varatillögu alþingis. Í ávarpinu er lögð áhersla á hið jákvæða: „Vér viðurkennum með þakklæti, að með stjórnarskránni er Íslendingum veitt svo mikið frelsi og þjóðleg réttindi, að skilyrðum fyrir öflugum og heillaríkum framförum landsins … sé með því fullnægt.“ (BT-29).

Undir ávarpið skrifuðu 14 alþingismenn af 27, nokkrir embættismenn og borgarar í Reykjavík, alls 50 karlar. Annað ávarp kom stuttu síðar frá Suðurnesjamönnum og hafði sama tón. Í Danmörku var uppi sú skoðun að langvinnri stjórnarskrárdeilu milli þjóðanna hefði lokið með útgáfu stjórnarskrár handa Íslendingum. Þeir hefðu tekið henni mjög vel og mætti gera ráð fyrir að landsmenn yrðu ánægðir með heimsókn konungs til landsins (FAT).

Í blaðagreinum á Íslandi var annars talað um að stjórnarskránni væri í mörgu áfátt en hún væri þó gott skref í átt til sjálfstjórnar (BT 28). Jón Sigurðsson forseti, foringi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, bjó eins og kunnugt er í Kaupmannahöfn og kom ekki á þjóðhátíðina. Jón var ekki hrifinn af stjórnarskránni (GK 303).

Á ytri höfninni í Reykjavík

Skip að utan gátu ekki lagst að bryggju, þau lágu við akkeri á ytri höfninni. Danakonungur kom hingað á freigátunni Jylland, einu stærsta og besta skipi danska flotans. Það var gert að konungsskipi af þessu tilefni. Í fylgd Jylland var herskipið Heimdal. Danska eftirlitsskipið Fylla var hér fyrir og nokkur kaupskip lágu einnig á ytri höfninni.

Frá vinaþjóðum komu nokkur skip, sænska herskipið Norrköping, norska skipið Nordstjernen og þýska herskipið Niobe og enska skipið Albion. En auk þess tvö frönsk herskip, Indre og Beaumanoir. Þessi skip komu hingað vegna þjóðhátíðarinnar með fulltrúa sinna þjóða til þess að heiðra Íslendinga og Danakonung. Þau heilsuðu þegar Jylland kom inn á ytri höfnina í Reykjavík um hádegisbil 30. júlí með því að skjóta af fallbyssum sínum. Þetta var í heiðursskyni við Kristján 9. konung (BT 41, 43). Í landi beið Reykjavík prúðbúin og fánum prýdd.

Kristján 9. Danakonungur stígur á land í Reykjavík

Þegar Kristján 9. steig á land í Reykjavík 30. júlí 1874 var það í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar að Danakonungur kom til landsins. Koma Kristjáns 9. var því stór viðburður. Bryggjan sem konungur átti að ganga eftir í land var klædd rauðum dregli. Á henni voru fánastangir og bönd á milli þeirra skreytt með lyngfléttum og hagablómum. Efst á bryggjunni var heiðursbogi fagurlega skreyttur. Fjöldi manns var saman kominn til að taka á móti konungi, almenningur, embættismenn og bæjarfulltrúar með Hilmar Finsen landshöfðingja í broddi fylkingar. Hann flutti konungi stutt ávarp er hann hafði stigið á land. Hann sagði m.a.:

„Á þúsund ára hátíð vora leggur … tvöfaldan ljóma, bæði af hluttekningu Yðar hátignar í henni og af inni frjálslegu stjórnarskrá, er Yðar hátign hefir helgað þetta hátíðarár með, því að þar með er hátíðin orðin eigi aðeins hátíð endurminningarinnar og sögunnar, heldur einnig hátíð gleðinnar og vonarinnar.“ (BT 44).

Lauk Hilmar Finsen orðum sínum með því að hylla konung og tóku allir undir með húrrahrópum. Konungur svaraði stuttlega og sagði sig lengi hafa langað að heimsækja þegna sína á Íslandi. Eftir þetta heilsaði konungur embættismönnum og gekk svo hersingin inn í bæinn og konungur og Valdimar prins til dvalarstaðar síns.

Þjóðhátíðin í Reykjavík

Koma konungs og gildistaka stjórnarskrárinnar 1. ágúst 1874 voru aðalatriði hátíðarinnar í Reykjavík 2. ágúst. Þrjár guðsþjónustur voru í Dómkirkjunni, hver á eftir annarri. Húsfyllir var í öll skiptin. Hámessan var kl. 10.30. Í kórnum sátu konungur, Valdimar prins og yfirforingjar herskipanna. Kirkjan var fagurlega skreytt. Danskir dátar stóðu heiðursvörð. Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar hljómaði þarna í fyrsta sinn. Eru þá auðskilin orðin „Íslands þúsund ár“. Biskup predikaði.

