„Í dag er starfsemin hjá mér þannig að ég er heima með verkstæði og sinni mínum viðgerðum á þeim safngripum mínum sem eru óuppgerðir.“
„Í dag er starfsemin hjá mér þannig að ég er heima með verkstæði og sinni mínum viðgerðum á þeim safngripum mínum sem eru óuppgerðir.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gömlu mekanísku úrin eru það sem gildir aftur í dag, þau sem ganga án kvikasilfurs og annarra mengunarefna auk þess sem fegurð gangverksins er töluvert mikið meiri og gæðaflokkurinn hærri.

Faðir minn, Hermann Jónsson, var þekktur úrsmiður í Reykjavík með verslun fyrst í Lækjargötu 2 og síðar í Veltusundinu,“ segir Guðmundur Hermannsson úrsmiður í samtali við Morgunblaðið en sjálfur fetaði hann í fótspor föður síns eftir að hafa verið „innan um klukkur, tannhjól og smáhluti“ í verslun föður síns.

Guðmundur hreifst af iðngreininni og hefur nú sjálfur fengist við hana í hartnær hálfa öld – mætti líkast til hvort tveggja segja að hann hafi staðist tímans tönn en hins vegar ekki staðist hana þar sem hann féll fyrir úrsmíðinni, þessari fíngerðu tifandi grein, og hélt til náms við danska úrsmíðaskólann í Ringsted eftir að hafa hlotið styrk til námsins frá danska ríkinu.

„Ég útskrifaðist svo þaðan 7. nóvember 1978 og á prófskírteini mínu fékk ég viðurkenningu með glæsibrag eða udmærkelse eins og það heitir,“ segir Guðmundur frá, en hann tók í framhaldinu við verslun föður síns í Lækjargötunni þegar Hermann flutti sig með sinn rekstur í Veltusundið þar sem Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs hafði á sínum tíma stofnað fyrsta kaupfélag landsins sem fyrir orðaleik stofnandans hlaut síðar nafnið Veltufélagið og að lokum Velta og hlaut Veltusund að lokum nafn sitt af því.

Klukkusafn Danakonunga

„Ég rak verslunina í Lækjargötunni til 1984,“ segir Guðmundur af fyrstu árunum í fagi tímans en hann hvíldi sig svo í nokkur ár á úrsmíðinni. „Ég opnaði svo verslun aftur nokkrum árum seinna og rak hana í fjölda ára þar til ég ákvað að hætta verslunarrekstri og einbeita mér að viðgerðum og smíðum,“ heldur hann áfram.

Aðspurður kveður Guðmundur ótrúlegar breytingar hafa orðið á úrsmíði þann tíma sem hann hefur verið viðloðandi fagið en viðmælandinn er stórfróður um klukkur, úr og úrsmíði og kann góð skil á fornum klukkum dönskum, svo sem Habrechtsklukkunni í Rósenborgarhöllinni í Kaupmannahöfn þar sem klukkusafn Danakonunga er til húsa. Þjóðhöfðingjar þurfa gjörla að vita hvað tímanum líður nefnilega.

„Á mínum námsárum voru „mekanik“-verk búin að vera ráðandi í hundruð ára og breytingin yfir í „electrinic“-verk, sem sagt rafeindaverk, kristalstýrð quartz-verk og tóngaffalstýrð rafeindaverk tóku völdin sem var greinilega framtíðin inn í nútímann á þeim tíma, rétt eins og rafmagnsbílar í dag sem eiga að taka við nýjum tíma,“ útskýrir Guðmundur af þeirri þróun sem orðið hefur í greininni í tímans rás.

Meistarasmíði úrsmiða um aldir

„Hins vegar hafa þær breytingar orðið á öllu nú til dags að núna vill enginn framleiðandi með hágæðaúr framleiða rafmagnsúr með rafhlöðu þar sem gæði þeirra eru ekki sem skyldi, en gömlu mekanísku úrin eru það sem gildir aftur í dag, þau sem ganga án kvikasilfurs og annarra mengunarefna auk þess sem fegurð gangverksins er töluvert mikið meiri og gæðaflokkurinn hærri. Þessi úr eru þar af leiðandi meistarasmíði úrsmiða um margra alda skeið,“ útskýrir úrsmiðurinn gamalreyndi strauma, stefnur og breytingar í greininni.

