Björn Guðmundsson fæddist á Akureyri 24. janúar 1952. Hann lést á heimili sínu 10. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Björnsson vélaverkfræðingur, f. 2. nóvember 1925, d. 13. des 1988, og Guðlaug Lovísa Ólafsdóttir húsmóðir, f. 31. janúar 1924, d. 24. ágúst 2020. Systkin Björns eru Borghildur, f. 20. júní 1949, Rannveig, f. 1. október 1950, Guðrún, f. 2. apríl 1956, og Ólafur, f. 11. apríl 1958.

Hinn 5. janúar 1973 kvæntist Björn eftirlifandi eiginkonu sinni, Rebekku Sigrúnu Guðjónsdóttur sjúkraþjálfara, f. 23. september 1952. Börn þeirra eru: 1) Auður mannauðsstjóri, f. 2. október 1974, maki Eiríkur Kristinsson, f. 1. október 1974. Börn þeirra eru Sigríður Halla, f. 28. nóvember 2001, Björn Orri, f. 15. júní 2005, og Rebekka Ylfa, f. 18. febrúar 2016. 2) Unnur verkfræðingur, f. 17. apríl 1979, maki Burkni Maack Helgason, f. 2. desember 1978. Börn þeirra eru Helga Lilja, f. 18. maí 2008, Dagur Einar, f. 22. maí 2011, og Alda María, f. 2. júlí 2016. 3) Guðmundur hönnuður, f. 11. mars 1983. Dóttir hans er Hekla, f. 7. apríl 2021.

Björn ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR 1972. Hann lauk B.Sc.-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1980. Björn vann hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins frá 1980-1998 sem sérfræðingur, hjá kavíarverksmiðjunni Björg hf. í Stykkishólmi frá 1987-1988 sem gæðastjóri og hjá Fiskimjöli og lýsi hf. frá 1998-2000 sem gæðastjóri.

Útför Björns fór fram 26. júlí 2024.

Við minnumst Björns bróður okkar sem hægláts fjölskyldumanns og náttúruunnanda. Minningarnar eru margar af gönguferðum um umhverfi Reykjavíkur, ferðalögum um Ísland og veiðiferðum til Miðfjarðar í æsku með foreldrum okkar og seinna með fjölskyldu hans. Björn átti til brellni en var ávallt tilbúinn til þess að hjálpa og styðja þegar á reyndi.

Tónlist var alltaf stór þáttur í lífi Björns, fyrst skapandi rokktónlist sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar, seinna og í auknum mæli klassísk tónlist. Með áhuga sínum hafði Björn mótandi áhrif á tónlistarsmekk og áhuga okkar systkinanna allra.

Björn fór sínar eigin leiðir. Fimm ára gamall og nýfluttur í Heimana vestan úr bæ lagði hann land undir fót einn daginn, eitthvað óánægður með breytingarnar á umhverfi sínu. Hans varð ekki vart fyrr en hann bankaði upp á hjá afa sínum og ömmu á Grenimel. Eins fór hann eigin leiðir í mörgu á lífsleiðinni og myndaði sér skoðanir á grunni eigin rannsókna, ekki bara almenns fréttaflutnings.

Hann var mikill grúskari. Sem stálpaður krakki las hann sér til um burð hljóðbylgna og kom sér upp eigin síma með vini sínum í næsta húsi. Var þá strengdur stífur nælonþráður á milli svefnherbergisglugga vinanna og báðir endar límdir við botn ísbikars úr pappír. Bikarinn virkaði hvort tveggja sem hljóðnemi og heyrnartól, borinn upp að munni eða eyrum eftir því sem við átti. Hljómgæðin voru takmörkuð en þó mátti greina orðaskil og skilja eitthvað. Seinna beindist grúskið m.a. að ljósmyndun, ljósmynda- og hljóðtækni, en líka sögu og stjórnmálum.

Nú kveðjum við kæran bróður og góðan dreng. Við erum þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem Björn skildi eftir sig og vottum Sigrúnu og börnunum okkar dýpstu samúð.

Borghildur, Rannveig, Guðrún og Ólafur (Óli).