Síðar um daginn var gengið í skrúðgöngu frá Austurvelli upp í Öskjuhlíð á sérstakt hátíðarsvæði. Um 1.400 til 1.500 manns munu hafa sótt samkomuna. Þar ávarpaði konungur þegna sína. Hann lét í ljós ánægju sína með að taka þátt í hátíðinni og sagði m.a.: „Ég óska og vona, að hin nýja stjórnarskrá megi hér verða landi og lýð til lukku og blessunar. Lifi in íslenska þjóð! Lifi Ísland!“ (BT-60).

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Eins og í Reykjavík þurfti mikils undirbúnings við á Þingvöllum. Nefnd Þjóðvinafélagsins með Sigfús Eymundsson ljósmyndara sem framkvæmdastjóra undirbjó hátíðarhöldin þar. Hreinsa þurfti vellina, brúa Öxará, leggja stíga og vegi, reisa tjöld, fánastangir og ræðustól (BT, 34-35,70).

Síðdegis 6. ágúst var hátíðin sett formlega. Aðalræðuna flutti Jón Sigurðsson frá Gautlöndum. Á eftir komu ávörp erlendra gesta (BT 76-81). Þegar þessu fór fram kom konungur til Þingvalla úr Geysisför sinni. En þar hafði bara Strokkur leikið listir sínar.

Aðalhátíðin var 7. ágúst með þátttöku konungs og honum til heiðurs. Dagskráin stóð frá kl. 10 og til hádegis um það bil. Aðalatriði hennar var ávarp íslensku þjóðarinnar til konungs sem níu manna nefnd hafði samið deginum áður (BT 72). Grímur Thomsen flutti árvarpið. Áður hafði konungur fengið það í danskri þýðingu. Grímur bauð konung velkominn á afmælishátíðina. Ekki er rúm til þess að rekja orð hans en þó skal vitnað til orðanna um stjórnarskrána:

„In nýja stjórnarskrá vor hefir í sér geymdan góðan vísi til eflingar framfara fyrir land og lýð, og þó að vér óskum bóta og breytingar á nokkrum greinum hennar, þá er sú konunglega mildi Yðar Hátignar, sem lýsir sér í komu Yðar til landsins, oss ljósastur vottur þess, að Yðar Hátign mun eftirleiðis bera oss fyrir brjósti Yðar.“ (BT 66).

Ávarpinu lauk með viðeigandi blessunarorðum til konungs. Svaraði hann ávarpinu ljúflega og var vel fagnað með gleðihrópum. Eftir þetta fluttu nokkrir erlendir gestir kveðjur til Íslendinga.

Í veislunni sem haldin var í stóru tjaldi á bökkum Öxarár munu um 160 manns hafa setið. Áfram voru ræður, flutt minni og tónlist. Þakkaði konungur fögrum orðum. Um eittleytið yfirgaf konungur Þingvelli og var kvaddur með miklum fagnaðarópum. Talið er að á Þingvöllum hafi verið milli 500 og 1.000 manns. Hátíðin fór fram undir opnum himni eins og síðar hefur verið raunin, en veislan var í stóru tjaldi og fólk gisti í tjöldum.

Orðspor konungs

Kristján 9. þótti koma vel fyrir og var honum ákaflega vel tekið í þessari fyrstu og einu heimsókn til Íslands. Hann var hér í 12 daga. Reykvíkingar kvöddu konung sinn með dansleik í Latínuskólanum 9. ágúst. Daginn eftir fór hann um borð í Jylland, hélt þar síðustu veisluna í ferð sinni. Um nóttina var lagt af stað til Danmerkur.

Íslendingar reistu styttu af Kristjáni 9. fyrir framan stjórnarráðið í Lækjargötu árið 1915. Hún sýnir konung rétta fram stjórnarskrána. „Með frelsis-skrá í föðurhendi“ segir Matthías Jochumsson í kvæðinu Minni konungs sem flutt var á Þingvöllum 7. ágúst. Konungur afhenti ekki stjórnarskrána í bókstaflegum skilningi. Myndastyttan er táknræn framsetning viðburðarins. Myndhöggvarinn var Einar Jónsson sem fæddist þjóðhátíðarárið.

Í sviðsljósi – gestir og gjafir

Íslenska þjóðin fékk mikla athygli á þjóðhátíðarárinu. Mikið var t.d. um hana skrifað í dönskum blöðum og farið viðurkenningarorðum um landsmenn vegna sögu og bókamenntaafreka (FS). Fjöldi erlendra gesta kom hingað til þess að samfagna með Íslendingum. Margir færðu þjóðinni heillaóskir. Mestur áhugi var hjá frændum okkar Dönum, Norðmönnum og Svíum, en einnig var mikill áhugi vestanhafs.