Guðmundur er beðinn að fara örlítið nánar ofan í saumana á þessari þróun – þó ekki væri nema vegna þess að blaðamaður hlaut Seiko Quartz-armbandsúr að gjöf frá móður sinni átta ára gamall árið 1982 og týndi því úti á galeiðunni – á Hressó nánar til tekið árið 1993 – hjartasár sem hefur í raun aldrei gróið að fullu.

„Fyrir 1950 var úraframleiðsla með mekanísku gangverki sem sagt ráðandi,“ svarar Guðmundur af öryggi þess sem þekkinguna hefur. Fær samt ekkert að vita af sorgarsögunni um Seiko-úrið. „Þessi úr voru með tannhjólum og fjaðurkrafti til að halda spennu á hjólaverkinu svo þau héldu tíma. Þetta var tækni sem búið var að nota í yfir 300 ár og reyndist afar vel,“ heldur hann áfram og greinilegt að varla er hægt að tala um tímalausa hönnun í þeim bransa sem Guðmundur valdi sér ungur.

„Eftir 1960 var farið að þróa rafeindaverk af ýmsum toga sem sum hver reyndust nákvæmari og sér í lagi quartz-verk sem urðu næstum allsráðandi í framhaldi af þróun á armbandsúrum í heiminum eftir 1980,“ heldur hann áfram.

Sem betur fór hafi framleiðendur hins vegar haldið í þá þrjósku að halda áfram framleiðslu mekanísku úranna sem enn sé við lýði þann dag í dag og vísar Guðmundur þar til merkja á borð við Rolex, A. Lang & Söhne, Patek Philippe, Breitling, Audemars Piguet, Jaeger LeCoultre „svo nokkrir séu nefndir og þeir eru margir fleiri framleiðendurnir. Nú er rafeindaverkið á hröðu undanhaldi sem betur fer, nema í ódýrari og fjöldaframleiðsluúrum,“ segir úrsmiðurinn.

Með bíladellu á lokastigi

Verslunarrekstur er nú löngu liðin tíð hjá Guðmundi Hermannssyni. „Í dag er starfsemin hjá mér þannig að ég er heima með verkstæði og sinni mínum viðgerðum á þeim safngripum mínum sem eru óuppgerðir,“ segir hann frá, en heimili hans í Breiðholtinu er sannarlega eitt stórt safn. Jafnvel spurning hvort það gangi næst klukkusafni Danakonunga sem fyrr var getið.

Spáir Guðmundur því hiklaust að safngripirnir óuppgerðu muni að líkindum endast honum alla ævi. Tíminn er eins og vatnið, orti Steinn Steinarr. „Ég hef tekið að mér viðgerðir á gömlum klukkum fyrir Bessastaði og gert við Íslandsklukkuna í Laxnesi, gömlu klukkuna í Menntaskólanum í Reykjavík og ýmislegt fleira af gömlum gripum sem fyrirfinnast á landi hér,“ segir hann.

En úrsmiðurinn í Breiðholtinu er fróður um fleira en mekanísk úrverk og rafeindastýrð. Raunar er hann haldinn bíladellu á lokastigi og fá nágrannar hans í Seljahverfinu reglulega að hlýða á allt annars konar hljóð en frá klukkum sem tifa og slá. Guðmundur lumar meðal annars á 1967-árgerð af Chevrolet Camaro en áður en við færum okkur í þá háværu sálma er ekki stætt á öðru en að spyrja hann út í þann mann sem var fyrsti íslenski úrsmiðurinn.

Þetta var maður sem hét því sjálfstæðishetjulega en um leið alvanalega íslenska nafni Jón Sigurðsson. Var hann uppi á 18. öld og lærði í Kaupmannahöfn þar sem hann tók sér eftirnafnið Sívertsen til að falla betur í hið danska kram.

