Boðið verður upp á tvenna tónleika í tónleikaröðinni Orgelsumar í Hallgrímskirkju um helgina.
Í dag, laugardag, kl. 12 flytja Elísabet Þórðardóttir, organisti í Laugarneskirkju, og Þórður Árnason, sem þekktastur er fyrir gítarleik með Þursaflokknum og Stuðmönnum, verk eftir m.a. Bach og Saint-Saens.
Á morgun, sunnudag, kl. 17 leikur Thierry Escaich, organisti í Notre Dame í París, á Klais-orgelið í Hallgrímskirkju. „Escaich er á meðal þekktustu konsertorganista í heiminum í dag,“ segir í viðburðarkynningu. Miðar á hvora tveggja tónleika eru seldir í anddyri Hallgrímskirkju og á vefnum tix.is.