90 ára Jenný fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1934 og hún fagnar 90 ára afmælisdeginum á morgun. Jenný ólst upp á Skólavörðustíg, Ljósvallagötu og loks í Miðtúni.
Foreldrar hennar voru Bjarni Jóhannesson, sem rak bifreiðastöðina Bifröst, og Hólmfríður (Fríða) Lovísa Ólafsdóttir húsfrú, sem bæði létust 1967. Systir Jennýjar er Katrín Bára Bjarnadóttir, fædd 1943, en fyrsta barn Bjarna og Fríðu, drengur, lést í fæðingu.
Jenný bjó stærstan hluta uppvaxtarins í Miðtúni með foreldrum sínum og Katrínu systur sinni. Á afmælisdaginn sinn þann 4. ágúst árið 1956, giftist hún Ingvari Magnússyni og hófu þau búskap í kjallaranum í Miðtúni þar sem þau bjuggu sín fyrstu hjúskaparár.
Árið 1966 fluttu Jenný og Ingvar í tvíbýlishús við Nýbýlaveg í Kópavogi sem þau byggðu ásamt fjölskyldu Magnúsar, bróður Ingvars. Þar hefur Jenný alið allan sinn aldur síðan og haldið einstaklega gestrisið og skemmtilegt heimili þaðan sem margir eiga ómetanlegar og góðar minningar.
Fjölskylda Ingvar eiginmaður hennar, sem starfaði sem ráðgjafi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli í hartnær hálfa öld, lést árið 2012.
Börn Jennýjar og Ingvars eru; Bjarni, Fríða Björk og Ingvar Örn. Jenný á auk þeirra sex barnabörn: Baldur, Brynhildi Jenný, Elínu, Úlf, Björk og Ingvar Andra og fjögur barnabarnabörn: Þyrí, Ara, Noe (sem lést í fæðingu) og Sigurlilju. Fjölskyldan óskar Jennýju til hamingju með brúðkaupsdaginn og 90 ára afmælið.