Á morgun, á sunnudegi um verslunarmannahelgi, sem að þessu sinni ber upp á 4. ágúst, verður helgi- og ljóðastund Davíðshúsi á Akureyri kl. 11. Listafólkið Birkir Blær, Eyþór Ingi Jónsson og Rakel Hinriksdóttir flytja ljóð Davíðs Stefánssonar (1895-1964) í tali og tónum. Stutta íhugun út frá kvæðum Davíðs leiðir sr. María Ágústsdóttir sem um þessar mundir þjónar sem prestur við Glerárkirkju á Akureyri. Sjálf hefur hún tengsl við Möðruvelli í Högrárdal, þar þjónaði afi hennar sem prestur og var skáldið tíður gestur hans,
Davíðshús á Akureyri er Bjarkarstígur 6 þar í bæ. Þar bjó Davíð lengi og til dánardægurs. Húsið er í eigu Akureyrarbæjar og þar er með sama lagi og á tímum skáldsins. Í mörgum ljóða skáldsins frá Fagraskógi er að finna trúarleg stef, trúarglímu og andlega leit, en líka trúartraustið, segja aðstandendur viðburðar morgundagsins.
Svo vikið sé að listamönnunum sem fram koma í Davíðshúsi er þar fyrstur Birkir Blær sem er 24 ára tónlistarmaður frá Akureyri en hann hefur verið búsettur í Stokkhólmi undanfarin ár. Hann er söngvari, lagasmiður, hljóðfæraleikari og fleira. Hann er reyndur tónlistarmaður og hefur haldið ótal tónleika og komið fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónlistarhátíðum auk þess sem tónlist hans er gjarnan sótt á streymisveitur. Starfar nú sem tónlistarmaður bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Eyþór Ingi Jónsson er, auk þess að vera organisti við Akureyrarkirkju, sjálfsætt starfandi tónlistarmaður og fæst mikið við ljósmyndun. Rakel Hinriksdóttir er fjölmiðlakona, skáld og listakona sem vinnur nú að félagsstörfum fyrir öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri. Þá hefur hún gefið út þrjár ljóðabækur.