Best í júlí
Ásta Hind Ómarsdóttir
astahind@mbl.is
„Það eru leikir sem sitja eftir í manni eins og jafnteflið á móti Tindastóli og leikirnir við Víking og FH,“ sagði Hulda Ósk Jónsdóttir leikmaður Þórs/KA í Bestu deild kvenna í fótbolta sem var besti leikmaður deildarinnar í júní samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.
„Þetta eru leikir sem við eigum að vinna og við værum miklu nær Breiðabliki og Val ef við hefðum tekið þá leiki svo þetta er pirrandi en annars erum við á ágætisstað miðað við allt,“ sagði Hulda en Þór/KA er í þriðja sæti, ellefu stigum á eftir Breiðabliki sem er í öðru sæti en fimm stigum á undan Víkingum sem eru í fjórða sæti.
Eins og svart og hvítt
Hulda átti góðan mánuð og fékk samtals fimm M í einkunnagjöf Morgunblaðsins, eins og fjallað er um hér fyrir neðan, en Þór/KA liðið var ekkert sérstakt í júní. Liðið vann tvo leiki, tapaði tveimur og gerði eitt jafntefli. Bæði töpin komu á heimavelli og sigrarnir komu á útivelli.
„Mér fannst þetta upp og niður hjá okkur. Þeir voru eins og svart og hvítt þessir leikir sem við spiluðum, útileikir og heimaleikir, sem er pínulítið skrítið. Hvort það hafi verið heimavöllurinn eða eitthvað sem var að hjá liðinu, ég veit það ekki,“ sagði Hulda sem er 27 ára Þingeyingur sem hefur leikið með Þór/KA samfleytt frá árinu 2016 og varð Íslandsmeistari með því árið 2017. Þetta er því hennar níunda tímabil á Akureyri.
Ekki góðar í Keflavík
Hulda varð fimmta konan til þess að spila 150 leiki fyrir Þór/KA í efstu deild þegar liðið vann Keflavík og skoraði hún sigurmarkið með glæsilegu skoti en hún var ekki nógu sátt með spilamennskuna í leiknum.
„Það hefur aldrei verið jafn gott veður í Keflavík þannig að það var skemmtilegur leikur en við náðum einhvern veginn ekki alveg nógu góðu spili. Við leyfðum Keflvíkingum að koma allt of mikið inn í leikinn og þær fengu algjör dauðafæri en sem betur fer stóð Harpa [Jóhannsdóttir] sig frábærlega á milli stanganna og það bjargaði okkur alveg. Þetta hefði mátt spilast betur en það var mjög gott að taka öll þrjú stigin þó að leikurinn hefði mátt vera aðeins skemmtilegri.“
Reynum að saxa á forystuna
Þór/KA er í þriðja sæti í deildinni, ellefu stigum á eftir Breiðabliki og fjórtán stigum á eftir Val, og ekki útlit fyrir að Akureyrarliðið geti blandað sér í toppbaráttuna þótt enn séu átta umferðir eftir af Íslandsmótinu.
„Það er mjög erfitt að segja en því miður held ég að Valur og Breiðablik séu með það góð lið að við séum ekki að fara að ná þeim ef maður á að vera raunsær, en ég held við getum saxað á forystuna.“
Samningurinn hjá Huldu er mögulega að renna út eftir sumarið, hún var ekki viss, en eins og staðan er núna ætlar hún að halda áfram með liðinu á næsta keppnistímabili.
„Hann rennur út núna eða næsta sumar, ég man það ekki alveg en já, eins og staðan er núna þá ætla ég að halda áfram.“
Viljum góðan lokasprett
Næsti leikur verður hörkuleikur gegn Breiðabliki á útivelli á laugardaginn en svo mætir liðið Stjörnunni og Fylki í tveimur síðustu umferðunum í hefðbundnu deildakeppninni.
„Þetta er alveg erfitt prógramm en við erum hundrað prósent klárar á því að við ætlum að taka öll stig sem við getum, þetta verður mjög skemmtilegt og við ætlum að eiga góðan lokasprett,“ sagði Hulda Ósk Jónsdóttir.