Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
Ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða ferðamönnum dags- og hópaferðir segjast finna fyrir minni vexti í sumar og undanfarin ár. Það er í samræmi við tóninn í öðrum ferðaþjónustuaðilum sem Morgunblaðið hefur rætt við að undanförnu, en í gær fjallaði blaðið meðal annars um minnkandi umsvif hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum.
Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdarstjóri hópbílafyrirtækisins Grey Line, segir í samtali við blaðið að minna hafi verið að gera í sumar.
„Ég get tekið undir það sem ýmsir kollegar mínir í ferðaþjónustunni hafa verið að tala um í sumar, að við höfum ekki farið varhluta af því að það hefur verið minna að gera en vonir stóðu til,“ segir hann. Spurður nánar um það segir Hjörvar að það hafi verið eitthvað um afbókanir í ferðir sem höfðu verið planaðar inn á sumarið.
„Þessar ferðir eru bókaðar af okkar samstarfsaðilum. Þeir hafa reynt að bóka fram í lengstu lög, en hafa ekki náð að fylla allar sínar blokkir og þar af leiðandi eru búnir að vera afbóka að einhverju leyti,“ útskýrir hann.
Sýnileg fækkun
Hjörvar segir að einhver minnkun sé á bókunum í hópaferðir og sömuleiðis sé samdráttur í skipulögðum dagsferðum út frá höfuðborgarsvæðinu.
Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæmar tölur um fækkunina en segir hana þó sýnilega.
„Satt best að segja er ég ekki með uppfærðar tölur sem sýna nákvæmlega hver fækkunin er, en það er sýnilegur munur á sumrinu í ár og í fyrra,“ segir Hjörvar.
Spurður um mögulegar orsakir, telur hann að hækkandi verðlag á landinu eigi stóran þátt í fækkun ferðamanna milli ára.
„Ég óttast það að verðlagið sé farið að stríða okkur. Ég er hins vegar ekki endilega á því að jarðhræringarnar á Reykjanesinu séu að setja strik í reikninginn. Til lengri tíma litið myndi ég halda að það gæti unnið með okkur Íslendingum,“ segir Hjörvar.
Hann bendir á að fólki sé almennt umhugað um hvað það eyði miklum peningum á sínum ferðalögum.
„Auðvitað spáir fólk hvað það er að fara borga á sínum áfangastað hvert sem það fer. Ef fólki er farið að blöskra verðlagið þegar það ferðast um landið, hvort sem það er gisting eða að ferðast á milli staða, þá hljóti verðlagið að eiga þar stóran þátt,“ segir hann.
Óttast ekki hrun
Hjörvar segir aðspurður ástæðulaust að óttast að íslensk ferðaþjónusta sé að fara lenda í hruni í vetur, enda hafi landið enn mikið aðdráttarafl.
„Fólk er að ferðast hingað meðal annars út af náttúrfegurðinni, norðurljósunum og einnig er stutt að fara hingað frá austurströnd Bandaríkjanna eða Bretlandi, sem eru okkar stærstu markaðir,“ segir hann.
Undir væntingum
Björn Ragnarsson forstjóri Islandia, sem rekur meðal annars hópbílafyrirtækið Reykjavík Excursions, segir vöxtinn í sumar hafi verið minni en reiknað var með.
„Þetta sumar hefur þróast þannig að það er ekki ólíkt sumrinu í fyrra hvað varðar tekjurnar, en undir væntingum okkar. Í áætlunum fyrir þetta ár var búist við að yrði meiri vöxtur á milli ára,“ segir Björn.
Dvelja skemur
„Okkur sýnist fjöldinn vera svipaður í ár en við sjáum vísbendingar um að ferðamenn dvelja skemur á landinu heldur en áður. Það þýðir að fólk kemst yfir minni afþreyingu,“ segir Björn, spurður um fjölda ferðamanna í ár.
Spurður hvort hækkandi verðlag sé helstu orsökin, bendir hann á að horfa þarf einnig til fleiri þátta.
„Það eru fleiri atriði en bara hækkandi verðlag sem verður að horfa til. Miðað við aðra áfangastaði þá fórum við hratt upp eftir Covid og árið í fyrra var algjört metár hjá ferðaþjónustunni. En við sjáum að aðrir áfangastaðir, eins og Noregur, hafa á þessu ári sótt í sig veðrið, en þar hafa verið settir meiri fjármunir í markaðsstarf fyrir ferðaþjónustu,“ segir Björn.
Dags- og hópaferðir
Taka undir með öðrum ferðaþjónustuaðilum um að minna haf verið að gera í sumar heldur en í fyrra.
Eitthvað um afbókanir í sumar í dags- og hópferðir.
Sýnilega fækkun á milli ára.
Nefna hækkandi verðlag og aðra áfangastaði sem séu orðnir fýsilegri kostur fyrir ferðamenn að heimsækja.
Finna fyrir að ferðamenn dvelji skemur á landinu en þeir hafa gert undanfarin ár.