Við Íslendingar eigum hvorki að nota smæð okkar sem afsökun til þess að láta okkar eftir liggja, né gorta okkur af henni þegar okkur auðnast að leggja eitthvað af mörkum.

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Það eru ætíð mikil og hátíðleg tímamót í Íslandssögunni þegar farsæll forseti er kvaddur og nýr tekur við. Embætti þjóðhöfðingja á Íslandi er tákn um algjört fullveldi og sjálfstæði okkar fámennu þjóðar og hefur mikilvægt hlutverk í íslensku þjóðlífi. Þótt forseti taki almennt ekki þátt í flokkspólitískri umræðu eða stefnumótun þá gegnir forseti mikilvægu leiðtogahlutverki í íslensku samfélagi. Mörg af þeim málefnum sem hafa mest áhrif á velferð og líðan okkar sem einstaklinga og samfélag eru nefnilega alls ekki flokkspólitísk í eðli sínu. Þau sterku skilaboð um hugrekki, þrautseigju og sköpunarkraft sem Halla Tómasdóttir lagði áherslu á í ræðu sinni á fimmtudaginn eru mikilvæg fyrir þjóðarsálina á þeim tímum sem við lifum. Sem stjórnmálamaður, en ekki síður sem manneskja og foreldri, finn ég ýmislegt í málflutningi og starfsferli okkar nýja forseta sem veitir innblástur.

Kosningabaráttan var áhugaverð fyrir stjórnmálamann að fylgjast með. Fyrir þau okkar sem gegna forystuhlutverkum í íslensku samfélagi var ýmislegt til að hugsa um og læra af. Hin hatramma og oft sjálfhverfa mynd sem flokkspólitíkin tekur á sig dregur úr virðingu fyrir mikilvægum störfum og hefur neikvæð áhrif á möguleika okkar stjórnmálamanna til þess að láta gott af okkur leiða, sama hvar í flokki við stöndum.

Heima og að heiman

Í innsetningarræðu sinni nefndi Halla atriði sem ég tel að við öll eigum að taka til okkar og íhuga. Hún nefndi hinn vaxandi skugga einmanaleika sem hvílir yfir sífellt fleirum og áhrif þess að „margir dvelja lengur í rafheimum en raunheimum“. Þetta eru ekki flokkspólitísk málefni en þau þurfa að vera ofarlega í huga okkar allra sem helgum starfskrafta okkar þeirri hugsjón að tryggja og efla lífsgæði og velferð íslensku þjóðarinnar. Á svo marga vegu erum við öll í sama liði hvernig sem vindar blása í pólitísku argaþrasi hversdagsins.

Þegar kemur að utanríkismálum á það jafnvel enn betur við en innanlands að samstilltir strengir hljóma best. Á útivelli erum við öll í sama búningi og sama liði. Þess vegna skiptir það okkur miklu máli að forsetinn sé verðugur fulltrúi íslensku þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi eins og raunin hefur verið um öll þau sem gegnt hafa embættinu fram til þessa. Mikilvægt er að utanríkisráðherra og utanríkisþjónusta leggi sig fram um að styðja við hlutverk og skilaboð þjóðhöfðingjans á alþjóðavettvangi; og að sama skapi er mikilvægt að forsetaembættið hafi tækifæri til þess að styðja við utanríkisstefnu þjóðarinnar eins og hún er mótuð af ríkisstjórn, Alþingi og utanríkisþjónustunni.

Fyrir fámenna þjóð skiptir miklu máli að góð sátt og samstaða einkenni utanríkisstefnuna. Í þeim efnum skiptir máli að rækta sérstaklega samskipti við þau ríki sem standa okkur næst alþjóðlega. Samband okkar við Bandaríkin, Evrópusasambandið og Bretland eru okkur ómetanleg, en fyrir fámenna þjóð eru tækifæri okkar til beinna áhrifa helst í samstarfi við önnur ríki sem ekki teljast til stórþjóða. Af þeim sökum hef ég lagt sérstaka áherslu á að rækta, dýpka og efla samstarf og sameiginlegan vettvang Eystrasaltsríkjanna þriggja og Norðurlandanna fimm. Á þeim vettvangi ríkir sönn vinátta, gott jafnvægi og hugmyndafræðileg samstaða á flestum sviðum.

Auðmýkt og raunsæi

Það er mikilvægt að við séum auðmjúk og raunsæ varðandi hlutverk okkar á því sviði. Við Íslendingar eigum hvorki að nota smæð okkar sem afsökun til þess að láta okkar eftir liggja, né gorta af henni þegar okkur auðnast að leggja eitthvað af mörkum. Við eigum einfaldlega að vera meðvituð um að sumt getum við ekki gert vegna smæðarinnar, en sumt annað, sem hinir stærri eiga erfiðara með, getum við einmitt gert vegna hennar; í krafti smæðarinnar. Ég var því ánægð að heyra nýjan forseta segjast sannfærð um mikilvægt hlutverk Íslands með orðunum: „Ég tel styrk okkar ekki síst felast í smæðinni og – í mýktinni.“

Við embættistöku nýs forseta kveðjum við Guðna Th. Jóhannesson, sem hefur sannarlega verið góður fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi og skilið eftir sig djúp spor. Samstarf okkar hefur verið sérstaklega gott. Væntumþykja hans á þjóðinni, sögu hennar og fólkinu er augljós, hlý og sönn. Ég sendi honum og fjölskyldu hans mínar hlýjustu kveðjur með einlægri þökk.

Ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með að hafa nú tekið við embætti forseta Íslands. Þar sem góð samvinna milli forsetaembættisins og utanríkisráðuneytis er ákaflega mikilvæg er ég spennt fyrir því að hafa tækifæri til þess að eiga í góðu samstarfi við nýjan forseta og vera saman með henni í liði fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum vettvangi.