Líta má á stjórnarskrána sem gjöf. En margar aðrar gjafir bárust, einkum bókagjafir. Þjóðinni bárust þúsundir bóka. Í skýrslu Jóns Árnasonar bókavarðar frá árinu 1874 eru tilgreindir 74 gefendur, stofnanir, félög og einstaklingar. Cornell-háskóli í New York og prófessor Willard Fiske gáfu flestar bækur (JÁ).

Landsbókasafn varðveitir þessar bókagjafir. Þjóðminjasafn geymir bréf með heillaóskum og kvæðum, auk þeirra gjafabréf, sum skrautrituð í fallegum umbúðum. Það er miður að þessar gjafir skuli ekki vera sýndar á þessum tímamótum. Gjöf Kaupmannahafnarborgar, styttan af Albert Thorvaldsen, er eina gjöfin öllum aðgengileg þar sem hún stendur í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Að öðrum gjöfum ólöstuðum er hún merkilegust. Hún er fyrsta útilistaverk á Íslandi. Styttunni var upphaflega komið fyrir á Austurvelli sem þá var skipulagður sem torg. Þá var brotið blað í skipulagssögu Reykjavíkur.

Rétt er að nefna gjöf konungs sem á brottfarardegi stofnaði Styrktarsjóð Christians konungs níunda í minningu 1000 ára hátíðar Íslands. Hann skyldi styrkja árlega þá tvo Íslendinga sem sýndu mesta framtakssemi í að bæta atvinnuvegi landsins.

„Nú byrjar nýtt tímabil í sögu þessa lands“

Þessi orð eru tekin úr predikun Péturs Péturssonar biskups 2. ágúst í Dómkirkjunni (BT-53). Þjóðhátíðin 1874 markaði tímamót í sögu íslensku þjóðarinnar. Sú athygli sem þjóðin fékk í hinum vestræna heimi, margar kveðjur og viðurkenningarorð bárust þaðan frá einstaklingum, félögum, háskólum og borgum vegna hins sögulega hlutverks sem Íslendingar höfðu gegnt sem bókmennta- og söguþjóð, var mikilvæg uppörvun og jók samhug og sjálfstraust þjóðarinnar. Sama gilti um fyrstu heimsókn konungs til Íslands.

Mestu máli skipti þó gildistaka fyrstu stjórnarskrárinnar sem þrátt fyrir vissa galla veitti alþingi löggjafar- og fjárveitingavald og skapaði ný tækifæri til framfara landsins. Hún reyndist vel. Allt þetta lagðist á eitt við að skapa nýjar aðstæður og nýja sjálfsmynd þjóðar á leið til meira sjálfstæðis. Þjóðar sem þurfti nú að axla nýja ábyrgð og sanna sig.

Stjórnarskráin 1874 er skilgetið afkvæmi dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849 sem á 175 ára afmæli í ár. Danir héldu fyrr á þessu ári upp á þetta afmæli lýðréttinda sinna með hátíðardagskrá. Frumrit dönsku stjórnarskrárinnar er nú tímabundið til sýnis í þinghúsinu, Kristjánsborgarhöll. Frumrit stjórnarskrárinnar 1874 er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.

Helstu heimildir:

Aarhus Stiftstidende (AS), 2.03. 1874 og 26.03. 1874.

Brynleifur Tobiasson (BT), Þjóðhátíðin 1874, Reykjavík 1958.

Frederiksborgs Amts Tidende og Adresseavis (FAT), 21.05. 1874.

Fyens Stiftstidende (FS) 7. júlí 1874.

Gunnar Karlsson (GK), „Upphafsskeið þjóðríkismyndunar 1830-1874“, Saga Íslands IX, Reykjavík 2008, 167-373.

Jón Árnason (JÁ), Skýrsla um bækur þær sem gefnar hafa verið Stiptisbókasafninu á Íslandi, í minningu þjóðhátíðar Íslands 1874. Reykjavík 1874.

Þjóðskjalasafn (ÞÍ), Íslenska stjórnardeildin, S. VII, 8. Stjórnarskrármálið, Isl. Journal 14. nr. 201.

Þór Martinsson (ÞM), Einveldi þjóðarinnar. Áhrif Stjórnarskrár um hin sjerstaklegu málefni Íslands árið 1874 á íslenskt stjórnarfar. Lokaverkefni til MA-prófs í sagnfræði við HÍ, maí 2013.

Íslensk blöð og tímarit eru aðgengileg á Tímarit.is. Dönsk dagblöð má nálgast á vef Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn: https://www2.statsbiblioteket.dk/mediestream/

Höfundur er sagnfræðingur og fv. þjóðskjalavörður.

Höf.: Eiríkur G. Guðmundsson