Landskjörstjórn í Venesúela staðfesti í gær að Nicolás Maduro hefði unnið forsetakosningarnar í landinu, sem haldnar voru um síðustu helgi, þrátt fyrir að mjög ríki hafi lýst yfir efasemdum um að hin opinbera niðurstaða eigi sér stoð í raunverulegum atkvæðafjölda.
Argentína, Ekvador, Úrúgvæ og Kosta Ríka lýstu því yfir í gær að þau viðurkenndu Edmundo González forsetaefni stjórnarandstöðunnar sem hinn réttkjörna forseta landsins, en áður höfðu Bandaríkin og Perú hafnað hinni opinberu niðurstöðu stjórnvalda í Venesúela. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði yfirgnæfandi sönnunargögn sýna að González hefði haft betur.
Gert er ráð fyrir fjölmennum mótmælum stjórnarandstæðinga í landinu um helgina, en stuðningsmenn Maduros hafa einnig boðað til gagnmótmæla. Stjórnvöld hafa handtekið um þúsund manns vegna mótmæla í vikunni.