Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:
Það kemur stundum ána í,
eftirréttur, líkur graut,
felur í sér banvænt blý,
og býsna margir keppa í því.
Magnús Halldórsson á þessa lausn:
Hlaupin koma árnar í,
ýmsu hleypt í kekki.
Skýst úr hlaupi skaðlegt blý,
skokk sem hlaup ég þekki.
Lausnarorðið er hlaup segir Úlfar Guðmundsson.
Streymir hlaup er bresta bönd.
Bætir hlaupið veisluföng.
Geymir hlaupið voða vönd.
Vinsæl hlaupin stutt og löng.
Þessi er mín lausn segir Harpa í Hjarðarfelli:
Stundum hlaup er ánni í.
Eftirréttinn hlaup má fá.
Er í byssuhlaupi blý.
Börnin kapphlaup þreyta frá.
Erla Sigríður Sigurðardóttir kveðst halda að lausnin sé hlaup:
Hlaupið feykiflaumur er,
fantagóður réttur.
Hinsta skot um hlaupið fer
hlaupagikkur léttur.
Svar við vísnagátu í vísnahorninu 27. ágúst gæti verið svona, segir Bergur Torfason frá Felli:
Hlaup kemur stundum árnar í.
eftirrétt sem hlaup fékk því,
Úr hlaupi löngu fer banvænt blý,
býsn margt keppir hlaupum í.
Guðrún Bjarnadóttir á þessa lausn:
Í Emstrum gætu orðið hlaup,
og ágætt hlaup má fá úr safti.
Við byssuhlaupið bannað staup,
en best er spretthlaupið með krafti.
Hér kemur lausnin, þessa vikuna segir Helgi R. Einarsson:
Hættulegt er hlaup í á.
Hlaup er verra' en kæfa.
Byssuhlaupi miða má.
Margir hlaupin æfa.
Sjálfur skýrir Páll gátuna svona:
Það er hlaup í ánni minni enn,
ávaxtahlaupið borða svangir menn.
Í byssuhlaupi banvænt skot ég fann
og Bjarni gull í spretthlaupinu vann.
Þá er ný gáta eftir Pál:
Geymt í honum gullið var,
góður upp úr súru,
orðið merkir afleitt far,
engan hafa konurnar.