Viðtal
Snædís Björnsdóttir
snaedis@mbl.is
Tónlistarhátíðin Seigla, sem haldin er af Íslenska Schumannfélaginu, fer fram í Hörpu um næstu helgi, dagana 9.-11. ágúst. Á hátíðinni er lögð áhersla á klassíska söng- og kammertónlist og er hið hefðbundna tónleikaform auk þess brotið upp á margvíslega vegu. Morgunblaðið ræddi við píanóleikarann Ernu Völu sem er bæði stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Hátíðin var stofnuð árið 2021, í miðjum kórónuveirufaraldrinum, og hefur verið haldin árlega síðan þá. „Það var ekki mikið í gangi á þeim tíma sem við héldum hátíðina fyrst, enda samkomutakmarkanir í gildi. Þetta var því ekki endilega besti tíminn til þess að stofna heila hátíð, en það var samt vel tekið í þetta,“ segir Erna Vala spurð út í tilurð hátíðarinnar. „Með Seiglu er hugmyndin að búa til tækifæri til að koma alls konar klassískum tónlistarverkefnum á svið og undirstrika um leið hve mikilvægt það er að Harpa sé vettvangur fyrir íslenskt tónlistarfólk. Af því að Harpa er alveg ótrúlega flott tónlistarhús og þar er okkar besta aðstaða. Starfandi tónlistarfólk á Íslandi verður að hafa greiðan aðgang að henni.“
Hljóðheimur bílakjallarans
Í ár verða flestir tónleikarnir haldnir í Norðurljósum Hörpu þó að önnur rými tónleikahússins, svo sem Yoko-horn og jafnvel bílakjallarinn, verði reyndar einnig nýtt. „Þetta er í fyrsta skipti sem Seigla verður í Norðurljósum, en undanfarin ár höfum við mest verið í Eldborg. Það er dálítið spennandi að vera í Norðurljósum af því að salurinn er svo fjölbreyttur og við höfum þess vegna rými til að breyta aðeins til á milli tónleika. Á Seiglu er lögð áhersla á að bjóða upp á afslappað og vinalegt andrúmsloft þar sem áhorfendur geta komið saman og upplifað kammertónlist í persónulegu umhverfi. Hugmyndin er líka að áhorfendur fái innsýn í heim tónlistarinnar frá tónlistarfólkinu sjálfu og það verður til dæmis boðið upp á tónleikaspjall í Yoko-horni auk þess sem hægt verður að hitta flytjendurna á hátíðaropnuninni fyrir opnunartónleikana. Við höfum síðan lagt áherslu á það allt frá stofnun Seiglu að nýta rými Hörpu á áhugaverðan hátt. Þjóðlagadúóið Norðfólk verður því til dæmis með tónleika sem hefjast í bílakjallaranum undir húsinu áður en haldið er í óvissuferð um króka þess og kima. Úr bílakjallaranum verður farið upp í Hörpuhorn þar sem eitthvað skemmtilegt mun eiga sér stað – en ég segi samt ekki hvað – og svo inn í Norðurljós þar sem tónleikunum lýkur. Á meðan býðst áhorfendum að taka þátt í tónlistarflutningnum.“
Spurð hvernig sé að spila eða hlusta á tónlist niðri í bílakjallaranum svarar Erna Vala: „Ég hef ekki flutt tónlist sjálf þarna niðri en það hefur samt verið gert áður, þó að það sé kannski smá síðan. Það sem flytjendurnir, dúóið Norðfólk, eru meðal annars að leitast eftir er að nýta sterkan enduróminn sem er þarna niðri. Verkið sem þau flytja hentar vel inn í þennan hljóðheim bílakjallarans.“
Erna Vala segir nauðsynlegt að starf Hörpu endurspegli íslenskt tónlistarlíf. „Það er mikilvægt að viðburðamengið í Hörpu styðji við tónlistarfólk sem starfar á Íslandi. Að sama skapi skiptir máli að fólki líði eins og það sé partur af tónlistarsamfélaginu. Við erum hérna saman, jafnt flytjendur og áhorfendur, og þetta er tónlistarhúsið okkar. Eitt af því sem er einmitt svo skemmtilegt við Seiglu er að yfir þessa þrjá daga, frá föstudegi til sunnudags, skapast svo gott samfélag í húsinu. Það er mikið um að vera og dagskráin er þétt og þess vegna hittir maður oft sama fólkið oftar en einu sinni. Þetta gerir hátíðina að samfélagslegri upplifun. Það er ástæða fyrir því að við erum öll þarna saman og hún er sú að við elskum lifandi tónlist og þykir vænt um tónlistarfólkið okkar. Það er líka þetta sem gerir lifandi tónlistarflutning svona einstakan.“
Umbreyta rými Norðurljósa
Á opnunartónleikum Seiglu föstudaginn 9. ágúst mun Júlíanna Ósk Hafberg myndlistarkona umbreyta rými Norðurljósa í sýningarsal. „Meðan á tónlistarflutningnum stendur ætlar hún að mála og verkunum verður varpað upp samtímis á stórt tjald fyrir aftan flytjendurna,“ segir Erna Vala og útskýrir að þannig verði til í rauntíma myndræn túlkun á frásögn tónlistarinnar. „Myndlistarverkin sem Júlíanna skapar á tónleikunum verða síðan til sýnis í Hörpuhorni yfir hátíðarhelgina. Þetta verður mjög gaman og það verður áhugavert að sjá hvernig myndlistin og tónlistin mætast og sameinast.“
Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna trompett-tónleika sem fara fram á laugardeginum. „Þeir verða svolítið óvanalegir, vegna þess að trompett, píanó og sópran munu leika saman. Það er ekkert venjulegt tríó. Það er heldur ekki oft sem maður fær að sjá trompett á kammertónleikum yfirhöfuð og það er ansi áhugavert líka hvernig trompetið og röddin koma saman. Þannig að sjálf er ég frekar spennt fyrir þeim tónleikum.“
Á kvöldtónleikunum á laugardaginn er ætlunin svo að skapa eins konar „stofutónleikastemningu“, eins og Erna Vala segir frá. „Þá má til dæmis koma með drykki inn í Norðurljós, sem er ekki algengt á klassískum tónleikum. Síðan mun Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari flytja nokkur verk ásamt píanóleikaranum Antoine Préat sem undirstrika andrúmsloftið sem einkenndi stofutónleika á sínum tíma. Mörg dáðustu verka rómantíska tímabilsins litu einmitt fyrst dagsins ljós í stofum tónlistarfólks á óformlegum „tónlistarkvöldum“.“
Erna Vala segir frá samstarfi Seiglu við Konunglegu tónlistarakademíuna í London sem tengist doktorsverkefni hennar við sama skóla. „Ég er að vinna að rannsókn sem fjallar um samband flytjenda og áhorfenda í lifandi klassískum tónlistarflutningi. Athyglinni er sérstaklega beint að áhrifum þess hvernig tónleikar eru settir upp, hvernig hægt er að virkja áhorfendur, hvernig áhorfendur virkja flytjendur og hvernig þetta gagnkvæma samband hefur áhrif á upplifun beggja aðila.“ Niðurstöður rannsóknarinnar verða síðan nýttar við uppsetningu hátíðarinnar. „Rannsóknin mun standa yfir í allavega þrjú eða fjögur ár í viðbót og Seigla verður stærsti vettvangur hennar.“
Rifrildi vegna konu batt enda á vinskapinn
Lokatónleikar Seiglu á sunnudaginn, sem bera yfirskriftina „Brautryðjandi sögur“, „varpa síðan ljósi á tónskáld og einstaklinga sem ruddu brautina fyrir kynslóðirnar sem á eftir komu“, eins og Erna Vala greinir frá. Á tónleikunum mun hún ásamt Rannveigu Mörtu fiðluleikara flytja tónlist sem samin er af eða tileinkuð lituðu tónlistarfólki. Líkt og Erna Vala bendir á hefur klassísk tónlist eftir litað fólk ekki alltaf hlotið verðskuldaða athygli og er hugmyndin með tónleikunum að gera verkum þeirra hátt undir höfði. Flutt verða verk eftir Jessie Montgomery, Eleanor Alberga, William Grant Still og Ludwig van Beethoven og virðist sá síðastnefndi stinga nokkuð í stúf í fyrstu. Erna Vala útskýrir þó að Kreutzer-fiðlusónata Beethovens, sem flutt verður á tónleikunum, hafi upprunalega verið tileinkuð afró-evrópska fiðluleikaranum George Bridgetower. Þetta viti þó ekki margir. Sónatan á að hafa verið frumflutt af Bridgetower og Beethoven árið 1803 en stuttu síðar hafi þeir lent í rifrildi vegna konu sem batt enda á vinskapinn. Eftir það á Beethoven að hafa fjarlægt tileinkunina og sett fiðluvirtúósann Kreutzer í hans stað. Kreutzer spilaði þó aldrei sónötuna, því honum fannst hún of erfið.
Erfitt styrkjaumhverfi
Spurð hvort hátíðin hafi stækkað á milli ára svarar Erna Vala að svo sé í rauninni ekki. „Veruleikinn er sá að það er verulega erfitt að halda tónlistarhátíð á Íslandi í því styrkjaumhverfi sem er til staðar fyrir menningarviðburði í dag. Maður veit til dæmis aldrei hvort maður fái styrk aftur á næsta ári eða ekki og það þarf að sækja um upp á nýtt á hverju ári. Þannig að við höfum haldið sömu stærð hvað varðar dagskrármagnið, en það smá samt segja að Seigla sé að stækka að því leyti að hún er að verða eldri og smám saman að öðlast ákveðinn sess. Margir eru farnir að þekkja Seiglu og búast við því að hún verði aftur á næsta ári eins og undanfarin ár. Ég get því sagt að hún er allavega ekki að fara neitt.“
Yfirskrift hátíðarinnar, Seigla, skírskotar meðal annars til þess að þegar hátíðin var stofnuð í miðjum kórónuveirufaraldri þýddi lítið annað en að sýna þrautseigju. Líkt og Erna Vala bendir á vísar seiglan þó einnig til tónlistarfólksins sem kemur að hátíðinni. „Við þurfum öll að vera með seiglu, hún er svo mikilvæg. Þegar hátíðin var haldin fyrst vissum við ekki hve lengi þetta covid-ástand myndi endast, en okkur fannst við samt verða að halda áfram vegna þess að við höfum ástríðu fyrir því. Þetta á líka við um styrkjaumhverfið á Íslandi. Það er krefjandi að búa við lítið starfsöryggi í tónlistargeiranum og þess vegna ákvað ég líka að stofna hátíðina, þ.e. til þess að skapa stöðugt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir fólk sem vinnur við klassíska tónlist á Íslandi. Það er seiglan sem heldur hátíðinni gangandi.“ Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á vefnum seiglafestival.com.