Randy Blythe er mikill ömmustrákur.
Randy Blythe er mikill ömmustrákur. — AFP/Suzanne Cordeiro
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar amma hans lá banaleguna fyrir ekki svo löngu, 94 ára að aldri, spurði Randy Blythe hana hver væri stóri munurinn á hennar kynslóð og fólkinu sem nú er í blóma lífsins. Hinn heimspekilega þenkjandi söngvari bandaríska málmbandsins Lamb of God…

Þegar amma hans lá banaleguna fyrir ekki svo löngu, 94 ára að aldri, spurði Randy Blythe hana hver væri stóri munurinn á hennar kynslóð og fólkinu sem nú er í blóma lífsins. Hinn heimspekilega þenkjandi söngvari bandaríska málmbandsins Lamb of God bjóst fastlega við að hún myndi nefna annaðhvort tölvutæknina eða alþjóðahyggjuna. En nei, sú gamla var viss í sinni sök: „Randy minn, fólk er ekki eins náið og það var!“

Þetta kemur fram í viðtal við Blythe í tímaritinu RVA en hann vinnur nú að öðru bindi endurminninga sinna, Just Beyond the Light: Living With the War Inside My Head, sem koma mun út í febrúar á næsta ári. Þá verða einmitt tíu ár liðin frá því að fyrsta bindið, Dark Days: A Memoir, kom út.

Í nýju bókinni ku Blythe beina sjónum að þeim aðferðum sem hann hefur tileinkað sér til að halda sem bestri heilsu, andlegri og líkamlegri, í óreiðukenndum og oft og tíðum óútreiknanlegum heimi. Að sögn útgefandans minnir Just Beyond the Light okkur lesendur á að svo lengi sem við sitjum makindalega í veruleikanum þá muni himinninn ekki hrynja yfir okkur – þannig hafi það alltaf verið og verði alltaf.

Til þess að finna jafnvægið og freista þess að skilja það leitaði Blythe til fólks sem hann lítur upp til, svo sem ömmu sinnar. Spurður hvort hann deili téðu sjónarmiði með henni svarar söngvarinn:

„Á margan hátt en ég held samt að þetta [mannleg samskipti] sé ekki glatað fyrir fullt og fast. Það sefur bara þyrnirósarsvefni, grafið undir öllu iCloud-þvaðrinu, en mun svo rísa upp og bíta okkur í óæðri endann. Við munum alltaf þurfa á aðstoð að halda, með einum eða öðrum hætti. Fólk þekkir ekki nágranna sína lengur og tilfinningin fyrir samfélaginu sem slíku er ekki eins sterk og hún var. Fólk hefur aldrei verið eins einmana og í þessum yfirtengda heimi – einkum ungt fólk. Samskipti þess við umheiminn eiga sér stað gegnum stafræna miðla sem stuðlar að sýndartengslum en eins og við þekkjum þá kalla alvöru tengsl á eiginlegan núning. Maður þarf að gefa af sér þegar maður er á staðnum, nokkuð sem er aukaatriði í stafrænum samskiptum, andspænis vegg nafnleyndarinnar.“

Í samtali við Loudwire Nights segir Blythe nýju bókina verða frábrugðna þeirri fyrri. Þar hafi hann fyrst og fremst verið að rekja sögu en að þessu sinni sé hann meira að velta vöngum um lífið og tilveruna. „Síðast var ég með vegvísinn fyrir framan mig en að þessu sinni var þetta miklu opnara. Og þetta er styttri bók – Guði sé lof.“

Kafrýnir í böl heimsins

Randy Blythe er ekki eini málmhausinn á heimspekibuxunum þessa dagana. Þannig kafrýndi Mike Muir, forsprakki Suicidal Tendencies, í böl heimsins í samtali við miðilinn Terra Brasil.

„Stóra vandamálið í mínum huga, hvar sem er í heiminum, er að fólk talar ekki lengur saman og skiptist þar af leiðandi ekki lengur á skoðunum,“ sagði Muir. „Fólk vill ekki lengur hafa samskipti. Það vill bara fá staðfestingu [á sínum sjónarmiðum]: „Þeir eru ömurlegir. Já, þeir eru ömurlegir. Þeir eru ömurlegir. Þeir eru ömurlegir. Já, maður.“ Geggjað samtal.“

Muir segir rótina liggja einmitt þarna, í áhuga- og virðingarleysi gagnvart skoðunum og sýn annarra. „Það er ekkert samtal í gangi og hvernig ætla menn þá að læra?“

Muir, sem kveðst vera með öllu ópólitískur og ekki nýta kosningarétt sinn, nefnir heimaland sitt, Bandaríkin, sem dæmi. „Ég kann ekki við neitt af þessu fólki sem er í framboði [til embættis forseta]. Það er auðvelt að geðjast ekki að því, vegna þess að það er vont fólk, frá mínum bæjardyrum séð. Sáuð þið Biden? Gaurinn er fjörgamall og ég hef aldrei kunnað við hann vegna alls konar ummæla sem hann hefur látið falla gegnum tíðina. Þá er mér sagt að ég geti ekki látið þetta út úr mér. Hvers vegna? Vegna þess að þá ertu að styðja Donald Trump. Hvers vegna er ég að lýsa yfir stuðningi við Trump ef ég segi eitthvað um Biden? Hvers vegna má maður ekki bara segja sannleikann? Hvers vegna einbeitum við okkur ekki að sannleikanum í stað þess að horfa bara á hver eigi í hlut?“

Á móti en ekki með

Í raun finnst Muir menn vera mun uppteknari af því að vera á móti einhverjum og einhverju, frekar en að vera með. „Sé hinn maðurinn [úr röngum stjórnmálaflokki] við völd, vilja menn að allt fari úrskeiðis. Bara vegna þess að hinn er við völd. Það er að mínum dómi galin heimspeki og þýðir að eitthvað er kerfislega í ólagi hjá okkur – miklu ólagi.“

Spurður hvers vegna hann nýti ekki atkvæðisrétt sinn svarar Muir: „Vegna þess að þegar ég var 12 ára man ég að einhver horfði í augun á mér gegnum sjónvarpið og sagði: „Ég býð mig fram vegna þess að ég ætla að gera líf þitt betra.“ Og ég hugsa með mér: Hvernig í andskotanum veit þessi dúddi hvað er betra fyrir mig? Pælið í hrokanum, að einhver sækist eftir völdum til að gera líf mitt betra. Hoppaðu upp í rassgatið á þér, segi ég bara. Skilurðu hvað ég er að fara? Síðan kemst viðkomandi til valda og hvað gerir hann eða hún þá?“

Svari nú hver fyrir sig.

Rétt að byrja sem höfundur

Þungamiðjan í fyrri bók Randys Blythes er atvik sem kom upp á tónleikum Lamb of God í Prag árið 2010 og eftirmál þess. Ungur áhorfandi féll þá fram af sviðinu, eftir að hafa brotist þangað í leyfisleysi, með þeim afleiðingum að hann lést. Blythe var síðar handtekinn og settur í gæsluvarðhald, grunaður um manndráp af gáleysi en sýknaður fyrir dómi. Málið hafði að vonum djúpstæð áhrif á hann.

Einhverjir voru vonsviknir yfir því hversu lítið var í reynd fjallað um Lamb of God og málm yfirhöfuð í bókinni og sama sýnist manni koma til með að verða uppi á teningnum varðandi þá nýju. Enginn skyldi þó örvænta en Blythe upplýsir í samtalinu við Loudwire Nights að hann sé rétt að hefja sinn feril sem rithöfundur.

Höf.: Orri Páll Ormarsson