„Jón var fyrsti úrsmiður Íslandssögunnar. Hann fékk meistararéttindin 1762 í Danmörku. Hann flúði þangað. Uppeldismóður hans var drekkt og faðir hans hálshöggvinn, þau fengu Stóradóm,“ segir Guðmundur en þar var um að ræða þau Sigurð Jónsson á Geirseyri við Patreksfjörð og Guðrúnu Valdadóttur bústýru hans. Eignuðust þau barn saman, sem þó var ekki Jón, og voru dæmd samkvæmt siðferðissamþykktinni Stóradómi frá 1564 sem tók á svokölluðum legorðsbrotum, það er barneignum fólks sem ekki má eigast.

Leitaði Sigurður konungsnáðar en fékk ekki og var hálshöggvinn í Haga, líklega árið 1754, og var aftöku hans lýst allnákvæmlega í Barðstrendinga þætti. Var Guðrúnu drekkt nokkru síðar í hyl í Mikladal.

„Svo gerðist eiginlega ekki neitt í þessum málum hjá Íslendingum, úrsmíði, það er ekki fyrr en komið er fram á 19. öld. Enda áttum við ekki neitt, skriðum bara úr torfkofunum og litum til sólar, sem sást reyndar ekki oft,“ segir Guðmundur og hlær við.

Var Jón Sívertsen yrkisefni Arnaldar Indriðasonar í Sigurverkinu frá 2021 en þessi fyrsti íslenski „úrmakari“ varð frægur af því að hafa auðnast að gera við þá hina sömu Habrechtsklukku og getið er hér framar – þá er finna má í klukkusafni Danakonunga. Var klukkan upphaflega í Kristjánsborgarhöll og kennd við svissneska úrsmiðinn Isaac Habrecht.

Dauðans óvissi tími

Er hún hin mesta dvergasmíð, á sex hæðum í gylltum messingkassa. Auk þess að sýna hreinlega hvað klukkan er sýnir Habrechtsklukkan einnig dagsetningu, mánuð og ár. Sýnir ein skífa hennar sjö plánetur en önnur árstíðirnar. Þá gengur sigurverk þetta svo langt að sýna einnig æviskeið mannsins sem styttur af mönnum á mismunandi aldri túlka þegar klukkan slær.

Að lokum birtist sjálfur dauðinn en um leið hverfur stytta af frelsaranum Jesú Kristi annars staðar á klukkunni. Miklar upplýsingar og óvíst að nútímafólki þætti huggulegt að vera minnt svo áþreifanlega á dauðans óvissa tíma. Enn ólíklegra er að slíkar örlagaklukkur bili yfirleitt en svo varð þó undir lok 18. aldar og var það þá Jón Sívertsen „Islænder“ sem annaðist viðgerðina með bravúr.

„Ég hef haft bíladelluna frá fæðingu,“ játar Guðmundur Hermannsson úrsmiður er blaðamaður gengur á hann með bónusumræðuefni viðtalsins – þá staðreynd að íslenskur úrsmiður í Breiðholtinu ekur til skiptis um á Chevrolet-bifreiðum af gerðinni Camaro og Corvette, árgerðum 1967 og '84, og Mercedes Benz CLK 500. Sem eru þó ekki þeir einu.

„Síðasti bíllinn sem ég keypti er fjölskyldubíllinn, Nissan Patrol 2008, ég keypti hann 2008 í hruninu. Hann er kominn í 400.000 kílómetra og hefur aldrei farið á verkstæði þar sem ég hef gert við hann sjálfur,“ segir Guðmundur sem augljóslega er hagur á fleiri gangverk en örsmátt úrverkið. „Ég hef gert upp og gert við alla mína bíla sjálfur fyrir utan bílasprautun sem fór ekki vel í lungun án grímu og sprautuklefa.“

Guðmundur getur þess að hann hafi keypt Camaro-inn sinn, 1969-árgerðina tignarlegu, árið 1979 sem var árið sem hann kynntist konu sinni. Úr því þetta kemur upp á yfirborðið velur blaðamaður það sem lokaspurningu fróðlegs spjalls hvort dellukarlinn í Breiðholtinu fái að verja öllum þessum tíma í tæki sem sýna tíma og önnur sem ná miklum hraða með miklum hávaða. „Ja, konan er hérna enn þá,“ segir Guðmundur Hermannsson, úrsmiður og bíladellukarl í Breiðholti, að lokum og glottir við tímans tönn.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson