Jóhannes Áskelsson jarðfræðingur fæddist 3. ágúst 1902 að Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði, sonur hjónanna Áskels Hannessonar og Laufeyjar Jóhannesdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1925 og hóf nám í náttúrufræðum í Hafnarháskóla í Kaupmannahöfn, með náttúrufræði sem sérgrein. Hann var við nám í sex ár en kom heim til Íslands 1931 og kenndi náttúrufræði í Kennaraskólanum og víðar, en lengst af í MR og var yfirkennari þar frá 1960 til dauðadags.
Með kennslunni stundaði Jóhannes jarðfræðiathuganir, einkum steingervingarannsóknir. Hann fór með Guðmundi frá Miðdal til gosstöðvanna í Grímsvötnum 1934 og voru þeir fyrstir á vettvang og fylgdust með gosinu og hann skrifaði margar greinar í kjölfarið um eldvirkni og hlaupin í Grímsvötnum. Seinni árin stundaði hann rannsóknir á Snæfellsnesi og ritaði um skelja- og steingervingalögin í Brimlárhöfða. Vænghlynur (Acer askelssonii) er kenndur við Jóhannes, en acer er gamalt heiti á hlyntrjám. Jóhannes var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og ritstjóri Náttúrufræðingsins.
Jóhannes varð bráðkvaddur á heimili sínu á Sólvallagötu 16. janúar 1961.