Heildarviðskipti með hlutabréf í júlí námu 44,4 milljörðum króna, og drógust saman um 36% milli mánaða. Milli ára drógust viðskipti saman um 20%. Þetta kemur fram í mánðarlegu yfirliti Kauphallarinnar

Heildarviðskipti með hlutabréf í júlí námu 44,4 milljörðum króna, og drógust saman um 36% milli mánaða. Milli ára drógust viðskipti saman um 20%.

Þetta kemur fram í mánðarlegu yfirliti Kauphallarinnar. Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði um 2,3% í júlí.

Mest viðskipti í mánuðinum voru með bréf Arion banka eða um 6,8 milljarðar króna. Velta með bréf í Alvotech nam 6,4 milljörðum og um 6,3 milljörðum með bréf í Marel. Á Aðalmarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 29,7%, Arion banki með 15,3% og Acro verðbréf þar á eftir með 12,8%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 84,5 milljörðum í júlí. Það er 40,5% lækkun frá fyrri mánuði og 18,3% lækkun frá fyrra ári. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 59,6 milljörðum og viðskipti með bankabréf 19,2 milljörðum.